þriðjudagur, maí 16, 2006

16. maí 2006 - Frjálslyndi flokkurinn og útrýming einbreiðra akbrauta


Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Frjálslynda flokkinn í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga borgarstjórnarflokksins til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég fór að fylgjast með honum yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og hefja einkabaráttu gegn vinstrigrænum umhverfisverndaröflum. Þá hefur borgarfulltrúi flokksins sýnt af sér mikla hógværð í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú er öldin önnur önnur, því eftir fjögur ár af reiðuleysi á milli fylkinga hefur Frjálslyndi flokkurinn markað sér stefnu og sættir sig ekki við neinar málamiðlanir frá stefnu sinni.

Frjálslyndi flokkurinn hefur lofað okkur því að viðhalda Vatnsmýrarflugvelli. Ef hann kemst í meirihlutasamstarf í borginni ásamt Vinstri grænum og Framsókn, fáum við brátt að sjá þrjá innanlandsflugvelli í næsta nágrenni, einn í Vatnsmýri, annan á Lönguskerjum og loks hinn þriðja á Hólmsheiði auk svo tveggja minni flugvalla í Mosfellssveit og á Sandsskeiði.

Frjálslyndi flokkurinn ætlar að útrýma einnar akreina götum í Reykjavík. Það er vel og sé ég í anda Laugaveginn með tvær akreinar í hvora átt frá Bakarabrekkunni og austur úr borginni. Nú kann einhver að spyrja hvort Frjálslyndi flokkurinn hafi ekki einmitt lofað okkur því að vernda götumynd Laugavegarins. Ju það er rétt, en hann bætti því við að hann vildi vernda götumynd Laugavegarins eins og hún var á 19. öld. Eins og allir vita var ekki til neinn Laugavegur fyrr en í lok 19. aldar og því er ekkert því til fyrirstöðu að breikka Laugaveginn niður að Hverfisgötu og leggja tvær akreinar og jafnvel þrjár akreinar í hvora átt með góðri og grænni umferðareyju á milli akreina auk sérstakra hjólreiðabrauta.

F-listinn hefur boðað verndun óspilltrar náttúru í borginni. Þetta kann að virðast í hrópandi ósamræmi við Vatnsmýrarflugvöll, risastóran spítala við Hringbraut og útrýmingu einfalds gatnakerfis í borginni. Svo er þó ekki. Þegar búið verður að breikka Laugaveginn og sameina Hverfisgötu, breikka götur eins og Lækjargötuna og Mýrargötu og Suðurgötu frá Ráðhúsi og hugsanlega lengja Vatnsmýrarflugvöll uns hann nær að Alþingishúsinu, þá verða engir íbúar eftir í Reykjavík og því verður engin mengun af umferð, nema þá helst af brottfluttum Reykvíkingum sem koma til Reykjavíkur í flugi til að leggjast inn á Hátæknisjúkrahús Ólafs F. Magnússonar. Því verður mengunin minni en nú er í draugabænum Reykjavík.

Ég legg til að Ólafur F. Magnússon fái að sitja afturí Hömmernum hjá Birni Inga, er hann og ónefndur Sjálfstæðismaður sem er að missa bílprófið, fara til Keflavíkur að taka á móti Silvíu Nótt eftir sigurinn í Júróvisjón.


0 ummæli:







Skrifa ummæli