Upphaflega hugmyndin hjá mér var sú að halda áfram að fjalla um hið jákvæða í stefnuskrám stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram í Reykjavík og ætlaði ég mér að fjalla um stefnuskrá Samfylkingarinnar í dag. Þrátt fyrir mikla leit fann ég enga áhugaverða stefnuskrá, ef frá er talin hugmynd Stefáns Jóns Hafsteins og Yoko Ono að ljósatyppi í Viðey. Ég verð því að fjalla um Samfylkinguna þegar nær dregur helginni og ef mér tekst að finna stefnuskrána. Ég vona að ég þurfi ekki að ræsa út flugbjörgunarsveitina til leitar að henni.
-----oOo-----
Á þriðjudag kvaddi ég góðan mann og föður vina minna frá unglingsárunum, Ólaf Hjartar bókasafnsfræðing og fyrrum deildarstjóra á Landsbókasafninu. Hann var á 88. ári og hafði verið sjúklingur um margra ára skeið og má segja að andlát hans hafi verið honum sjálfum, ekkju hans og börnum léttir frá erfiðum veikindum.
Við greftrun og erfidrykkju hélt ég mig nærri sonum hans tveimur, enda báðir kvæntir í Svíþjóð þarlendum konum og sem ég þekki báðar ágætlega. Við erfidrykkjuna tróð ég mér því í sæti til borðs með fjölskyldunni, enda hefur kurteisi aldrei verið mín sterka hlið. Meðal kirkjugesta sem og í erfidrykkju var frændi Ólafs og nafni sem Kristín V. bloggvinkona mín og fjarskyld frænka telur að eigi þátt í tilveru hennar, þótt hvorki hafi hann verið viðstaddur getnað né fæðingu hennar.
Sá síðastnefndi kvaddi auðvitað fjölskylduna með handabandi áður en hann yfirgaf samkvæmið og mig líka þar sem ég sat með fjölskyldunni. Ég er enn ekki búin að þvo mér um hendurnar.
17. maí verður önnur kveðja þegar gamall skipsfélagi verður borinn til grafar, Halldór Erlingur Ágústsson fyrrum yfirvélstjóri hjá Eimskip. Við sigldum saman á öðru tveggja erfiðustu skipa sem hafa siglt undir fána félagsins M.s. Laxfoss (ex City of Hartlepool), stundum kallað City of Laxfoss, enda var skipið á þurrleigu hjá Eimskip frá enska útgerðarfyrirtækinu Ellerman City Liners. Það var erfið vist og þrældómur meðan á henni stóð, enda aðalvélin tilraunavél sem kom framleiðanda sínum í gjaldþrot á stuttum tíma eftir að hafin var framleiðsla þessara misheppnuðu véla sem voru af gerðinni Doxford 58JS3. Meðan á þessari vist stóð, var mikill fengur af að hafa jafnhógværan og geðprúðan mann yfir vélarrúminu sem Dóri var. Með fráfalli hans hefur fækkað um einn merkismann í hinni óopinberu Íslandsdeild Doxfordfélagsins.
Megi báðir þessir heiðursmenn eiga góða vist í eilífðinni hjá almættinu um leið og ég vil votta fjölskyldum þeirra samúð mína.
-----oOo-----
Í sjónvarpsfréttum á þriðjudagskvöldið var sagt frá heyrnarlausri konu sem hafði margsinnis kvartað yfir ónæði og óreglu í nágrönnum sínum í húsi við Rauðarárstíg þar sem kviknaði í síðastliðinn sunnudag. Svo var skipt yfir á fréttakonuna sem talaði við myndavélina í sviðnum stigagangunum í húsinu og hélt hún því fram að sú heyrnarlausa hefði kvartað yfir hávaða og ónæði nágranna síns. Þetta þótti mér mikil frétt og spurning hvort þetta flokkist ekki undir kraftaverk.
miðvikudagur, maí 17, 2006
17. maí 2006 - Kveðjudagar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:03
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli