Litli gönguhópurinn minn gekk norðanvert Álftanesið á þriðjudag í suðaustan strekkingi og skúrum. Ekki beint heppilegt veður, en við vorum ekkert að leita að góðu veðri, heldur lifandi náttúru. Ólafur var ekki heima og hvergi sáum við Dorrit sinna æðarvarpinu á meðan bóndinn var fjarverandi. Hinsvegar sáum við til bötlersins vera að undirbúa að merkja fleiri kolluhreiður en þau sem þegar höfðu verið merkt. Ekki veitti af því mörg hreiðrin voru ómerkt og auðvelt að valda skaða ef ekki er gætt ítrustu varkárni eins og við erum reyndar þekktar fyrir.
Tvennt í þessari gönguferð okkar fannst okkur vera hvimleitt að sjá og heyra. Annað var sóðaskapurinn. Það var mikið af allskyns rusli í fjörunni sem og langt inni á túnum Bessastaðabóndans og nágranna hans. Þarna voru tómar plastflöskur, leifar af veiðarfærum, plasteinangrun eftir einhverjar byggingaframkvæmdir og allskyns annað rusl sem ég nenni ekki að telja upp. Innan um ruslið voru svo æðarkollurnar á hreiðrum sínum og hreyfðu sig varla er við gengum varlega framhjá. Það mætti alveg taka aðeins til á túnum ef einhver þjóðhöfðinginn kemur í opinbera heimsókn. Það mætti kannski senda þá út á tún með tóma plastpoka og biðja þá að hjálpa til við ruslatínsluna.
Ég skal viðurkenna að það er ekki heppilegt að senda krakkana í unglingavinnunni út á túnið að hreinsa til strax eftir skólann vegna varptímans, en það mætti alveg láta tiltektir á svæðinu verða verkefni þeirra síðustu vikuna áður en þau hverfa aftur til skólans í haust. Ekki veitir af.
Annað var einnig ámælisvert þótt ekki verði Álftnesingum kennt um. Það er hávaðinn frá Vatnsmýrarflugvelli. Það var talsverð umferð á flugvellinum á meðan við vorum í göngutúrnum. Gamlar flugvélar, nýlegar flugvélar, stórar flugvélar og litlar flugvélar. Þrátt fyrir að við séum veikar fyrir hugmyndinni um Lönguskerjaflugvöll, verður okkur frekar skiljanlegt en áður því Álftnesingar vilja ekki flugvöll á Löngusker. Nægur er hávaðinn samt. Þar með er ekki sagt að Reykvíkingar eigi að sitja uppi með hávaðann um aldur og ævi. Kannski er einfaldast að senda innanlandsflugið suður á Miðnesheiði. Vilhjálmur borgarstjóri hlýtur að geta samið við kollega sinn og flokksfélaga um að taka við hávaðanum.
P.s. Ég er búin að ganga 40 km á þremur dögum í frægu átaki mínu sem kallað er: “Brennum aukakílóin”
-----oOo-----
Eftir kosningarnar lýsti Eyþór Arnalds því yfir að vegna góðs árangurs í kosningunum, þyrfti hann ekki að efna fyrri loforð sín um að halda sig frá pólitík uns hann hafi fengið sinn dóm og tekið út refsingu fyrir refsiverða háttsemi sína. Nú er ljóst að honum hefur snúist hugur og ætlar ekki að sinna sveitastjórnarmálum í Árborgarhreppi fyrr en að ári liðnu er hann fær aftur ökuskírteinið sitt. Það er vel og mættu aðrir í svipaðri aðstöðu gera slíkt hið sama.
miðvikudagur, maí 31, 2006
31. maí 2006 - Rusl hjá Bessastöðum
þriðjudagur, maí 30, 2006
30. maí 2006 - Að skjóta fyrst og spyrja svo
Á mánudag var myndaður nýr meirihluti í Reykjavík. Að venju og eins og búast mátti við féllust Íhald og Framsókn í faðma og verða væntanlega órjúfanlegir í hjónabandinu næstu fjögur árin eða þar til Framsóknarflokkurinn þurrkast endanlega út af kortinu.
Ég fór að skoða mátt Framsóknarflokksins síðustu fjóra áratugi eða frá 1962. Flokkurinn reyndist vera með tvo og í einhverjum tilfellum með þrjá borgarfulltrúa á sjöunda og áttunda áratugnum og komst upp í 17.2% fylgi í kosningunum 1970. Þó sýnist mér sem flokkurinn hafi byrjað að dala 1978 og þá farið í fyrsta sinn niður fyrir 10 prósent mörkin þegar Alþýðubandalagið vann sinn fræga stórsigur og fékk fimm borgarfulltrúa. Eftir það mældist flokkurinn með 9.5% 1982, 7.0% 1986 og 8.3% 1990. 1994 tók svo Framsókn þátt í R-listanum og fékk eftir það tvo fulltrúa þótt þeir ættu í reynd ekki að fá nema einn fulltrúa miðað við fylgið. Nú hefur fylgishrun Framsóknarflokksins í Reykjavík verið staðfest með talningu atkvæða og þá bregður svo við að flokkurinn er dreginn upp úr skítnum af stóra bróður í ríkisstjórninni, hlaðið á hann bitlingum og einasti borgarfulltrúi flokksins gerður að forseta borgarráðs. Þetta eru skrýtin verðlaun.
Þegar tilkynnt var um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn á stéttinni framan við hús Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í Hræfuglahólum (Máshólum) voru þeir saman í mynd og Vilhjálmur var enn með sitt frosna bros sem var sem límt á hann í Kastljósi sjónvarpsins á sunnudagskvöldið. Björn Ingi lét svo ummælt að þetta yrði borgarstjórn sem myndi iðka framkvæmdastjórnmál, þ.e. framkvæma fyrst og spyrja svo, en þetta hefur Björn Ingi væntanlega lært af stuðningi sínum við innrásina í Írak þar sem innrásarherinn stundar enn að skjóta fyrst og spyrja svo.
Ég vona að núverandi borgarstjórnarmeirihluti taki manngildið framyfir auðgildið, en ég treysti því enganveginn. Ég studdi R-listann allt frá þeim degi er ég flutti til Íslands fyrir réttum áratug síðan og með honum Alfreð Þorsteinsson og Sigrúnu Magnúsdóttur og síðar Önnu Kristinsdóttur borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í góðu samstarfi R-listans. Allan þennan tíma leit ég á sjálfa mig sem stuðningsmanneskju fjölflokkastjórnar Reykjavíkur og var sjálf óflokksbundin. Nú er þessu tímabili lokið og ég mun senn skrá mig formlega í stjórnmálaflokk sem ekki er í meirihluta í Reykjavík. Þetta er mér nauðsynlegt starfs míns vegna og skoðana minna vegna, bæði hvað snertir manngildi og friðarbaráttuna.
-----oOo-----
Stundum ratast kjöftugum satt orð á munn, en Ólafur F. Magnússon var hálfkjökrandi er hann fékk ekki að skríða upp í sæng Vilhjálms og lét þá eftirfarandi orð falla: “Svo koma menn út úr skápnum og búnir að trúlofa sig.” Þetta skil ég mjög vel, enda hefur löngum verið haft að orði að lík börn leika best. Ólafur var óþægur Sjálfstæðismaður, en Björn Ingi er þægur Sjálfstæðismaður.
mánudagur, maí 29, 2006
29. maí 2006 – Mistök í kjörstjórn og fyrstu kosningasvikin
Eins og ég hefi tekið fram áður, var ég að vinna í kjörstjórn á laugardaginn, þar sem ég sat sem “oddviti” þeirrar kjördeildar sem ég vann í. Vinnan gekk að mestu vel fyrir sig og var að mörgu leyti ánægjuleg, enda var ég þarna að kljást við mína fyrrum nágranna. Ég þekkti mörg andlit, oftast af góðu einu og var gaman að hitta kunnugleg andlit, þótt ég gætti þess vandlega að spyrja alla að skilríkjum formsins vegna, einnig þá sem ég þekkti. Þó kom fyrir að einn og einn kjósandi væri með leiðindi og reyndum við að leiða þau framhjá okkur um leið og við reyndum að beita sveigjanleika, þó án þess að víkja um of frá reglunum.
Ég minnist eins kjósanda sem kom að kjósa og þóttist vera illræmdur pulsusali og neitaði að framvísa skilríkjum. Ég gekk út frá því sem vísu, að enginn væri svo vitlaus að vilja vera þessi ónefndi pulsusali, neitaði manninum um kjörseðil og kallaði til yfirmanninn á svæðinu. Yfirmaðurinn kom og staðfesti við okkur að sá nærstaddi væri þessi umræddi pulsusali. Fékk hann síðan að kjósa og hvarf snúðugur á braut. Ég svaraði í sömu mynt og sleppti því að þakka manninum fyrir þátttökuna í kosningunum.
Eftirá hugsaði ég með mér að ég hefði sennilega gert mistök. Það er auðvitað enginn svo vitlaus að þykjast vera þessi illræmdi pulsusali nema hann sjálfur og því staðfesti hann hver hann væri með monti sínu og þvermóðsku.
--o--
Ég fékk ekki heiðurinn af að taka á móti brúðhjónum sem mættu á kjörstað í fullum skrúða, en þau lentu í annarri kjördeild mér óviðkomandi. Þar var þá allnokkur bið og þurftu þau að standa fyrir utan kjörklefann í allt að tuttugu mínútur í biðröð áður en þau komust að til að kjósa. Þarna fannst mér kjörstjórn umræddrar kjördeildar gera lítil mistök, því allir nálægir hljóta að taka tillit til þess að fólk sem mætir á kjörstað á einum stærsta degi lífsins, eigi að njóta forgangs.
--o--
Þegar kjörstaður opnaði á laugardagsmorguninn voru fjöldi sjónvarpsvéla í gangi og myndavélar á lofti, enda von á forsprakka eins framboðsins á hverri stundu. Ég þóttist vita hvað væri í gangi og sminkaði mig alveg eins og sjónvarpsstjarna áður en ég stillti mér upp í kjördeildinni og hóf að undirbúa kjörfund. Upptökumaður sjónvarpsins virtist líka vera alveg sérlega hrifinn af mér og myndaði mig í bak og fyrir þar sem ég var að telja atkvæðaseðla. Í fréttum kom ég svo hvað eftir annað fyrir í mynd á Stöð 2, en ríkissjónvarpið lét sér nægja að sýna mynd af mínum vinnulúnu höndum með þrjár brotnar neglur og áberandi exem vera að telja atkvæðaseðla!
-----oOo-----
Nokkru fyrir kosningar var ónefndur forsprakki eins framboðsins í Árborg (nú kölluð Tuborg) tekinn fullur eftir að hafa keyrt niður ljósastaur og í iðrun sinni lofaði hann kjósendum því að koma ekki nálægt pólitík fyrr en búið væri að dæma í máli hans og hann hefði tekið út sína refsingu. Það var vart búið að telja atkvæðin eftir kosningarnar sem umræddur stútur tilkynnti kjósendum, að hann hefði unnið svo góða kosningu að hann þyrfti ekki að efna kosningaloforð sitt. Þetta finnst mér lélegt og sýnir vel hvern mann Eyþór Arnalds hefur að geyma.
-----oOo-----
Einn ágætur móðurbróðir minn, búsettur í Svíþjóð, fékk snert af heilablóðfalli fyrir nokkru síðan. Ég hefi lítillega fylgst með fréttum af honum, en hringdi í hann á sunnudaginn vitandi að hann var kominn heim af spítalanum. Hann var þá hinn hressasti og kjaftaði á honum hver tuska, þó örlítið þvoglumæltur. Meðal annars nefndi hann að hann hefði komist alveg að Gullna hliðinu og bankað, en Lykla-Pétur hefði ekki viljað hleypa sér inn.
sunnudagur, maí 28, 2006
28. maí 2006 – Af vinnu við kosningar
Ég var að vinna á kjörstað allan laugardaginn, meira og minna sambandslaus við umheiminn. Ekkert útvarp, ekkert sjónvarp, engin dagblöð og enginn kosningaáróður. Það hefði verið í lagi ef greitt hefði verið sæmilega fyrir þessa fimmtán tíma vinnu. Svo var þó ekki. Launin eftir skatta á slíkum degi nægja vart fyrir salt í grautinn þann daginn sem kosningarnar standa.
Þegar vinnunni lauk klukkan 23.00 var ég komin með upp í kok af pólitík, kannski ekki pólitík beint, en alveg örugglega kjósendum sem þó höfðu ekkert til sakar unnið annað en að vera leiðinlegir. Á sama tíma var ég búin að missa af öllu skemmtilegu í bæjarlífinu. Ýmsar þær skemmtilegu uppákomur sem fylgja kosningum komu mér ekki til góða af því að ég var bundin inni á kjörstað allan daginn. Þá er þreytan eftir slíkan dag slík að skriðið er heim í stað þess að fara á kosningavökur. Ég hafði ekki einu sinni áhuga fyrir að skreppa á Næstabar á kosningavöku pólitískra munaðarleysingja.
-----oOo-----
Eftir að heim var komið bárust mér fréttir af eldsvoða um borð í Akureyrinni EA-110 þar sem tveir menn fórust. Eldsvoði um borð í skipi á hafi úti er eitthvað það versta sem hægt er að lenda í til sjós og fréttir af þessu hræðilega slysi fylla mig vanlíðan. Fjölskyldur þessara tveggja áhafnarmeðlima eiga samúðarkveðjur mínar allar sem og allir eftirlifandi skipverjar og aðstandendur þeirra.
laugardagur, maí 27, 2006
27. maí 2006 - Köttur uppi í tré
Ég þurfti að fara upp í Fellahverfi á föstudagskvöldið til að gefa ketti vinkonu minnar sem stödd er í Englandi þessa dagana. Þar sem ég átti enn eftir að ljúka göngukvóta vikunnar, hleypti ég kisunni Hrafnhildi út í garð um leið og ég rölti af stað. Gangan gekk vel og ég hafði af að komast upp í Rjúpufell, gaf ketti vinkonunnar og hélt svo til baka með útúrsnúningum til að lengja göngutúrinn upp í tvo tíma.
Er ég kom í garðinn heima tók ég upp lyklakippuna mína og hristi hana til að láta Hrafnhildi vita að ég væri komin heim. Nágrannar mínir kölluðu þá í mig og bentu mér upp í tré. Þar sat Hrafnhildur litla ofarlega í hárri ösp og þorði ekki niður. Að sögn nágrannanna hafði lítill hundur mætt á svæðið og byrjað að gelta að henni og það reyndist nóg til að Hrafnhildur klifraði hratt og vel upp í næsta tré og þar hélt hún sig lafhrædd og vældi ámáttlega. Ekki var það til að bæta sálarástand kisunnar að ein nágrannakisan, lítil og horuð fór upp í tréð og hoppaði allt í kringum mína án nokkurra erfiðleika en Hrafnhildur litla, spikfeit og sælleg, þorði sig hvergi að hræra.
Ekki gat ég skilið vesalings kisuna eftir upp í tré og leitaði að stiga en fann engan. Þá kallaði ég í víkingasveit lögreglunnar en sá fljótt að þeirra góðu ráð til að ná kisu niður væru of róttæk fyrir litlar kisur. Að lokum ákvað ég að fara inn og í kvöldbaðið í von um að kisa fyndi sér leið niður á meðan ég væri fjarverandi.
Á meðan ég lét renna í baðið, labbaði ég út á svalir og hristi lyklakippuna. Þá tók Hrafnhildur litla við sér og hoppaði niður um tvær greinar. Ég hristi betur og kisa þokaðist niður um eina grein í viðbót. Þegar baðið var tilbúið, vantaði enn bara nokkra metra í að kisa kæmist alveg niður og enn stefndi hún niður á við. Ég fór niður til að vera tilbúin þegar kisa kæmist alla leið, en er ég kom niður stigaganginn mætti ég einni nágrannakonunni með kisu litlu í fanginu. Þar urðu auðvitað hinir mestu fagnaðarfundir og fengu báðar kisurnar aukaskammt af rækjum fyrir svefninn.
Miðað við áhuga ýmissa nágranna minna sem eiga aðgang að garðinum, að hrakförum Hrafnhildar litlu, fæ ég á tilfinninguna að ég eigi góða granna.
föstudagur, maí 26, 2006
26. maí 2006 - Sjóræningjar?
Það eru erlendir togarar að fiska á Reykjaneshrygg rétt utan við 200 mílna lögsögu Íslands. Íslensk stjórnvöld tala ávallt um þessa togara sem sjóræningja af því að þeir eru skráðir í ríkjum sem ekki eru aðilar að fiskveiðiráði Norðausturatlantshafsins. Sjálf myndi ég gæta orða minna ef ég þyrfti að gefa út yfirlýsingar á borð við yfirlýsingar Landhelgisgæslunnar.
Nokkur þessara skipa eru skráð með heimahöfn í örríkinu Dominica, en eyja þessi er í Karabíska hafinu, skammt frá annarri eyju sem heitir Antigua. Eyjarnar Antigua og Barbua er svo sérstakt örríki og þar eru nokkur skip Eimskips með heimahöfn sem og fleiri skip sem sigla reglulega á milli Íslands og annarra landa. Þess má geta að hvorugt þessara örríkja eru meðlimir í nefndu fiskveiðiráði. Stjórnvöldum þessara örríkja er hjartanlega sama um gámaflutninga eða fiskveiðar í Atlantshafi á meðan umrædd skipafélög greiða nokkrar krónur í skráningargjöld til örríkisins. Því sjá íslensk og rússnesk sjóræningjafyrirtæki (svo notuð séu orð Landhelgisgæslunnar) sér leik á borði og skrá skip sín á þessum eyjum.
Sá er þó munur á þessum fyrirtækjum, að togararnir eru að útrýma karfa hér í samkeppni við í óþökk íslenska stjórnvalda, en hin eru að útrýma íslenskri farmannastétt með stuðningi íslenskra stjórnvalda.
-----oOo-----
Eitthvað heyrði ég ávæning af frétt þess efnis í gær, að Halldór Ásgrímsson ætlaði að segja upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna ef Bandaríkjamenn fara á brott með her sinn. Þetta þótti fréttastofu útvarpsins mikil frétt. Það sem mér þykir frétt í þessu sambandi er það að Halldór skuli ekki enn skilja að herinn er að fara.
Einhver hefði orðað þetta sem að of seint væri að grípa fyrir rassinn þegar kúkurinn er dottinn.
fimmtudagur, maí 25, 2006
25. maí 2006 – Almenn dagbókarfærsla
Ekki ætla ég að byrja almenna dagbókarfærslu með því að tilkynna hvað ég drakk marga kaffibolla fyrir hádegi. Þá væri nú betra að finna sér eitthvað annað til dundurs en að blogga. En samt, ég drakk einhverja kaffibolla samt fyrir hádegið og síðan skrapp ég úr vinnunni og á fund hjá Kynfræðslufélaginu þar sem ég hélt erindi um transgender. Það tókst allsæmilega, en ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri á fundinum sem var sæmilega kynntur að ég held. Það er þó greinilegt að transgender málefni eru ekki jafnmikilvæg í augum íslensku þjóðarinnar og til dæmis spurningin hvort leggja eigi Miklubrautina í stokk eða hvort leggja eigi aukagjald á opinber bílastæði.
Erindið sem ég flutti verður seint talið til heimsbókmenntanna. Til þess var það ekki nægilega hnitmiðað og ákveðið, kannski eilítið ruglingslegt fyrir það fólk sem ekki þekkir til transgender. Það verður samt að hafa sinn gang og vonast ég til að ég geti þá notað sama erindi aftur í endurbættri útgáfu næst þegar ég verð látin flytja erindi. Hið jákvæða við erindið var þó að ég hitti í fyrsta sinn á ævinni konu sem mér fannst ég gjörþekkja og hefi miklar mætur á, Sólveigu Önnu Bóasdóttur guðfræðing og siðfræðing af Stuðlaætt, en hún var fundarstjóri á fundinum.
Það var allt á fullu í vinnunni þegar ég kom til baka Fullt af verktökum að vinna við kerfiráðinn og mitt í öllu á sama tíma og verið var að vinna við lokanir á kerfum úti í bæ. Síðan mættu tveir fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórnstöðina í atkvæðaleit. Ég var þreytt þegar ég loksins kom heim. Þar var annars konar umstang, fólk að flytja úr einni íbúð og fólk að flytja inn í aðra íbúð, allt á sama tíma. Merkileg tilviljun þegar haft er í huga að einungis átta íbúðir eru í stigaganginum.
-----oOo-----
Halldór Ásgrímsson kvartaði sáran í gær yfir mannvonsku íslensku þjóðarinnar og hve hún hafi vegið ódrengilega að Framsóknarflokknum að undanförnu og líkir árásum á flokkinn við árásir á Ólaf Jóhannesson þáverandi dómsmálaráðherra eftir miðjan áttunda áratug tuttugustu aldar. Það er nú gott að heyra, ekki síst sú einfalda staðreynd að helmingur þjóðarinnar eru konur, en ekki drengir.
Ekki ætla ég að fara að rifja upp þær deilur sem spruttu af ætluðum tengslum Framsóknarflokksins við Geirfinnsmálið á sínum tíma. Geirfinnsmálið er að auki þess verra að vitna til, að ég held að flestir geri sér grein fyrir því í dag að málalok þess á sínum tíma voru tilbúningur og að í reynd er málið enn óupplýst. Hinsvegar fóru orð Ólafs Jóhannessonar út um allt landið og miðin er hann kallaði ritstjórn dagblaðsins Vísis fyrir mafíu í útvarpsviðtali. Í kjölfarið fóru ritstjórar Vísis í mál við dómsmálaráðherrann sem svaraði með því að hunsa ákæruna og var síðan dæmdur til fébóta af verkum sínum.
Ekki veit ég hvort hægt sé að líkja þessu tvennu saman. Mér sýnist í fljótu bragði að helstu andstæðingar Framsóknarflokksins í þessum kosningum séu sjálfir Framsóknarmenn, meðal annarra bílstjóri Hömmersins fræga sem lagði í fatlaðrastæðið. Ritstjórar Vísis á sínum tíma voru þó pólitískir andstæðingar dómsmálaráðherrans. Þá hefur innkoma Björns Inga ekki verið Framsóknarflokknum til þess framdráttar sem ætlað var. Bæði Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir höfðu talsvert persónufylgi sem fylgir þeim persónulega án tillits til flokkshagsmuna. Á sama tíma er Björn Ingi á kafi í vinnu í óvinsælu ráðuneyti sem meðal annars studdi innrás Bandaríkjanna í Írak. Sjálf hefi ég ekkert á móti Birni persónulega og veit margt gott um hann, en hann er ekki Alfreð og hann er ekki Anna og ég hefi engar skyldur gagnvart honum.
Svo er ég búin að reka Björn Inga úr ætt við mig, en það er allt önnur saga.
þriðjudagur, maí 23, 2006
24. maí 2006 – Vesældin uppmáluð
Ég hefi ekki haft tíma til að sinna neinu bloggi á þriðjudagskvöldi. Ástæðan er sú að ég þarf að flytja stutt erindi um transgendermálefni á hádegisfundi á miðvikudag vestur í JL-húsi. Þrátt fyrir að ég sé margbúin að fara yfir erindið, finnst mér það enn mjög klúðurslegt. Ég hefi eytt kvöldinu í að laga nokkrar smávillur í því, en samt er ég mjög óhress með erindið, kannski vegna þess að ég veit ekkert um fólkið sem kemur til með að mæta á fundinn, samtímis því sem mikið hefur verið umleikis í vinnu. Svo biðu tvær svangar kisur eftir mér þegar heim var komið.
Ekkert meira að sinni. Meira á miðvikudagskvöldið.
23. maí 2006 - Á villigötum
Ég þurfti að keyra góða vinkonu mína og dætur hennar suður á Miðnesheiðarflugvöll á mánudaginn svo þær kæmust í flug til útlanda. Þessi ágæta vinkona mín er óstundvís með afbrigðum og því lögðum við ekki af stað fyrr en klukkan var að verða tvö þrátt fyrir ætlun hennar að leggja af stað klukkan eitt. Það lá á að komast á flugvöllinn í tíma, því hún ætlaði sér að versla einhver lifandis býsn á flugvellinum áður en vélin færi í loftið.
Að sjálfsögðu ók ég í loftköstum Keflavíkurveginn og þakkaði fyrir að sleppa í gegnum Kópavoginn, Garðabæ og Hafnarfjörð án mikilla tafa og síðan á fullri ferð á leyfilegum hámarkshraða. Allt gekk vel þar til komið var að Fitjum í Njarðvík, en þar hafði orðið umferðarslys. Tveir stórir fólksbílar með samtals ellefu manns höfðu skollið saman og níu manns á leið á slysadeild með skrámur. Við slysstaðinn var lögreglan og stjórnaði umferðinni. Í stað þess að hægja aðeins á umferðinni frá flugvellinum og lofa umferðinni til flugvallarins að halda beint áfram Reykjanesbrautina framhjá slysstaðnum, þar sem nóg var plássið, vísaði lögreglan allri umferðinni frá Reykjavík inn að Fitjum og þá leiðina inn til Keflavíkur.
Ég fylgdi á eftir röð bíla þar sem bílstjórarnir virtust ekki þekkja sérstaklega vel til Njarðvíkur/Reykjanesbæjar. Ekki ég heldur. Í leit að vegi inn á Reykjanesbrautina lenti öll bílaröðin sem ég var í, inni í íbúðahverfi og svo inn í blindgötu þar sem snúið var við. Afram var haldið en nú mun nær sjálfri Keflavík og eftir fleiri tilraunir, fannst loksins illa merkt leið upp á Reykjanesbrautina og ég komst alla leið á flugvöllinn þar sem vinkona mín og dætur hennar bókuðu sig inn en ég hélt aftur til Reykjavíkur.
Ég fór að velta því fyrir mér hvort Keflvíkingar hefðu ákveðið að beita hinni gömlu aðferð Kópavogsbúa til að fjölga íbúum bæjarins. Hafa auðvelda leið inn í bæinn, en nánast vonlaust að rata í burtu aftur!
mánudagur, maí 22, 2006
22. maí 2006 - Vetrarveður
Góð vinkona mín og áhugamanneskja um ættfræði er bóndi á norðurausturlandi með myndarlegan fjárbúskap. Nú er sauðburður í algleymingi hjá henni, manni hennar og börnum sem ætti að vera hið besta mál fyrir bændur sem lifa af því sem jörðin gefur. Það er hinsvegar erfitt að standa í sauðburði þessa dagana, allt á kafi í snjó og hið versta vorhret. Ég hefi aðeins fengið að fylgjast með vorverkunum í gegnum netið og þótt þessi ágæta fjölskylda kveinki sér ekki, þá hún allan minn andlega stuðning í von um að senn verði betri tíð með blóm í haga.
-----oOo-----
Það hafa borist fréttir þess efnis að njósnað hafi verið um íslenska vinstrimenn með símahlerunum á árunum 1949-1968. Þetta hefur mér aldrei fundist vera frétt. Ég minnist þess er ég starfaði fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga á áttunda áratugnum, að það ekki hægt að tala viðkvæm símtöl í síma samtakanna, vitandi það að síminn var hleraður. Það heyrðist iðulega að ekki var allt með felldu þegar símtölum sem voru hleruð sló saman, þannig að komið var inn á hin samtölin. Það voru iðulega símtöl ýmissa vinstrisinnaðra aðila sem þóttu hættulegir að mati skósveina Bandaríkjastjórnar. Þetta þótti einfaldlega ekkert merkilegt vitandi það að símarnir voru hleraðir alla daga, þó án dómsúrskurðar. Við vissum jafnvel um staðsetningu hlerunarbúnaðar í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu auk þess sem við töldum okkur vita að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna væri ekki annað en opinber framhlið viðamikillar njósnastarfsemi Bandaríkjanna gagnvart íslenskum vinstrisinnum.
-----oOo-----
Þær fregnir hafa borist um heimsbyggðina að til standi að selja Eið Smára Guðjohnsen varamann ensk-rússneska fótboltafélagsins Seltjarnar mansali frá liðinu og hefur heyrst að Sameinaðir Mannshestar vilji kaupa gripinn, þó væntanlega að því tilskyldu að kappinn sé vel tenntur og hæfur til reiðar og að reiðtygin fylgi í kaupunum. Þetta finnst mér hið besta mál. Enn betra væri ef Sameining Mannshestanna fengi kappann fyrir lítinn pening því þá vantar góðan fyrirliða til að stjórna áframhaldandi sigurgöngu liðsins upp eftir brattanum og á toppinn.
Eitt er víst, að ef Eiður gengi til liðs við, hvort heldur er Sameinaða eða Sameininguna myndu hluthafarnir á Íslandi fagna ákaft.
Ég hefi aldrei getað skilið, af hverju mér hefur alltaf þótt örlítið vænt um Sameinaða Mannshesta. Varla er það vegna þess að ég á fjölda nákominna ættingja sem búa allt umhverfis Mannshestaborg og þá helst í nágrenni Halifaxhrepps. Af einhverjum ástæðum vilja þeir ekki deila áhuga mínum á Halifaxhreppi og halda áfram að halda með gamla liðinu sínu.
sunnudagur, maí 21, 2006
21. maí 2006 - Til hamingju Finnland
Ég er mjög sátt við úrslitin í Júróvisjón þetta árið. Þótt þetta þungarokkslag sé langt frá því að vera meðal bestu eða skemmtilegustu þungarokkslaga sem ég hefi heyrt, þá áttu krakkarnir í Lordi skilið að fá smáumbun fyrir að bera þessa búninga dag eftir dag og kvöld eftir kvöld í sumarhitunum í Grikklandi.
Ég er ekki síður ánægð með að framlag Svíþjóðar lenti aðeins í fimmta sæti. Þrátt fyrir dálæti mitt á sænsku þjóðinni, þá er álit mitt á Carólu Häggkvist ekki jafnmikið og almennt á sænsku þjóðinni. Satt best að segja legg ég hana að jöfnu við annað trúarofstækisfólk og gildir þá einu hvort eiga í hlut Osama bin Laden, George Dobbljú Bush, Ulf Ekman eða Gunnar Þorsteinsson. Því var ég fegin því að Caróla lenti ekki ofar en raun bar vitni.
-----oOo-----
Ég gekk á Helgafellið ofan Hafnarfjarðar á laugardaginn. Þar sem ferðafélaginn þaut á milli steina eins og fiðrildi, skreiddist ég á eftir með öll aukakílóin í farteskinu í kulda og trekk og bölvaði sjálfri mér fyrir yfirþyngdina. Í gegnum huga minn fór gömul minning frá því er ég vann í orkuverinu í Hässelby í Stokkhólmi. Þar eru tveir skorsteinar 145 metra háir og í öðrum þeirra var hringstigi inni í skorsteinshúsinu alla leið upp í topp þar sem var fyrirtaks útsýnispallur allt umhverfis skorsteinstoppinn.
Stöku sinnum kom fyrir að utanaðkomandi fólk óskaði þess að fá að komast upp á topp skorsteinsins, en slíkt var aldrei samþykkt nema að einhver vakthafandi vélfræðingur fylgdi með upp skorsteininn. Eitt sinn fékk ljósmyndari einn leyfi til að fara upp og það lenti á mér fylgja honum upp. Þegar ég var komin rúmlega hálfa leiðina upp og blásandi af mæði eins og fýsibelgur, var ljósmyndarinn kominn upp allar 730 tröppurnar upp á topp og byrjaður að mynda. Það stóð á endum að þegar ég náði toppnum var hann búinn að ljúka verkefni sínu og tilbúinn að hlaupa niður aftur. Þvílíkt þol!
Þrátt fyrir þessar hugsanir mínar hélt ég áfram upp brattasta hjallann á fjallinu og rétt í þann mund sem þeim hjalla var lokið, mættum við hóp barna sem höfðu haldið upp á sjö ára afmæli eins þeirra á toppnum og voru nú í fylgd mæðra sinna á leið heim eftir hressilega fjallgöngu. Það var samt haldið áfram og móð og másandi náði ég toppnum og fagnaði ákaft miklum sigri á “erfiðu” fjallinu.
-----oOo-----
Til hamingju Halifaxhreppur. Á laugardaginn var loksins haldinn æsispennandi úrslitaleikur á milli Halifaxhrepps og Hérafordarnautanna um sæti í langneðstu deild. Eftir venjulegan leiktíma var jafnt á milli liða sem höfðu hvort um sig skorað tvö mörk. Reyndar misstu hetjurnar okkar af víti, en dómarinn sá ekki þegar eitt Hérafordarnautið sló boltann frá markinu með annarri framklaufinni. Í síðari hluta framlengingar skoraði eitt nautið afar ljótt mark og þannig endaði leikurinn að Nautin unnu leikinn og munu verða langneðst í langneðstu deild í haust, en hetjurnar okkar munu halda áfram að vera langbest í kvenfélagsdeildinni.
laugardagur, maí 20, 2006
20. maí 2006 - Silvía Nótt - lokaþáttur
Á föstudegi eftir undankeppni Júróvisjón keppast ýmsir aðilar í þjóðfélaginu að verja Ágústu Evu Erlendsdóttur, alias Silvíu Nótt eftir tap hennar í undankeppninni. Í sífellu er klifað á því hve hún sé góð leikkona og að lætin í henni hafi bara verið hluti af stóru leikriti og að Silvía Nótt sé leikin persóna.
Hvað á þá að segja um Ágústu Evu sem lék Silvíu Nótt? Hvað um alla keppendurna sem urðu fyrir háðsglósum og móðgunum Ágústu Evu í hlutverki Silvíu Nætur? Hvernig eiga þeir að leita réttar síns gagnvart aðilanum sem jós þá svívirðingum? Nægir þeim að hugga sig við að þetta var bara leikur? Getur Eyþór Arnalds ekki bara sagt að hann hafi verið að leika er hann keyrði niður ljósastaurinn á Sæbrautinni? Var þetta ekki bara leikur hjá Framsókn er þeir lögðu Hömmernum í fatlaðrastæði?
Nýjasta útspilið hjá Ágústu Evu alias Silvíu Nótt var að ásaka Carólu Häggkvist fyrir að hafa sofið hjá til að komast í lokakeppnina. Þrátt fyrir að ég hafi andstyggð á persónu Carólu Häggkvist, þá er þetta útspil Ágústu Evu alias Silvíu Nætur mjög alvarlegt mál og spurningin hvort ekki þurfi að grípa inn í og senda þessa stúlku heim með næsta flugi áður en hún verður íslensku þjóðinni til enn meiri skammar.
Verjendur Ágústu Evu, alias Silvíu Nætur afsaka hana með því að hún hafi bara verið að leika. Hver á þá að greiða hreinsun á fötum fólksins sem Ágústa Eva hrækti á eftir að úrslitin voru kunn? Getur viðkomandi ekki bara greitt skaðann sjálfur af því að Ágústa Eva var bara að leika Silvíu Nótt? Það er ekki endalaust hægt að kasta ábyrgðinni á eitthvað fyrirbæri sem er ekki til. Því hlýtur ábyrgðin að liggja hjá aðilanum sem framdi illvirkið eða þá hjá þeim aðila sem stjórnaði förinni, þ.e. íslenska sjónvarpinu alias íslensku þjóðinni!
Það skiptir litlu eða engu máli í hvaða tilgangi illvirki eru framkvæmd. Sá sem framkvæmir illvirkið hlýtur að bera kostnaðinn af því sjálfur, ekki sá sem varð fyrir því. Fyrir fólkið sem varð fyrir svívirðingunum skiptir engu máli hvort það var Ágústa Eva eða Silvía Nótt sem framdi glæpinn, en í hógværð sinni létu fulltrúar þjóðanna sér nægja að reka hana úr keppninni í refsingarskyni. Um það má svo deila hvort ekki sé kominn tími til að beita harðari refsiákvæðum en þeim að púa og mótmæla með atkvæðinu í Júróvisjón, t.d. að beita fésektum eða tímabundnum brottrekstri frá keppninni.
Með þessum orðum mínum, vona ég að ég þurfi aldrei aftur að blogga um Silvíu Nótt, hvorki af góðu né illu tilefni.
-----oOo-----
Það er mikið rætt um að Júróvisjón sé orðin keppni Austur-Evrópuþjóða. Í mínu ungdæmi var talað um 33 Evrópuþjóðir, en Austur-Evrópa tók ekki þátt í Júróvisjón að undanskilinni Júgóslavíu sem hefur lengi verið með. Í þetta sinn hófu 37 þjóðir þátttöku af rúmlega 40 þjóðum, þar af 16 ríki frá gömlu Austur-Evrópu. Þó hafa lög frá Austur-Evrópu einungis unnið keppnina fjórum sinnum frá upphafi, Júgóslavía 1989, Eistland 2001, Lettland 2002 og Úkraína 2004. Því er ekki hægt að halda því fram að Austur-Evrópuþjóðir hafi einokað þessa keppni, fremur að þær hafi rétt að nokkru sinn hlut eftir að hafa verið hunsaðar af Vestur-Evrópu í fjölda ára. Það má hinsvegar spyrja sig þess hvort Norðurlandaþjóðirnar hafi ekki unnið óeðlilega oft, en þessar fimm þjóðir hafa unnið samtals átta sinnum þar af fjórum sinnum frá 1990.
-----oOo-----
Í lokin má svo minna alla aðdáendur hetjanna í Halifaxhreppi sem gætu verið á ferðinni í nágrenni við Leicester eftir hádegi á laugardag að mæta á úrslitaleikinn sem fer fram á fótboltavelli bæjarins og hvetja andstæðingana, svo hetjunum okkar auðnist að leika áfram í kvenfélagsdeildinni í haust.
föstudagur, maí 19, 2006
19. maí 2006 - Vinstrigrænir, kertaljós og Silvía Nótt
Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Vinstri hreyfinguna, grænt framboð í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt félaga vora til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég óx úr grasi og varð að fallegu blómi að mínu áliti. Vinstrigrænir hafa ávallt sýnt af sér mjög skemmtilegan baráttuanda með okkur smælingjunum og öðlast traust okkar og virðingu. En nú stefnir allt til verri vegar, því R-listinn hefur ákveðið að kveðja tilvist sína rétt eins og Alþýðubandalagið, blessuð sé minning þess og senn verðum við kjósendur R-listans orðin pólitískt munaðarlaus rétt eins og kjósendur Alþýðubandalagsins á sviði landsmálanna.
Stefna Vinstri grænna er skýr. Við skulum útrýma uppistöðulónum og álverum. Síðan skulum við útrýma stórum bensíngleypandi jeppamonsterum á borð við Hömmer og LandCruiser. Síðan fá minni farartæki að sigla sinn sjó, vinstrigrænir Subaru, auðvaldsseldar Toyotur. Loksins Mikrur og Póló. Fáum okkur reiðhjól. Framtíðin er kertaljós. Við þurfum að lifa í sátt við náttúruna og slökkvum ljósið. Það þarf að spara rafmagnið.
Að sjálfsögðu skal halda áfram að skattleggja bílana. Hvernig væri t.d. að styðja þá hugmynd að skattleggja bíla sem leggja í bílastæði borgarinnar? Einhvernveginn verður að greiða kostnaðinn við ókeypis leikskóla.
Ég er að velta fyrir mér hvað minn vinstrigræni Subaru sem vegur 1,4 tonn myndi vega mikið ef ekkert væri álið sem framleitt er í álverum?
-----oOo-----
Ég ætlaði að finna pláss fyrir Árna Þór Sigurðsson í Hömmernum hans Björns Inga þegar hann fer til Keflavíkur að sækja Silvíu Nótt. Þegar ég ætlaði að kalla í hann, var hann farinn til Keflavíkur því Silvía kemur heim fyrr en ætlað var eftir ætlaðan sigur í Júróvisjón. Ekki spyrja mig hvað skeði því hún ætlaði að vinna Júróvisjón. Kannski er þetta svipaður sigur og þegar Páll Óskar vann Júróvisjón án þess að fá nokkurt atkvæði.
-----oOo-----
Með þessum pistli um Vinstrigræna, hefur mér tekist að fá öll framboð í borginni upp á móti mér og orðin álíka vinsæl meðal flokksbundinna kjósenda og Silvía Nótt á meðal aðdáenda Júróvisjón. Nú get ég tekið þátt í kjörstjórn eftir rúma viku án þess að vara grunuð um að styðja eitt framboð fremur en annað.
miðvikudagur, maí 17, 2006
18. maí 2006 - Samfylkingin og bílastæðagjaldið
Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Samfylkinguna í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga vora til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég kom heim til Íslands eftir nokkurra ára veru í útlöndum og kom í bleika höfuðborg sem stjórnað var af mikilli röggsemi af forystukonum Kvennalistans og síðar Samfylkingarinnar. Borgaryfirvöld hafa sýnt af sér einstalega góða hegðun í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú stefnir allt til verri vegar, því R-listinn hefur ákveðið að kveðja tilvist sína og senn kveður hann vettvang borgarmálanna, leysist upp í frumeindir sínar og afhendir nýjum valdhöfum lyklana að Ráðhúsinu ofan í Tjörninni.
Lengi vel var ég nokkuð ráðvillt um stefnu Samfylkingarinnar í borgarmálum fyrir kosningarnar, hélt lengi vel að þeirra helsta stefnumál fyrir kosningarnar væri ísbúð sem snýst í hringi, en nú er ég farin að sjá ljósið í myrkrinu. Í gatnagerðarmálum ætlar Samfylkingin að bæta fyrir mistök R-listans í lagningu mislægra gatnamóta með því að leggja nýjar slaufur ofan á þær sem fyrir eru. Þannig á að tryggja, að fólk sem villist á þessum mislægu gatnamótum, geti litið á villur vegar síns sem skemmtilega gestaþraut sem krefjist þors og hæfileika til að leysa og komast úr flækjunni.
Samfylkingin ætlar að skoða hvort eða hvert Vatnsmýrarflugvöllur verður fluttur. Svo á að skoða hvort Árbæjarsafn verður flutt út í Viðey svo það geti kallast á við ljósatyppi það sem Stefán Jón Hafstein ætlar að reisa fyrir Yoko Ono. Af öðrum náttúruverndarmálum á sérsviði Stefáns Jóns Hafstein, má þess helst geta að nauðsynlegt er að draga úr umgengni við Elliðaárnar til þess að laxveiðimenn verði síður fyrir truflunum eða áreiti frá útivistarfólki svo þeir geti haldið áfram þeim þarflegu aðgerðum að hjálpa okkur borgarbúum við að losna við þessi stórhættulegu kvikindi sem laxar kallast.
Samfylkingin styður jafnrétti þegnanna, líka frambjóðenda. Ef helstu andstæðingar klúðra sínum málum í kosningabaráttunni, telur Samfylkingin nauðsynlegt að gera slíkt hið sama svo jafnrétti verði náð. Fyrst fór Framsókn á bömmer yfir Hömmer og síðan réðust ljósastaurar á ónefndan fyrrum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og nú oddvita flokksins í Túborg. Þetta fannst Samfylkingunni alveg ómögulegt og til að viðhalda jafnréttishugsjónum flokksins, var ákveðið að leggja sérstakt bílastæðagjald á bílastæði í eigu borgarinnar til að tryggja það að sauðsvartur almúginn hafi ekki efni á að leggja bílnum í þessi fínu bílastæði og finni sér annan flokk að gefa atkvæðið sitt.
Það er laust pláss við hliðina á Ólafi F. Magnússyni afturí Hömmernum hjá Birni Inga er sá fer suðureftir með fylgdarliði að sækja Silvíu Nótt og sigurlaun hennar eftir sigurinn í Júróvisjón. Ég legg til að Stefán Jón fái að prófa þetta pláss og fara með til Keflavíkur.
-----oOo-----
Það þarf greinilega að fækka ljósastaurum í Reykjavík svo ekki komi til útrýming Sjálfstæðismanna í borginni.
17. maí 2006 - Kveðjudagar
Upphaflega hugmyndin hjá mér var sú að halda áfram að fjalla um hið jákvæða í stefnuskrám stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram í Reykjavík og ætlaði ég mér að fjalla um stefnuskrá Samfylkingarinnar í dag. Þrátt fyrir mikla leit fann ég enga áhugaverða stefnuskrá, ef frá er talin hugmynd Stefáns Jóns Hafsteins og Yoko Ono að ljósatyppi í Viðey. Ég verð því að fjalla um Samfylkinguna þegar nær dregur helginni og ef mér tekst að finna stefnuskrána. Ég vona að ég þurfi ekki að ræsa út flugbjörgunarsveitina til leitar að henni.
-----oOo-----
Á þriðjudag kvaddi ég góðan mann og föður vina minna frá unglingsárunum, Ólaf Hjartar bókasafnsfræðing og fyrrum deildarstjóra á Landsbókasafninu. Hann var á 88. ári og hafði verið sjúklingur um margra ára skeið og má segja að andlát hans hafi verið honum sjálfum, ekkju hans og börnum léttir frá erfiðum veikindum.
Við greftrun og erfidrykkju hélt ég mig nærri sonum hans tveimur, enda báðir kvæntir í Svíþjóð þarlendum konum og sem ég þekki báðar ágætlega. Við erfidrykkjuna tróð ég mér því í sæti til borðs með fjölskyldunni, enda hefur kurteisi aldrei verið mín sterka hlið. Meðal kirkjugesta sem og í erfidrykkju var frændi Ólafs og nafni sem Kristín V. bloggvinkona mín og fjarskyld frænka telur að eigi þátt í tilveru hennar, þótt hvorki hafi hann verið viðstaddur getnað né fæðingu hennar.
Sá síðastnefndi kvaddi auðvitað fjölskylduna með handabandi áður en hann yfirgaf samkvæmið og mig líka þar sem ég sat með fjölskyldunni. Ég er enn ekki búin að þvo mér um hendurnar.
17. maí verður önnur kveðja þegar gamall skipsfélagi verður borinn til grafar, Halldór Erlingur Ágústsson fyrrum yfirvélstjóri hjá Eimskip. Við sigldum saman á öðru tveggja erfiðustu skipa sem hafa siglt undir fána félagsins M.s. Laxfoss (ex City of Hartlepool), stundum kallað City of Laxfoss, enda var skipið á þurrleigu hjá Eimskip frá enska útgerðarfyrirtækinu Ellerman City Liners. Það var erfið vist og þrældómur meðan á henni stóð, enda aðalvélin tilraunavél sem kom framleiðanda sínum í gjaldþrot á stuttum tíma eftir að hafin var framleiðsla þessara misheppnuðu véla sem voru af gerðinni Doxford 58JS3. Meðan á þessari vist stóð, var mikill fengur af að hafa jafnhógværan og geðprúðan mann yfir vélarrúminu sem Dóri var. Með fráfalli hans hefur fækkað um einn merkismann í hinni óopinberu Íslandsdeild Doxfordfélagsins.
Megi báðir þessir heiðursmenn eiga góða vist í eilífðinni hjá almættinu um leið og ég vil votta fjölskyldum þeirra samúð mína.
-----oOo-----
Í sjónvarpsfréttum á þriðjudagskvöldið var sagt frá heyrnarlausri konu sem hafði margsinnis kvartað yfir ónæði og óreglu í nágrönnum sínum í húsi við Rauðarárstíg þar sem kviknaði í síðastliðinn sunnudag. Svo var skipt yfir á fréttakonuna sem talaði við myndavélina í sviðnum stigagangunum í húsinu og hélt hún því fram að sú heyrnarlausa hefði kvartað yfir hávaða og ónæði nágranna síns. Þetta þótti mér mikil frétt og spurning hvort þetta flokkist ekki undir kraftaverk.
þriðjudagur, maí 16, 2006
16. maí 2006 - Frjálslyndi flokkurinn og útrýming einbreiðra akbrauta
Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Frjálslynda flokkinn í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga borgarstjórnarflokksins til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég fór að fylgjast með honum yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og hefja einkabaráttu gegn vinstrigrænum umhverfisverndaröflum. Þá hefur borgarfulltrúi flokksins sýnt af sér mikla hógværð í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú er öldin önnur önnur, því eftir fjögur ár af reiðuleysi á milli fylkinga hefur Frjálslyndi flokkurinn markað sér stefnu og sættir sig ekki við neinar málamiðlanir frá stefnu sinni.
Frjálslyndi flokkurinn hefur lofað okkur því að viðhalda Vatnsmýrarflugvelli. Ef hann kemst í meirihlutasamstarf í borginni ásamt Vinstri grænum og Framsókn, fáum við brátt að sjá þrjá innanlandsflugvelli í næsta nágrenni, einn í Vatnsmýri, annan á Lönguskerjum og loks hinn þriðja á Hólmsheiði auk svo tveggja minni flugvalla í Mosfellssveit og á Sandsskeiði.
Frjálslyndi flokkurinn ætlar að útrýma einnar akreina götum í Reykjavík. Það er vel og sé ég í anda Laugaveginn með tvær akreinar í hvora átt frá Bakarabrekkunni og austur úr borginni. Nú kann einhver að spyrja hvort Frjálslyndi flokkurinn hafi ekki einmitt lofað okkur því að vernda götumynd Laugavegarins. Ju það er rétt, en hann bætti því við að hann vildi vernda götumynd Laugavegarins eins og hún var á 19. öld. Eins og allir vita var ekki til neinn Laugavegur fyrr en í lok 19. aldar og því er ekkert því til fyrirstöðu að breikka Laugaveginn niður að Hverfisgötu og leggja tvær akreinar og jafnvel þrjár akreinar í hvora átt með góðri og grænni umferðareyju á milli akreina auk sérstakra hjólreiðabrauta.
F-listinn hefur boðað verndun óspilltrar náttúru í borginni. Þetta kann að virðast í hrópandi ósamræmi við Vatnsmýrarflugvöll, risastóran spítala við Hringbraut og útrýmingu einfalds gatnakerfis í borginni. Svo er þó ekki. Þegar búið verður að breikka Laugaveginn og sameina Hverfisgötu, breikka götur eins og Lækjargötuna og Mýrargötu og Suðurgötu frá Ráðhúsi og hugsanlega lengja Vatnsmýrarflugvöll uns hann nær að Alþingishúsinu, þá verða engir íbúar eftir í Reykjavík og því verður engin mengun af umferð, nema þá helst af brottfluttum Reykvíkingum sem koma til Reykjavíkur í flugi til að leggjast inn á Hátæknisjúkrahús Ólafs F. Magnússonar. Því verður mengunin minni en nú er í draugabænum Reykjavík.
Ég legg til að Ólafur F. Magnússon fái að sitja afturí Hömmernum hjá Birni Inga, er hann og ónefndur Sjálfstæðismaður sem er að missa bílprófið, fara til Keflavíkur að taka á móti Silvíu Nótt eftir sigurinn í Júróvisjón.
mánudagur, maí 15, 2006
15. maí 2006 - Sjálfstæðisflokkurinn og ljósastaurar
Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Sjálfstæðisflokkinn í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga vora til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég fór að fylgjast með honum stjórna borginni af mikilli röggsemi og breytt henni úr smáþorpi í stórborg á íslenskan mælikvarða. Þá hafa borgaryfirvöld sýnt af sér mikið örlæti í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú er öldin önnur önnur, því R-listinn hefur staðið vaktina síðustu tólf ár og senn kveður hann vettvang borgarmálanna og leysist upp í frumeindir sínar.
Margt hefur farið úrskeiðis á þessum tólf árum sem R-listinn hefur verið við völd. Hann hefur til dæmis ekki staðið við það aðalskipulag borgarinnar 1965 -1983 að gera mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þrátt fyrir að því hafi verið lofað í Blárri bók Sjálfstæðisflokksins sem gefin var út fyrir kosningarnar 1966. Þá hefur R-listinn ekki staðið við það loforð Borgarstjórnar Reykjavíkur frá því 7. júlí 1966, að miða hitaveitugjöldin framvegis við byggingarvísitöluna sbr. leiðara Morgunblaðsins á bls 12 þann 9. júlí 1966 Þannig hækkaði R-listinn hitaveitugjöldin einungis um 40% á tímabílinu 1994 til 2004 á sama tíma og byggingarvísitalan hækkaði um 55%. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og kemur niður á framkvæmdum hitaveitunnar til langframa.
Verst af öllu er þó það framtak borgarinnar á undanförnum árum að reisa ljósastaura útum alla borg í þeim tilgangi einum að fækka Sjálfstæðismönnum og verður slíkt að skoðast sem hið versta illvirki í garð Sjálfstæðisflokksins. Til að bæta gráu ofan á svart hefur fráfarandi stjórnarformaður Orkuveitunnar lagt til að reistir verði ljósastaurar á leiðinni frá Þrengslavegamótum til Þorlákshafnar, rétt eins og hann viti ekki að sumir framámenn Sjálfstæðisflokksins þurfa að aka framhjá öllum þessum ljósastaurum á leið sinni austur í Flóa.
Loks legg ég til að Björn Ingi bjóði ónefndum frambjóðanda að sitja í hjá sér í Hömmernum þegar ekið verður framhjá öllum ljósastaurunum til Keflavíkur til að taka á móti Silvíu Nótt og sigurlaunum hennar úr Júróvisjón.
-----oOo-----
Ég lofa sumum sem lesa bloggið mitt að skrifa ekkert um ónefndan finnskan ökumann gegn því að þeir hinir sömu skrifi ekkert um svarthvítar hetjur í Vesturbænum.
sunnudagur, maí 14, 2006
14. maí 2006 - Björn Ingi, Silvía Nótt og Hömmerinn
Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Framsókn í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga vorn til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er frá því ég fór að fylgjast með honum stjórna nokkrum smáveitum uns honum hafði tekist að gera þær að stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þá hefur hann sýnt af sér ákaflega ljúfa framkomu í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú er öldin önnur, því senn kveður hann vettvang borgarmálanna og ekki verður féleg framtíðin án hans.
Í myrkasta svartnætti glittir ávallt í ljósið og erfðaprinsinn kom, sá og sigraði. Það geislaði af honum, því hér var maður kominn sem er vanur tigninni af æðstu stöðum, forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Það var farið í kosningabaráttu svo öll þjóðin mætti njóta birtunnar af erfðaprinsinum, búin til ný slagorð og gamla Framsókn með fjósalyktina þurrkuð út. Ekkert var sparað til kynningar á hinum nýja leiðtoga og í stað fjósalyktarinnar, kom EXBÉ og hertrukkur tekinn á leigu til að flytja frambjóðendur til hernaðar gegn pólitískum andstæðingum.
Ég fór að lesa mig til um herbíl þann sem EXBÉ notar í kosningabaráttunni í Reykjavík og er af gerðinni Hummer H2 og velmerktur framboðinu á báðum hliðum. Hann er 2,06 metrar á breidd og kemst fyrir bragðið ekki fyrir í venjulegu bílastæði og verður því að nota stæði fyrir vörubíla eða þá fatlaðrastæði ef ekkert vörubílastæði er í nágrenninu. Til samanburðar má geta þess að hinn vesældarlegi forstjórajeppi Toyota LandCruiser 100 er sem lélegt landbúnaðartæki við hliðina á þessum glæsivagni, 1,94 metrar á breidd og minn vinstrigræni eðalvagn er 1,73 metrar á breidd.
Eiginþyngd EXBÉ Hömmersins er 2,9 tonn enda ætlaður til stríðsreksturs og verður að geta haldið frambjóðendunum heilum þótt á þá sé ráðist af ofurefli andstæðinganna. Forstjórajeppinn frá Toyota er aðeins 2,32 tonn að eiginþyngd og eðalvagninn minn um 1,4 tonn. Þá eyðir stríðsvagninn allt að 29 lítrum á hundraðið í innanbæjarakstri að mati Wikipedia.
Ég fann nýlegan Hummer af EXBÉ gerð til sölu á netinu á 8.143.000 krónur og þar staðhæft að fullt verð fyrir slíkan vagn væri um ellefu milljónir. Glænýr Toyota LandCruiser 100 með bensínvél kostar litlar 7.400.000 krónur. Ef einhver vill borga mér 400.000 krónur fyrir minn vinstrigræna Subaru læt ég hann frá mér án þess að hika. Hann er hvort eð er hvorki útbúinn til jöklaferða né til að verjast vondum mótmælendum. Að auki kemst ég allra minna ferða á reiðhjóli með körfu á stýrinu fyrir innkaupin.
Það er ekki hægt annað en að fyllast lotningu og aðdáun þegar slíkur frambjóðandi sem erfðaprinsinn fer um göturnar á Hömmer H2. Þarna fer maður sem kann sig og lítur niður á auvirðileg atkvæðin sem kjósa Vinstrigræna, krata eða íhaldið, svo ekki sé talað um þessi fatlafól sem dirfast að leggja smádruslunum sínum í stæði sem ættu bara að vera fyrir alvöru stjórnmálaleiðtoga á Hömmer. Því ætti líka fólk að skammast í Birni Inga fyrir að vera mikill stjórnvitringur? Engum dettur í hug að atyrða Silvíu Nótt fyrir að vera súperstjarna og væntanlegur sigurvegari Júróvisjón. Af hverju ætti þá að skamma frekar væntanlegan sigurvegara borgarstjórnarkosninganna, súperleiðtogann Björn Inga?
Ég vænti þess að Björn Ingi fagni Silvíu Nótt er hún kemur til Keflavíkur með sigurlaunin úr Júróvisjón og aki með hana á Hömmernum ásamt fylgdarliði til höfuðborgarinnar, hún hjálpi honum að vinna borgarstjórnarkosningarnar og á svo von á að þau verði heitasta parið á síðum Séð og heyrt og Hér og nú í allt sumar.
Fyrirgefðu Bingi minn, bæði að ég skuli hafa rekið þig úr ætt við mig og eins á vondum orðum mínum í þinn garð í pistli þessum!
föstudagur, maí 12, 2006
13. maí 2006 - Danskir sérfræðingar
Ég heyrði sagt frá dönsku sérfræðiáliti á framtíðarstaðsetningu Landsspítalans á föstudaginn. Þar var því haldið fram að mælst hefði verið til að byggt yrði upp við Borgarspítalann í Fossvogi en ekki gamla Landsspítalann. Útvarpið spurði hinn nýja heilbrigðisráðherra um þetta álit og svarið var stutt:
“Það er búið að ákveða að Landsspítalinn verði við Hringbraut og því verður ekki breytt.”
Ég er sjaldan sammála læknum, en í þetta sinn er ég sammála þeim gegn ríkisvaldinu. Staðsetningin við Hringbraut er fáránleg og mun skapa heilmikil vandræði í framtíðinni, ekki síst fyrir þá sök að miðja höfuðborgarsvæðisins er sífellt að færast austar og þar með verður gamli miðbærinn eins og úthverfi langt frá miðjunni.
Hver ætli hafi pantað álit frá þessum dönsku sérfræðingum sem fór beint í ruslafötuna af því að vitlaus ákvörðun hafði verið tekin? Svo getur verið hættulegt að taka mikið mark á dönskum sérfræðingum. Um daginn spáðu danskir sérfræðingar falli krónunnar og hún féll með það sama.
Þá er það ekki til að bæta úr ástandinu að stærsti hlutinn af hugsanlegu byggingarlandi gamla miðbæjarins skuli notaður undir gamlan herflugvöll sem aftur leiðir af sér að þjónustukjarnarnir verða einnig að flytja austur og suður á bóginn. Þannig er eitt framboðið til borgarstjórnar með tvö meginatriði í stefnu sinni, að viðhalda Vatnsmýrarflugvelli og Hringbrautarspítalanum. Fólkið mun svo búa í bæjarfélögunum í kring. Svei mér þá ef þeir vilja ekki líka fleyta Árbæjarsafni út í Viðey til að skapa fleiri lóðir í úthverfunum.
Ég hefi ekki mátt vera að því að skrifa almennilegt blogg síðustu dagana og mun ekki hafa tíma til þess næstu dagana heldur.
12. maí 2006 - Lítið blogg
Ég fékk heimsókn á fimmtudagskvöldið. Góð vinkona mín var að deyja úr áhyggjum yfir væntanlegri heimsókn til hins opinbera kerfis og hvernig ætti að bera sig að. Á meðan við sátum yfir kaffinu, fór ég að forvitnast um þennan mann sem hún átti að hitta og í framhaldinu fletti ég upp á honum í Stéttartalinu. Þar sem ég fletti í bókinni kallaði hún upp: “Þennan þarna þekki ég. Þetta er frændi minn!” Það kom heim og saman. Kerfiskallinn sem hún kveið svo fyrir að hitta reyndist vera náfrændi hennar og fjölskylduvinur.
Til hvers að búa sér til áhyggjur þegar engin eru vandamálin?
-----oOo-----
Mér hefur verið bent á að gott væri að merkja betur flókin gatnamót í tíma áður en komið er að þeim. Það er alveg rétt og má gera það víða. Það breytir ekki því að þessar aukaslaufur á mislægum gatnamótum sem ég nefndi í gær, eru kolvitlaust hannaðar og tiltölulega auðvelt og ódýrt að gera rampa fyrir hægri afrein fyrir umferðina sem ætlar að fara til hægri.
-----oOo-----
Þá er komið á hreint að hetjurnar okkar munu spila við nautin í Hérafordsteikhúsinu þann 20. maí um sæti í langneðstu deild. Ég er strax farin að kvíða leiknum.
fimmtudagur, maí 11, 2006
11. maí 2006 - Mislæg gatnamót
Það eru komnar einhverjar vikur síðan ég ók síðast um vegamót Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Ég sé hinsvegar úr fjarlægð þegar ég á leið um Hálsahverfið, að það eru geysilega miklar framkvæmdir í gangi við umrædd gatnamót og bendir það til að framkvæmdir séu hafnar við nýju mislægu gatnamótin sem á að gera þarna.
Enn situr í mér óhugur eftir síðustu framkvæmd mislægra gatnamóta í Reykjavík og greinilegt að þau eru hönnuð af sama kjána og hannaði mislægu gatnamótin á mótum Skeiðarvogs og Miklubrautar. Ekki veit ég hvað maðurinn heitir, en ef ég réði einhverju um vegaframkvæmdir, fengi maðurinn ekki jafngóða útreið og hann fékk hjá Spaugstofunni í vor. Með Skeiðarvogsbrúnni sannaði maðurinn vanhæfni sína til að hanna umferðarmannvirki og hefði átt að bjóða honum að finna sér aðra atvinnu þegar sú brú var vígð, enda vill fólk heldur lenda í umferðarhnút á Grensásvegi en að villast á Skeiðarvogsbrúnni. Sjálf villtist ég um daginn er ég ætlaði að fara af Bústaðavegi og austur Miklubraut og endaði á Flókagötunni og komst loks inn á Miklubrautina á gatnamótunum við Lönguhlíð.
Í öllum venjulegum löndum þykir sjálfsagt að þegar ætlunin er að skipta yfir á umferðargötu til hægri, að fara lengst til hægri og beygja inn á afrein til hægri og komast inn á réttu akbrautina. Af Skeiðarvogi er farið yfir á vinstri akrein (þótt nóg pláss sé fyrir hægri afrein), beðið á ljósum og síðan farið til vinstri og í U-beygju til að komast vestur Miklubrautina. Sami bjánaháttur er ef ekið er niður Bústaðaveginn að Miklatorgi og ætlunin er að aka austur Miklubraut.
Ekki er hægt að kenna Sturla Böðvarssyni um þessa vitleysu þótt ég trúi öllu illu upp á hann. Hann var ekki orðinn samgönguráðherra þegar Skeiðarvogsbrúin var byggð.
-----oOo-----
Það ríkir sorg í Halifaxhreppi í kvöld. Hetjurnar okkar gerðu jafntefli við Gránufjelagið í seinni leiknum í umspili um sæti í langneðstu deild og lentu því áfram með samtals fimm mörkum gegn fjórum, en Gránufjelagið tryggði áframhaldandi veru sína í kvenfélagsdeildinni með þessu jafntefli. Halifaxhreppur mun hinsvegar þurfa að spila úrslitaleik í Leicester 20. maí við annaðhvort nautin í Héraford eða rækjurnar í Meirikamp sem munu spila á fimmtudagskvöldið.
Við verðum því að bíða í tíu daga eftir því hvort hetjurnar okkar verði áfram bestar í kvenfélagsdeildinni eða langneðstar í langneðstu deild í haust.
miðvikudagur, maí 10, 2006
10. maí 2006 - Viðeyjarsafn
Ég verð að viðurkenna að eftir því sem umræðum um að flytja Árbæjarsafn út í Viðey miðar lengra, verður hugmyndin þess vitlausari. Þá er ég ekki einungis að tala um hugmyndina um að fleyta húsunum yfir sundið, heldur alla hugmyndina í heild sinni.
Árbæjarsafn hefur aldrei haft úr miklum fjármunum að spila. Þvert á móti hefur það ávallt verið í fjársvelti. Nú virðast allt í einu til milljarðar til að flytja safnið í heilu lagi út í Viðey. Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Á kannski að sækja þá í sömu vasana og peningana fyrir smíði og uppsetningu á ljósatyppi Joko Ono?
Versti þátturinn er þó eftir. Með því að flytja Árbæjarsafn út í Viðey, mun stórlega draga úr aðsókn að safninu. Það verður hvorki hægt að aka þangað né ganga eða hjóla þangað. Það verður að fara þangað með báti. Þá daga sem vont er í sjóinn kemur enginn gestur á safnið. Sólríka sumardaga koma fáir gestir vegna þeirrar hindrunar sem fylgir því að þurfa að kaupa sér far með báti út í eyjuna áður en hægt verður að kaupa sig inn á sjálft safnið.
Ef fólk vill endilega nýta austurhluta Viðeyjar, væri nær að byggja þar lítið vistvænt þorp smáhúsa á einni hæð þar sem reynt yrði að skapa lítið samfélag með áherslur á orkusparnað og náttúruvernd.
-----oOo-----
Svo lauk gönguhópurinn við að ganga Álftanesið. Næst verða fjöll lögð að velli.
þriðjudagur, maí 09, 2006
9. maí 2006 - Farvel Franz
Sumum þætti það köld kveðja að hefja stutta minningu um góðan kennara á þennan hátt, en það er ekki ætlunin. Þýskukennarinn minn úr Vélskólanum kvaddi nefnilega þennan heim um daginn og var formlega kvaddur í gær. Hann hét Franz Gíslason og var náttúruunnandi, áhugamaður um ættfræði, sósíalisti og trúleysingi.
Útförin var jafn óvenjuleg og maðurinn sjálfur í lifanda lífi og frétti ég að nákvæmlega hefði verið farið eftir óskum hans sjálfs. Athöfnin fór fram í Fossvogskapellu, en engan sá ég prestinn. Í hans stað flutti Árni Hjartarson jarðfræðingur ávarp í upphafi og kveðjuorð í lokin, Ingibjörg Haraldsdóttir og Baldur Óskarsson fluttu ljóð og Karl Guðmundsson leikari flutti kveðju frá Þýskalandi. Sigurður R. Guðjónsson Vélskólakennari sá um minningarorðin og sungin voru þýsk ljóð. Að lokum sungu viðstaddir Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson og Halldór K. Laxness. Kistan var svo borin út undir hefðbundnum orgeltónum sem enduðu með “Fram þjáðir menn í þúsund löndum”.
Það var óvenjulétt yfir kirkjugestum. Hinn látni var nýlega orðinn sjötugur, en var sáttur við lífið og dauðann. Hann hafði óskað eftir skemmtilegri útför og fékk hana. Ég viðurkenni alveg að mitt gamla íhaldshjarta hefði fremur kosið að hafa prest í nánd, en hreifst samt af stemningunni. Megi minningin um Franz lifa áfram með okkur.
-----oOo-----
Ég fékk hinn nýja disk Hvanndalsbræðra með póstinum í gær. Ég er að sjálfsögðu stórhrifin af honum því eins og segir á plötuumslaginu: Með kaupum á þessum disk afsalaðir þú þér réttinum á að vera tekin alvarlega þar sem umræður um tónlist eiga sér stað!!!
mánudagur, maí 08, 2006
8. maí 2006 - Fatlaðir Framsóknarmenn
Ég minnist þess er ég skrapp í verslun okkar allra, Heiðrúnu, að kaupa mér kippu af bjór fyrir einu eða tveimur árum síðan. Er ég kom gangandi að húsinu neðan frá bílastæðunum kom maður á slyddujeppa og lagði fimlega í stæði fyrir fatlaða við innganginn. Ég sá ekkert merki fatlaðra í framrúðu bílsins. Í krafti samvisku minnar þess efnis að bílastæði fyrir fatlaða væru einungis fyrir fatlaða, reyndi ég að drepa vesalings ökumanninn með augnaráðinu um leið og ég benti honum á skilti þess efnis að þetta væri bílastæði fyrir fatlaða. Ökumaðurinn lét sér þó ekki segjast við þetta heldur dró upp hækju úr farþegasætinu og sýndi mér. Ég hætti við að ræða við hann frekar undir fjögur augu, flýtti mér inn í húsið og lét fara lítið fyrir mér.
Þessi saga flaug í gegnum huga mér er ég las blogg Hildigunnar í dag. Þar er mynd af stríðsjeppa Framsóknarflokksins þar sem honum hefur verið lagt í bílastæði fyrir fatlaða og leyfi ég mér að ræna myndinni án heimildar og birta hér einnig. Í framhaldi myndbirtingarinnar spyr ég mig þess hvort það sé satt að Framsóknarmenn (nema auðvitað Alfreð) séu fatlaðir í eðli sínu?
Eins og allir vita sem lesa bloggið mitt, er ég hinn versti reglugerðarpúki þegar kemur að umferðinni og minn vinstrigræni eðalvagn neitar að láta sjá sig í bílastæði fatlaðra, enda er ég ekkert fatlafól, fullfrísk manneskjan. Spyrjið bara Þórð!
-----oOo-----
Ég hefi góðar fréttir handa Þórði þar sem hann er fjarri menningunni á bát yfirfullum af syngjandi, jarmandi og mjálmandi farmi úti fyrir ströndum Suður-Evrópu. Uppáhaldsökumanni Þórðar, þeim ískalda en syfjaða Kimi tókst nefnilega með miklu harðfylgi, að næla sér í fjórða sætið í Formúlu saumavél. Hitt þykir víst ekki fréttnæmt, að hinn geðþekki heimsmethafi bætti tvö heimsmeta sinna og verða þau víst seint slegin úr þessu, en hann bætti tíu stigum við fjölda áunnina stiga sinna sem nú teljast vera 1279, en einnig náði hann að vinna sinn 86. mótssigur. Þess á geta að Alain Prost er í öðru sæti áunnina stiga með 798,5 stig. Alain Prost á einnig 2. sætið í fjölda mótssigra eða 51. Umræddur Kimi hefur unnið níu mótssigra og hlotið 299 stig.
Nú hefi ég komist að því að heimsmethafinn geðþekki svindlaði sér inn í Formúluna á sínum tíma. Þegar Eddie Jordan vantaði ökumann til að aka keppnina í Spa í Belgíu árið 1991 og spurði Michael Schumacher hvaða reynslu hann hefði á Spa, laug Michael því til að hann hefði mikla reynslu af Spa brautinni. Reyndin var sú að hann hafði aðeins einu sinni ekið þessa braut áður, á reiðhjóli.
sunnudagur, maí 07, 2006
7. maí 2006 - Labbitúr
Ég fékk mér labbitúr á laugardaginn um Stór-Garðabæ ásamt göngufélaganum. Eins og allir vita sem komnir eru til vits og ára, þá eru Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur einungis hjáleigur frá hinum eina sanna Garðahreppi og spurningin hvort ekki sé tímabært að leggja þessa útkjálka aftur undir Garðahreppinn. Það verður stór dagur þegar hreppamörk Stór-Kjalarness munu liggja að Stór-Garðahreppi til suðurs
Það var hafist handa við gömlu sundhöllina í Hafnarfirði og rölt út eftir Garðaveginum í átt að Bessastöðum. Að sjálfsögðu var komið við í kirkjugarði þeirra Garðbæinga við Garðakirkju og síðan rölt áfram út eftir Álftanesinu í ágætu veðri að Bessastöðum. Hvergi sá ég Ólaf og var því ekkert kaffi að hafa, en við mættum mótorhjólagarpi sem var grunsamlega líkur Dorrit.
Í Bessastaðakirkjugarði var staðnæmst við leiði heiðurshjónanna Eyjólfs Þorbjörnssonar (Þorbjarnarsonar) útvegsbónda, bróður langömmu minnar og konu hans Guðnýjar Þorsteinsdóttur af Húsafellsætt. Ekki fann ég fleiri leiði ættingja sem ég kannaðist við, enda ættingjar mínir löngum taldir lítt gefnir fyrir minnisvarða sér til handa. Fyrir bragðið voru leiðin þeirra ómerkt og nú löngu týnd.
Ekki tókst ætlunarverkið, að ganga allt Álftanesið, enda var gengið að aflokinni lóðahreinsun nágranna minna. Þá þurfti ég að gæta klukkunnar því næturvaktin beið mín í Reykjavík.
Eftir þriggja klukkutíma gönguferð í gær, er viðbúið að það verði harðsperrur í dag.
-----oOo-----
Nú verða hetjurnar okkar í Halifaxhreppi að gæta sín. Þær spiluðu gegn Gránufjelaginu í gær um sæti í langneðstu deild og léku fyrri hálfleik af mikilli leikgleði og gleymdu sér í leiknum. Er blásið var til hlés þremur glæsilegum mörkum síðar, sá þjálfarinn ástæðu til að lesa yfir þeim og benda þeim á að sætið í kvenfélagsdeildinni væri í stórhættu. Fóru hetjurnar aftur út á völlinn með skammirnar á bakinu og gerðu eftir það allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa þeim grálúsugu að skora mörk. Ekki tókst það nægilega vel, en leiknum lauk með þremur mörkum okkar kvenna gegn tveimur mörkum Gránufjelagsins, en þar sem Svarti-Pétur var ekki viðlátinn, fékk Svarti-Óli (sjá mynd) þann vafasama heiður að skora þau bæði.
Loks er sjálfsagt að bjóða Ryðguðu demantana og Oxford velkomin til leiks í kvenfélagsdeildinni úr langneðstu deild á hausti komanda.
laugardagur, maí 06, 2006
6. maí 2006 - Kveðja frá Goldfinger
Það var stórt hvítt umslag í póstkassanum mínum er ég tæmdi hann á föstudagsmorguninn. Forvitnilegt hugsaði ég með mér og reif það upp um leið og ég kom upp. Þetta reyndist þá vera skólablað Vélskólans á Akureyri (Verkmenntaskólinn á Akureyri vélstjórnarbraut), en slík skólablöð eru gjarnan send til allra meðlima Vélstjórafélags Íslands, hvað sem það nú heitir á þessum síðustu og verstu tímum.
Auk sjálfs skólablaðsins sem var í umslaginu, fylgdi einnig almanak sem vafalaust hefði átt að sendast út til móttakenda um áramót, en skólablaðinu hefur greinilega seinkað eitthvað og því fór það ekki út með blaðinu fyrr en nú í byrjun maí. Almanakið reyndist vera sending frá nektarstaðnum Goldfinger og prýtt myndum af fáklæddum meyjum.
Ekki veit hvort hinar fáklæddu meyjar eru starfsmenn Goldfinger, en þó finnst mér það fremur ólíklegt. Að minnsta kosti var engin mynd af eigandanum Ásgeir Davíðssyni og engin hinna fáklæddu kvenna stóð í uppvaski á hinum umtalaða veitingastað á myndunum.
Það er ekki langt síðan Skólafélag Vélskóla Íslands, hvað sem það nú heitir á þessum síðustu og verstu tímum, hélt skólaball á Hallveigarstöðum í Reykjavík, þar sem nektardansmeyjar frá Goldfinger voru fengnar til að skemmta nemendum, sumum hverjum undir lögaldri. Þetta var þess verra fyrir þá sök að Hallveigarstaðir eru í eigu kvenréttindahreyfingarinnar og ætti slíkur staður því sístur allra að vera vettvangur slíkrar uppákomu. Þetta uppátæki var harðlega gagnrýnt af stjórnendum Fjöltækniskólans eftir að það fréttist út og lak til fjölmiðla. Nú er farið að nýta nemendur á Akureyri til svipaðrar kynningar á nektarstaðnum Goldfinger.
Ég veit að Ásgeir Davíðsson vill allt gera til að stytta ungum strákum stundir sem eru í hvíld frá lífsins ólgusjó sitjandi á skólabekk, en það er óþarfi að senda okkur hinum auglýsingar af þessu tagi. Við þurfum ekkert á nektardansmeyjum að halda. Það væri kannski betra að senda okkur næst almanak með myndum af þessum ellefu nemendum á vélstjórnarbraut VMA fáklæddum og svo gæti skólameistarinn prýtt tólftu myndina í desember.
föstudagur, maí 05, 2006
5. maí 2006 - Fuglar
Stundum er gaman að fylgjast með því hve fuglar geta verið spakir ef þeir eru látnir í friði. Þegar ég gekk heim eftir vaktina á fimmtudagskvöldið veitti ég athygli rjúpu sem enn var í vetrarskrúðanum og stóð uppi á hljóðmön við Bæjarhálsinn og fylgdist með mér er ég fór framhjá henni í um tveggja metra fjarlægð. Ekki datt henni til hugar að færa sig um svo mikið sem hænufet, en fylgdist vel með bæði mér og umferðinni sem þaut framhjá. Greinilegt að friðunarsvæði rjúpunnar hafa áhrif á hegðun hennar, enda húsfreyjan á Mosfelli hvergi nálæg.
Svipað átti sér stað er ég var í gönguferð á dögunum í fylgd göngufélagans. Þá komum við að gæsapari við Rafstöðvarveginn sem hafði meiri áhuga á að ná sér í sand úr veginum en að gæta sín á hættulegu mannfólkinu.
Læt þetta nægja að sinni sökum tímaleysis.
fimmtudagur, maí 04, 2006
4. maí 2006 - Landamæraeftirlit
Ekkert skil ég í þessum mönnum að gera veður úr því, að leitað var á Kastrup á ferðamönnum sem komu þangað frá Íslandi og Bandaríkjunum. Það er raunar furðulegt að þetta hafi ekki verið gert miklu fyrr. Bandarískir landamæraverðir hafa hegðað sér með yfirgangi og frekju gagnvart Evrópubúum og hegða sér gagnvart öllum eins og um hryðjuverkamenn sé að ræða undir kjörorðinu: Margur heldur mig sig.
Það er því eðlilegt að svarað sé í sömu mynt af hálfu Evrópuríkja. Ef einhver sker sig úr hópnum, ber að setja þann aðila í hóp með þeim sem hylmt er yfir með. Íslendingar láta frekjuskapinn yfir sig ganga í Bandaríkjunum, en svara með því að bjóða dollarana velkomna í formi hernaðaraðstoðar og þora ekki að segja múkk. Með því að beita ekki sömu reglum við komu Bandaríkjamanna til Íslands eins og önnur Evrópuríki gera, verður að framkvæma reglurnar á næsta viðkomustað á Schengensvæðinu, í þetta sinn í Danmörku.
-----oOo-----
Á föstudag fara alþingismenn í vorfrí, væntanlega til að sinna sauðburði og búskap. Varla eru þeir að sinna kosningum því um er að ræða sveitastjórnarkosningar, en ekki alþingiskosningar. Vissulega eru nokkrir alþingismenn einnig í sveitastjórnum, en það er þá kominn tími til að þeir láti ekki valdagræðgina ráða yfir sér og gefi fleira fólki færi á að komast að.
þriðjudagur, maí 02, 2006
3. maí 2006 - Guðmundur Gunnarsson ....
....formaður Rafiðnaðarsambandsins virtist reiður í gær og kvartaði sáran í “Blaðinu” yfir því að öfgahópar hafi lagt 1. maí undir sig. Það var kominn tími til að hann viðurkenndi opinberlega öfgafullan hægriáróður sinn sem meðal annars felst í áralangri baráttu gegn 1. maí sem baráttudegi verkalýðsins. Með stöðugum áróðri hefur honum tekist að gera fjölda fólks afhuga baráttunni og hefur þannig tekist að fá marga, sem þekkja ekki stéttabaráttu, til liðs við sig. Því getur Guðmundur Gunnarsson kennt sjálfum sér um lélega þátttöku fólks í kröfugöngu og baráttufundi dagsins.
Ég heyrði í manni einum í síðdegisútvarpi Bylgjunnar í gær þar sem hann sagði eðlilegt að svo fáir mættu í kröfugönguna því þessir fáu verkamenn sem eftir væru, væru útlendingar. Þvílík viska. Ætli þessi maður hafi lært fræðin sín af Guðmundi Gunnarssyni?
-----oOo-----
Norðmenn og Bandaríkjamenn hafa löngum haft með sér nána öryggissamvinnu, eða allt frá þeim tíma er seinni heimsstyrjöldinni lauk. Nú er svo komið að þeir eru ekki lengur í náðinni hjá George Dobbljú Bush. Þegar maður heyrir hvernig þessi bjáni hegðar sér gagnvart vinum sínum um leið og þeir leggja af þrælsóttann og byrja með sjálfstæða utanríkisstefnu eftir fjögurra ára sleikjuhátt við Bush, þá fer maður að spyrja sig þess hvers virði þessi vinátta við Bandaríkin er í reynd.
Það var sannarlega kominn tími til þess að Norðmenn með Jens Stoltenberg í broddi fylkingar sýndu Bandaríkjamönnum hvers þeir eru megnugir og óskandi að Íslendingar fylgi í kjölfarið.
-----oOo-----
Í gær tók ég það að mér að skreppa með bíl í dekkjaskipti. Fyrst þurfti ég að fara til fyrirtækisins sem átti bílinn og sannfæra mig um að sumardekkin væru týnd eftir flutninga og því þurfti að kaupa ný sumardekk. Eigandinn vísaði mér á ónefnt hjólbarðaverkstæði og hringdi þangað til að fullvissa sig um að þeir ættu til nýja hjólbarða og síðan ók ég þangað sannfærð um að verkið tæki aðeins örfáar mínútur.
Er þangað var komið voru tveir bílar á undan mér, einn fólksbíll og einn lítill vörubíll og báðir biðu án þess að neitt væri verið að gera. Ég beið einnig. Eftir klukkutímabið var loks búið að skipta um undir
fólksbílnum og ég komst inn með bílinn sem ég var á. Það gekk vel að kippa dekkjunum undan og svo byrjaði biðin. Nýju dekkin koma eftir tíu mínútur sagði mér verkstæðisformaðurinn og ég beið. Eftir langa bið kom sendibíll með dekk undir vörubílinn og fór svo að sækja mín dekk. Eftir hátt í þriggja tíma bið fékk ég bílinn loks tilbúinn og tók ævintýrið fulla þrjá tíma.
Ég ætla ekki að segja hvert hjólbarðaverkstæðið var, vitandi að starfsfólkið á staðnum reyndi sitt besta að flýta hlutunum. Þetta mætti kalla stjórnunarvandamál. Það veit ég að starfsfólk Gummívinnustofunnar á Réttarhálsi myndi aldrei láta slíkt spyrjast út um sig og mættu sum hjólbarðaverkstæði taka þá sér til fyrirmyndar.
-----oOo-----
Loks fær stóra systir hamingjuóskir með afmælið. Aldur ekki uppgefinn!
2. maí 2006 - Stéttasvik
Ég játa. Ég hefi syndgað og framið ófyrirgefanlegan glæp. Ég skrópaði í svonefndri kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar 1. maí. Það sem þó er grátlegast er að ég hafði enga ástæðu til að skrópa. Ég sat her heima og strauk á mér vömbina úttroðin af góðum mat í tilefni dagsins.
Þar sem ég sat yfir fréttunum í sjónvarpinu um kvöldið, sá ég fjölda ungs fólks í kröfugöngu og greinilegt að þetta var kröfuganga að þeirra sið. Óskaplega hógvær. Svo kom viðtal við Halldór Björnsson fyrrum formann Dagsbrúnar þar sem hann sat heima í stofu og var hæstánægður með árangur þann sem honum hafði tekist að ná í gegn áður en hann, Dagsbrún og Verkamannasambandið voru lögð niður.
Ég lét hugann reika aftur til áttunda áratugarins þar sem litlu göngurnar til höfuðs göngu og útifundi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna voru fjölmennari en gangan 1. maí 2006, þar á meðal eitt sinn er ég hélt ræðu af vörubílspalli á Hallærispaninu á fundi ákveðinna vinstrihópa. Þá var annar útifundur við Miðbæjarskólann og hinn þriðji var á vegum Fulltrúaráðsins á Lækjartorgi. Þá var gaman að vera róttæk og berjast gegn auðvaldi, hernum og Nató
Ég labbaði að sjónvarpinu og slökkti á því eftir að fréttunum lauk. Setti síðan disk í tækið og söngur farandverkamannsins hljómaði í eyrunum. Mér varð hugsað til farandverkamanna nútímans á vertíð upp við Kárahnjúka, á Reyðarfirði og í byggingarvinnu í Reykjavík. Kannski er baráttunni ekkert lokið þótt Halldór Björnsson hafi gefið það í skyn og ég hafi dundað mér við bréfaskriftir í stað þess að labba í kröfugöngu.
Á meðan íslensk verkalýðshreyfing hélt upp á ímyndaða sigra í stéttabáráttunni, taka íslenskir arðræningjar þátt í kappakstri milljarðamæringa víða um heim og leggja sjálfa sig og aðra vegfarendur í stórhættu. Vart verður það til að auka hróður þeirra meðal alþýðunnar.
mánudagur, maí 01, 2006
1. maí 2006 - Af fótknattleikjum enskra
Ég gleymdi víst að segja frá því í gær að keppnistímabilinu lauk á laugardaginn í kvenfélagsdeildinni í Englandi og skíttöpuðu hetjurnar okkar í Halifaxhreppi glæsilega síðasta leiknum í deildinni. Jafnframt er það fyrsti leikurinn sem þær tapa í deildarkeppninni á heimavelli í vetur. Þetta glæsilega tap kemur dálítið seint, því hetjurnar okkar enduðu í fjórða sæti eins og búist var við og þurfa því að leika í umspili við frjálsíþrjóttadeild Gránufjelagsins um sæti í langneðstu deild.
Gránufjelagið hefur sýnt sig að vera algjört spútniklið og því viðbúið að þeir mali hetjurnar okkar í þessum tveimur leikjum sem fara fram 6. og 10. maí. Ég get þó ekki lofað áframhaldandi þátttöku þeirra í kvenfélagsdeildinni fyrr en miðvikudagskvöldið 10. maí klukkan 20.30.
Ef heimasíða Halifaxhrepps er skoðuð sjást nokkrar af hetjunum okkar á mynd að fagna úrslitum dagsins.
-----oOo-----
Annað lið stefnir hraðbyri að þátttöku í kvenfélagsdeildinni og er þar hið sigursæla lið Wimbledon sem stofnað var 2002 eftir að Kjell Inge Rökke kom gamla Wimbledonliðinu í úlfakreppu með norskum þjálfara. Eftir slæmt gengi liðsins í nokkur ár, var það atað tjöru og fiðri og rekið úr bænum. Sem dónum sæmir, settist það að í Milton Keynes og hefur kennt sig við þann bæ allar götur síðan. Eftir sátu hnuggnir aðdáendurnir og bölvuðu norsku útgerðarauðvaldi. Þeir risu þó úr öskustónni, bitu í skjaldarrendur og stofnuðu nýtt WimbleDónalið, hafa flýtt sér upp um deildirnar og eru nú í 4. sæti 7. deildar og þurfa umspil við Fisher gamla um áframhaldið..
WimbleDónarnir munu væntanlega eiga auðvelda leiki framundan í umspili um gegn frjálsíþróttadeild Fishers gamla sem er þekktur fyrir allt annað en fótbolta svo þetta ættu að verða tveir auðveldir sigrar og svo beina brautin í langneðstu kvenfélagsdeild.
-----oOo-----
Flottasta spútnikliðið í Englandi þessa dagana er vafalaust Fótboltasamvinnufélagið Sameining Mannshestanna (United of Manchester). Liðið var stofnað 30 maí 2005 eftir að braskari nokkur frá Nýlendunum að nafni Malcolm Glazer keypti meirihluta í hinu fyrrum frækna toppliði Sameinuðum Mannshestum fyrir þrjátíu silfurpeninga. Þar með voru peningarnir farnir að stjórna meiru en áhuginn, rétt eins og hjá hinu rússneska Seltjörn
.
Fundur sem var haldinn til að mótmæla Júdasi og silfurpeningunum þrjátíu varð fljótt að vakningu að nýju félagi. Þúsund manns mættu á stofnfund og skráðu sig fyrir hlut í samvinnufélaginu, en skilyrði þess að eignast einn hlut í félaginu var að greiða að lágmarki eitt pund í stofnfjársjóð. Það var heimilt að greiða meira, en hver einstaklingur fékk einungis einn hlut að hámarki.
Nú eru liðnir ellefu mánuðir frá stofnfundi og fyrsta dollan komin í hús, en Sameiningin gjörsigraði deildina sem hún tók þátt í nú í vetur, hina svokölluðu Langlanglangneðstu norðvesturdeild. Að auki var slegið aðsóknarmet í utandeildarleikjum 23 apríl s.l., er liðið tapaði naumlega fyrir liði Stóru-Héraskógarborgar undir vökulum augum 6023 áhorfenda sem flestir voru á bandi okkar manna, en stærsti sigurinn var 10-2 gegn Gabriel erkiengli 10. desember s.l.
Fótboltasamvinnufélagið Sameining Mannshestanna mun þurfa að spila í næstneðstu Norðvesturdeild næsta vetur áður en farið verður að herja á efri deildir og síðarmeir vinna nýlenduherrana í Sameinuðum Mannshestum, Rússana í Seltjörn, Lýsisbrákina í Lifrarpolli og Rassana í Rassenal.
-----oOo-----
Svo fá allir verkalýðssinnar baráttukveðjur í tilefni af baráttudegi verkalýðsins.