fimmtudagur, maí 11, 2006

11. maí 2006 - Mislæg gatnamót

Það eru komnar einhverjar vikur síðan ég ók síðast um vegamót Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Ég sé hinsvegar úr fjarlægð þegar ég á leið um Hálsahverfið, að það eru geysilega miklar framkvæmdir í gangi við umrædd gatnamót og bendir það til að framkvæmdir séu hafnar við nýju mislægu gatnamótin sem á að gera þarna.

Enn situr í mér óhugur eftir síðustu framkvæmd mislægra gatnamóta í Reykjavík og greinilegt að þau eru hönnuð af sama kjána og hannaði mislægu gatnamótin á mótum Skeiðarvogs og Miklubrautar. Ekki veit ég hvað maðurinn heitir, en ef ég réði einhverju um vegaframkvæmdir, fengi maðurinn ekki jafngóða útreið og hann fékk hjá Spaugstofunni í vor. Með Skeiðarvogsbrúnni sannaði maðurinn vanhæfni sína til að hanna umferðarmannvirki og hefði átt að bjóða honum að finna sér aðra atvinnu þegar sú brú var vígð, enda vill fólk heldur lenda í umferðarhnút á Grensásvegi en að villast á Skeiðarvogsbrúnni. Sjálf villtist ég um daginn er ég ætlaði að fara af Bústaðavegi og austur Miklubraut og endaði á Flókagötunni og komst loks inn á Miklubrautina á gatnamótunum við Lönguhlíð.

Í öllum venjulegum löndum þykir sjálfsagt að þegar ætlunin er að skipta yfir á umferðargötu til hægri, að fara lengst til hægri og beygja inn á afrein til hægri og komast inn á réttu akbrautina. Af Skeiðarvogi er farið yfir á vinstri akrein (þótt nóg pláss sé fyrir hægri afrein), beðið á ljósum og síðan farið til vinstri og í U-beygju til að komast vestur Miklubrautina. Sami bjánaháttur er ef ekið er niður Bústaðaveginn að Miklatorgi og ætlunin er að aka austur Miklubraut.

Ekki er hægt að kenna Sturla Böðvarssyni um þessa vitleysu þótt ég trúi öllu illu upp á hann. Hann var ekki orðinn samgönguráðherra þegar Skeiðarvogsbrúin var byggð.

-----oOo-----

Það ríkir sorg í Halifaxhreppi í kvöld. Hetjurnar okkar gerðu jafntefli við Gránufjelagið í seinni leiknum í umspili um sæti í langneðstu deild og lentu því áfram með samtals fimm mörkum gegn fjórum, en Gránufjelagið tryggði áframhaldandi veru sína í kvenfélagsdeildinni með þessu jafntefli. Halifaxhreppur mun hinsvegar þurfa að spila úrslitaleik í Leicester 20. maí við annaðhvort nautin í Héraford eða rækjurnar í Meirikamp sem munu spila á fimmtudagskvöldið.

Við verðum því að bíða í tíu daga eftir því hvort hetjurnar okkar verði áfram bestar í kvenfélagsdeildinni eða langneðstar í langneðstu deild í haust.


0 ummæli:







Skrifa ummæli