þriðjudagur, maí 09, 2006

9. maí 2006 - Farvel Franz


Sumum þætti það köld kveðja að hefja stutta minningu um góðan kennara á þennan hátt, en það er ekki ætlunin. Þýskukennarinn minn úr Vélskólanum kvaddi nefnilega þennan heim um daginn og var formlega kvaddur í gær. Hann hét Franz Gíslason og var náttúruunnandi, áhugamaður um ættfræði, sósíalisti og trúleysingi.

Útförin var jafn óvenjuleg og maðurinn sjálfur í lifanda lífi og frétti ég að nákvæmlega hefði verið farið eftir óskum hans sjálfs. Athöfnin fór fram í Fossvogskapellu, en engan sá ég prestinn. Í hans stað flutti Árni Hjartarson jarðfræðingur ávarp í upphafi og kveðjuorð í lokin, Ingibjörg Haraldsdóttir og Baldur Óskarsson fluttu ljóð og Karl Guðmundsson leikari flutti kveðju frá Þýskalandi. Sigurður R. Guðjónsson Vélskólakennari sá um minningarorðin og sungin voru þýsk ljóð. Að lokum sungu viðstaddir Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson og Halldór K. Laxness. Kistan var svo borin út undir hefðbundnum orgeltónum sem enduðu með “Fram þjáðir menn í þúsund löndum”.

Það var óvenjulétt yfir kirkjugestum. Hinn látni var nýlega orðinn sjötugur, en var sáttur við lífið og dauðann. Hann hafði óskað eftir skemmtilegri útför og fékk hana. Ég viðurkenni alveg að mitt gamla íhaldshjarta hefði fremur kosið að hafa prest í nánd, en hreifst samt af stemningunni. Megi minningin um Franz lifa áfram með okkur.

-----oOo-----

Ég fékk hinn nýja disk Hvanndalsbræðra með póstinum í gær. Ég er að sjálfsögðu stórhrifin af honum því eins og segir á plötuumslaginu: Með kaupum á þessum disk afsalaðir þú þér réttinum á að vera tekin alvarlega þar sem umræður um tónlist eiga sér stað!!!


0 ummæli:







Skrifa ummæli