mánudagur, maí 15, 2006

15. maí 2006 - Sjálfstæðisflokkurinn og ljósastaurar

Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Sjálfstæðisflokkinn í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga vora til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég fór að fylgjast með honum stjórna borginni af mikilli röggsemi og breytt henni úr smáþorpi í stórborg á íslenskan mælikvarða. Þá hafa borgaryfirvöld sýnt af sér mikið örlæti í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú er öldin önnur önnur, því R-listinn hefur staðið vaktina síðustu tólf ár og senn kveður hann vettvang borgarmálanna og leysist upp í frumeindir sínar.

Margt hefur farið úrskeiðis á þessum tólf árum sem R-listinn hefur verið við völd. Hann hefur til dæmis ekki staðið við það aðalskipulag borgarinnar 1965 -1983 að gera mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þrátt fyrir að því hafi verið lofað í Blárri bók Sjálfstæðisflokksins sem gefin var út fyrir kosningarnar 1966. Þá hefur R-listinn ekki staðið við það loforð Borgarstjórnar Reykjavíkur frá því 7. júlí 1966, að miða hitaveitugjöldin framvegis við byggingarvísitöluna sbr. leiðara Morgunblaðsins á bls 12 þann 9. júlí 1966 Þannig hækkaði R-listinn hitaveitugjöldin einungis um 40% á tímabílinu 1994 til 2004 á sama tíma og byggingarvísitalan hækkaði um 55%. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og kemur niður á framkvæmdum hitaveitunnar til langframa.

Verst af öllu er þó það framtak borgarinnar á undanförnum árum að reisa ljósastaura útum alla borg í þeim tilgangi einum að fækka Sjálfstæðismönnum og verður slíkt að skoðast sem hið versta illvirki í garð Sjálfstæðisflokksins. Til að bæta gráu ofan á svart hefur fráfarandi stjórnarformaður Orkuveitunnar lagt til að reistir verði ljósastaurar á leiðinni frá Þrengslavegamótum til Þorlákshafnar, rétt eins og hann viti ekki að sumir framámenn Sjálfstæðisflokksins þurfa að aka framhjá öllum þessum ljósastaurum á leið sinni austur í Flóa.

Loks legg ég til að Björn Ingi bjóði ónefndum frambjóðanda að sitja í hjá sér í Hömmernum þegar ekið verður framhjá öllum ljósastaurunum til Keflavíkur til að taka á móti Silvíu Nótt og sigurlaunum hennar úr Júróvisjón.

-----oOo-----

Ég lofa sumum sem lesa bloggið mitt að skrifa ekkert um ónefndan finnskan ökumann gegn því að þeir hinir sömu skrifi ekkert um svarthvítar hetjur í Vesturbænum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli