Ég er ekki mikil manneskja á sviði sifjaspjalla. Sifjaspell og kynferðislegt ofbeldi gagnvart er eitthvað sem mér finnast svo fráleit og óhugsandi að ég á erfitt með að horfast í augu við slíkt, ekki síst eftir að ég fékk að heyra að slíkt hefði hugsanlega viðgengist á barnaheimilinu þar sem ég ólst upp, þvert á æskuminningar mínar. Vegna þess hefi ég verið fremur vantrúuð á slíkt.
Um mánaðarmótin nóvember og desember árið 1994 var heill Kastljósþáttur Ríkissjónvarpsins helgaður baráttu minni fyrir að fá að leiðrétta kyn mitt. Þar birtist ítarlegt viðtal við mig sem og við þáverandi biskup Íslands, herra Ólaf Skúlason sem lýsti yfir undrun og skelfingu sinni yfir því að einhver manneskja vildi skipta um kyn. Ég fékk þennan Kastljósþátt sendan til mín til Svíþjóðar á myndbandi, enda blessunarlega fjarverandi er hann var sýndur og síðan hefi ég ekki verið óspjölluð mey sem opinber persóna.
Er ég skoðaði myndbandið fylltist ég gremju í garð biskups og eftir að Sigurður Þór Guðjónsson (síðar vinur minn) skrifaði grein í Morgunblaðið um orð biskups, ákvað ég að skrifa bréf til biskups þar sem ég útskýrði málstað þess fólks sem þjáist af kynáttunarvanda. Mér til undrunar fékk ég svar frá Ólafi Skúlasyni biskup þar sem hann bað mig afsökunar á orðum sínum og lýsti yfir skilningi á stöðu okkar í samfélaginu. Ekki man ég lengur nákvæmlega hvernig hann orðaði bréfið sem er vandlega geymt niðri í kjallara, en það varð til þess að ég fyrirgaf honum orð sín um fólk í minni aðstöðu. Ég hafði kynnst Ólafi Skúlasyni lítillega á sjöunda áratugnum er hann var sóknarprestur í Bústaðakirkju og kom oft til Axels L. Sveins sem var formaður sóknarnefndar og sem ég hefi ávallt litið á sem velgjörðarmann minn, en Axel var barnabarn Hallgríms Sveinssonar biskups (1889-1908) og lést vorið 1969.
Þegar Guðrún Ebba Ólafsdóttir kom fram opinberlega með ásakanir á hendur föður sínum voru þær slíkar að ekki var hægt annað en að trúa þeim og viðurkenna að ég hafði haft rangt fyrir mér er ég talaði vel um Ólaf Skúlason biskup. Hann átti þó sínar góðu hliðar sem ekki er hægt að horfa framhjá. Ég var því efins er ég heyrði um fyrri ásakanir á hendur honum, en þarna kom ískaldur sannleikurinn í ljós með orðum Guðrúnar Ebbu dóttur hans.
Nú koma fram ásakanir á hendur Karli Sigurbjörnssyni biskup vegna aðgerðarleysis hans gagnvart Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og fjöldi fólks krefst afsagnar hans. Ég lendi aftur í klemmu því ég á honum örlítið verk að þakka. Hann var nefnilega sá sem leysti mig frá hjónabandi vorið 1984 er ég og fyrrum maki (eiginkona) skildum að borði og sæng frammi fyrir Karli Sigurbjörnssyni þáverandi sóknarpresti í Hallgrímssókn í Reykjavík. Séra Karl vann sitt verk fljótt og vel og leysti okkur báðar undan skyldum sem ég gat ekki staðið við og voru óumflýjanlegar.
Ég tek ekki afstöðu til afsagnar Karls Sigurbjörnssonar biskups.
mánudagur, október 10, 2011
10. október 2011 - Um biskupa
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:18
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli