sunnudagur, október 23, 2011

23. október 2011 - Af landsfundi Samfylkingarinnar

Hvernig á ég að geta tjáð mig um landsfundinn? Ég var ekki einu sinni þar. Það er samt engin ástæða til að örvænta. Ég er ekkert hætt í Samfylkingunni og ekki á leið út.

Ástæða þess að ég skrópaði frá landsfundinum var sú að ég var á stöðugum fundum og námskeiðum á milli næturvakta á fimmtudag og föstudag og þegar síðasta námskeiðinu lauk um klukkan 17.00 á föstudag var landsfundur Samfylkingarinnar byrjaður. Mér fannst á þeim tíma sem að mæting á þeirri stundu yrði sem þátttaka í halelújasamkomu. Ég fór því heim og var skriðin upp í rúm löngu fyrir miðnætti og svaf í hálfan sólarhring. Þegar ég vaknaði aftur nennti ég ekki út fyrir dyr, ekki einu sinni á landsfund. Fyrirgefið félagar, eigin velferð varð að ganga fyrir velferð Samfylkingarinnar.

Ég hefi meiri áhyggjur af mætingarleysi annarra en minnar. Það vantaði margar þungaviktarmanneskjur á landsfundinn og ein þungaviktarmanneskja sem skrópaði lýsti því á eftirfarandi hátt í tölvupósti til mín í dag:
er eitthvað óskaplega pirruð út í minn flokk sem nýtir illa sérfræðiþekkingu hjá stórum hópi fólks, vanvirðir algerlega sína reynslubolta, og alltof margir ginnkeyptir fyrir valdinu í stað þess að nýta fólk  sem gæti komið málstað og góðum málum í farveg.  Bévítans kjördæmapot!“
Ég vildi ekki taka svo djúpt í árinni, en er enn ósátt við orð viðskiptaráðherra sem lýsti yfir stuðningi við opin prófkjör. Í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík eru um fimm þúsund skráðir meðlimir, en einungis þúsund sem greiða félagsgjöld. Hvar eru hinir fjögur þúsund félagarnir? Jú, sumir eru virkir meðlimir í Sjálfstæðisflokknum, aðrir í Framsóknarflokknum, enn aðrir eru óflokksbundnir að öðru leyti en létu skrá sig í Samfylkinguna til að taka þátt í prófkjöri til stuðnings einum ákveðnum frambjóðanda, en hafa enga samstöðu með jafnaðarmönnum að öðru leyti.

Sjálf hefi ég ávallt talið mig vera langt til vinstri í pólitík. Ég er friðarsinni, er andvíg vopnaburði og  hernaðarbandalögum þar á meðal NATÓ. Ég er virk í baráttunni gegn dauðarefsingum með þátttöku minni í Amnesty International, en um leið hefi ég kynnst því hve Evrópusambandið hefur stuðlað að réttindum minnihlutahópa, fjölskylduvænni vinnumarkaðslöggjöf og eðlilegum fjármálamarkaði. Því get ég ekki stutt flokka sem berjast gegn Evrópusamvinnu eins og VG og hefi því sagt skilið við stuðning minn við Vinstri hreyfinguna grænt framboð þótt ég hafi aldrei verið flokksbundin þar, en verið virk í Samfylkingunni síðustu fimm ár. Um leið sé ég ýmsar blikur á lofti innan Samfylkingarinnar. Við sem héldum að Samfylkingin væri laus við allt sem heitir spilling verðum að fara í naflaskoðun og ég veit að slík naflaskoðun hefur farið fram og tekið á málum innan Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Þessi naflaskoðun þarf bara að ná miklu víðar innan flokksins.

Nóg er af þrasi og tími til kominn að lesa úr niðurstöðum landsfundarins í þeirri von að Samfylkingin geti orðið það afl sem segir skilið við spillingu, kunningjaræði og einkavinavæðingu á öllum sviðum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli