Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Samfylkinguna í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga vora til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég kom heim til Íslands eftir nokkurra ára veru í útlöndum og kom í bleika höfuðborg sem stjórnað var af mikilli röggsemi af forystukonum Kvennalistans og síðar Samfylkingarinnar. Borgaryfirvöld hafa sýnt af sér einstalega góða hegðun í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú stefnir allt til verri vegar, því R-listinn hefur ákveðið að kveðja tilvist sína og senn kveður hann vettvang borgarmálanna, leysist upp í frumeindir sínar og afhendir nýjum valdhöfum lyklana að Ráðhúsinu ofan í Tjörninni.
Lengi vel var ég nokkuð ráðvillt um stefnu Samfylkingarinnar í borgarmálum fyrir kosningarnar, hélt lengi vel að þeirra helsta stefnumál fyrir kosningarnar væri ísbúð sem snýst í hringi, en nú er ég farin að sjá ljósið í myrkrinu. Í gatnagerðarmálum ætlar Samfylkingin að bæta fyrir mistök R-listans í lagningu mislægra gatnamóta með því að leggja nýjar slaufur ofan á þær sem fyrir eru. Þannig á að tryggja, að fólk sem villist á þessum mislægu gatnamótum, geti litið á villur vegar síns sem skemmtilega gestaþraut sem krefjist þors og hæfileika til að leysa og komast úr flækjunni.
Samfylkingin ætlar að skoða hvort eða hvert Vatnsmýrarflugvöllur verður fluttur. Svo á að skoða hvort Árbæjarsafn verður flutt út í Viðey svo það geti kallast á við ljósatyppi það sem Stefán Jón Hafstein ætlar að reisa fyrir Yoko Ono. Af öðrum náttúruverndarmálum á sérsviði Stefáns Jóns Hafstein, má þess helst geta að nauðsynlegt er að draga úr umgengni við Elliðaárnar til þess að laxveiðimenn verði síður fyrir truflunum eða áreiti frá útivistarfólki svo þeir geti haldið áfram þeim þarflegu aðgerðum að hjálpa okkur borgarbúum við að losna við þessi stórhættulegu kvikindi sem laxar kallast.
Samfylkingin styður jafnrétti þegnanna, líka frambjóðenda. Ef helstu andstæðingar klúðra sínum málum í kosningabaráttunni, telur Samfylkingin nauðsynlegt að gera slíkt hið sama svo jafnrétti verði náð. Fyrst fór Framsókn á bömmer yfir Hömmer og síðan réðust ljósastaurar á ónefndan fyrrum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og nú oddvita flokksins í Túborg. Þetta fannst Samfylkingunni alveg ómögulegt og til að viðhalda jafnréttishugsjónum flokksins, var ákveðið að leggja sérstakt bílastæðagjald á bílastæði í eigu borgarinnar til að tryggja það að sauðsvartur almúginn hafi ekki efni á að leggja bílnum í þessi fínu bílastæði og finni sér annan flokk að gefa atkvæðið sitt.
Það er laust pláss við hliðina á Ólafi F. Magnússyni afturí Hömmernum hjá Birni Inga er sá fer suðureftir með fylgdarliði að sækja Silvíu Nótt og sigurlaun hennar eftir sigurinn í Júróvisjón. Ég legg til að Stefán Jón fái að prófa þetta pláss og fara með til Keflavíkur.
-----oOo-----
Það þarf greinilega að fækka ljósastaurum í Reykjavík svo ekki komi til útrýming Sjálfstæðismanna í borginni.
miðvikudagur, maí 17, 2006
18. maí 2006 - Samfylkingin og bílastæðagjaldið
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:48
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli