fimmtudagur, maí 25, 2006

25. maí 2006 – Almenn dagbókarfærsla

Ekki ætla ég að byrja almenna dagbókarfærslu með því að tilkynna hvað ég drakk marga kaffibolla fyrir hádegi. Þá væri nú betra að finna sér eitthvað annað til dundurs en að blogga. En samt, ég drakk einhverja kaffibolla samt fyrir hádegið og síðan skrapp ég úr vinnunni og á fund hjá Kynfræðslufélaginu þar sem ég hélt erindi um transgender. Það tókst allsæmilega, en ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri á fundinum sem var sæmilega kynntur að ég held. Það er þó greinilegt að transgender málefni eru ekki jafnmikilvæg í augum íslensku þjóðarinnar og til dæmis spurningin hvort leggja eigi Miklubrautina í stokk eða hvort leggja eigi aukagjald á opinber bílastæði.

Erindið sem ég flutti verður seint talið til heimsbókmenntanna. Til þess var það ekki nægilega hnitmiðað og ákveðið, kannski eilítið ruglingslegt fyrir það fólk sem ekki þekkir til transgender. Það verður samt að hafa sinn gang og vonast ég til að ég geti þá notað sama erindi aftur í endurbættri útgáfu næst þegar ég verð látin flytja erindi. Hið jákvæða við erindið var þó að ég hitti í fyrsta sinn á ævinni konu sem mér fannst ég gjörþekkja og hefi miklar mætur á, Sólveigu Önnu Bóasdóttur guðfræðing og siðfræðing af Stuðlaætt, en hún var fundarstjóri á fundinum.

Það var allt á fullu í vinnunni þegar ég kom til baka Fullt af verktökum að vinna við kerfiráðinn og mitt í öllu á sama tíma og verið var að vinna við lokanir á kerfum úti í bæ. Síðan mættu tveir fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórnstöðina í atkvæðaleit. Ég var þreytt þegar ég loksins kom heim. Þar var annars konar umstang, fólk að flytja úr einni íbúð og fólk að flytja inn í aðra íbúð, allt á sama tíma. Merkileg tilviljun þegar haft er í huga að einungis átta íbúðir eru í stigaganginum.

-----oOo-----

Halldór Ásgrímsson kvartaði sáran í gær yfir mannvonsku íslensku þjóðarinnar og hve hún hafi vegið ódrengilega að Framsóknarflokknum að undanförnu og líkir árásum á flokkinn við árásir á Ólaf Jóhannesson þáverandi dómsmálaráðherra eftir miðjan áttunda áratug tuttugustu aldar. Það er nú gott að heyra, ekki síst sú einfalda staðreynd að helmingur þjóðarinnar eru konur, en ekki drengir.

Ekki ætla ég að fara að rifja upp þær deilur sem spruttu af ætluðum tengslum Framsóknarflokksins við Geirfinnsmálið á sínum tíma. Geirfinnsmálið er að auki þess verra að vitna til, að ég held að flestir geri sér grein fyrir því í dag að málalok þess á sínum tíma voru tilbúningur og að í reynd er málið enn óupplýst. Hinsvegar fóru orð Ólafs Jóhannessonar út um allt landið og miðin er hann kallaði ritstjórn dagblaðsins Vísis fyrir mafíu í útvarpsviðtali. Í kjölfarið fóru ritstjórar Vísis í mál við dómsmálaráðherrann sem svaraði með því að hunsa ákæruna og var síðan dæmdur til fébóta af verkum sínum.

Ekki veit ég hvort hægt sé að líkja þessu tvennu saman. Mér sýnist í fljótu bragði að helstu andstæðingar Framsóknarflokksins í þessum kosningum séu sjálfir Framsóknarmenn, meðal annarra bílstjóri Hömmersins fræga sem lagði í fatlaðrastæðið. Ritstjórar Vísis á sínum tíma voru þó pólitískir andstæðingar dómsmálaráðherrans. Þá hefur innkoma Björns Inga ekki verið Framsóknarflokknum til þess framdráttar sem ætlað var. Bæði Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir höfðu talsvert persónufylgi sem fylgir þeim persónulega án tillits til flokkshagsmuna. Á sama tíma er Björn Ingi á kafi í vinnu í óvinsælu ráðuneyti sem meðal annars studdi innrás Bandaríkjanna í Írak. Sjálf hefi ég ekkert á móti Birni persónulega og veit margt gott um hann, en hann er ekki Alfreð og hann er ekki Anna og ég hefi engar skyldur gagnvart honum.

Svo er ég búin að reka Björn Inga úr ætt við mig, en það er allt önnur saga.


0 ummæli:







Skrifa ummæli