laugardagur, maí 20, 2006

20. maí 2006 - Silvía Nótt - lokaþáttur


Á föstudegi eftir undankeppni Júróvisjón keppast ýmsir aðilar í þjóðfélaginu að verja Ágústu Evu Erlendsdóttur, alias Silvíu Nótt eftir tap hennar í undankeppninni. Í sífellu er klifað á því hve hún sé góð leikkona og að lætin í henni hafi bara verið hluti af stóru leikriti og að Silvía Nótt sé leikin persóna.

Hvað á þá að segja um Ágústu Evu sem lék Silvíu Nótt? Hvað um alla keppendurna sem urðu fyrir háðsglósum og móðgunum Ágústu Evu í hlutverki Silvíu Nætur? Hvernig eiga þeir að leita réttar síns gagnvart aðilanum sem jós þá svívirðingum? Nægir þeim að hugga sig við að þetta var bara leikur? Getur Eyþór Arnalds ekki bara sagt að hann hafi verið að leika er hann keyrði niður ljósastaurinn á Sæbrautinni? Var þetta ekki bara leikur hjá Framsókn er þeir lögðu Hömmernum í fatlaðrastæði?

Nýjasta útspilið hjá Ágústu Evu alias Silvíu Nótt var að ásaka Carólu Häggkvist fyrir að hafa sofið hjá til að komast í lokakeppnina. Þrátt fyrir að ég hafi andstyggð á persónu Carólu Häggkvist, þá er þetta útspil Ágústu Evu alias Silvíu Nætur mjög alvarlegt mál og spurningin hvort ekki þurfi að grípa inn í og senda þessa stúlku heim með næsta flugi áður en hún verður íslensku þjóðinni til enn meiri skammar.

Verjendur Ágústu Evu, alias Silvíu Nætur afsaka hana með því að hún hafi bara verið að leika. Hver á þá að greiða hreinsun á fötum fólksins sem Ágústa Eva hrækti á eftir að úrslitin voru kunn? Getur viðkomandi ekki bara greitt skaðann sjálfur af því að Ágústa Eva var bara að leika Silvíu Nótt? Það er ekki endalaust hægt að kasta ábyrgðinni á eitthvað fyrirbæri sem er ekki til. Því hlýtur ábyrgðin að liggja hjá aðilanum sem framdi illvirkið eða þá hjá þeim aðila sem stjórnaði förinni, þ.e. íslenska sjónvarpinu alias íslensku þjóðinni!

Það skiptir litlu eða engu máli í hvaða tilgangi illvirki eru framkvæmd. Sá sem framkvæmir illvirkið hlýtur að bera kostnaðinn af því sjálfur, ekki sá sem varð fyrir því. Fyrir fólkið sem varð fyrir svívirðingunum skiptir engu máli hvort það var Ágústa Eva eða Silvía Nótt sem framdi glæpinn, en í hógværð sinni létu fulltrúar þjóðanna sér nægja að reka hana úr keppninni í refsingarskyni. Um það má svo deila hvort ekki sé kominn tími til að beita harðari refsiákvæðum en þeim að púa og mótmæla með atkvæðinu í Júróvisjón, t.d. að beita fésektum eða tímabundnum brottrekstri frá keppninni.

Með þessum orðum mínum, vona ég að ég þurfi aldrei aftur að blogga um Silvíu Nótt, hvorki af góðu né illu tilefni.

-----oOo-----

Það er mikið rætt um að Júróvisjón sé orðin keppni Austur-Evrópuþjóða. Í mínu ungdæmi var talað um 33 Evrópuþjóðir, en Austur-Evrópa tók ekki þátt í Júróvisjón að undanskilinni Júgóslavíu sem hefur lengi verið með. Í þetta sinn hófu 37 þjóðir þátttöku af rúmlega 40 þjóðum, þar af 16 ríki frá gömlu Austur-Evrópu. Þó hafa lög frá Austur-Evrópu einungis unnið keppnina fjórum sinnum frá upphafi, Júgóslavía 1989, Eistland 2001, Lettland 2002 og Úkraína 2004. Því er ekki hægt að halda því fram að Austur-Evrópuþjóðir hafi einokað þessa keppni, fremur að þær hafi rétt að nokkru sinn hlut eftir að hafa verið hunsaðar af Vestur-Evrópu í fjölda ára. Það má hinsvegar spyrja sig þess hvort Norðurlandaþjóðirnar hafi ekki unnið óeðlilega oft, en þessar fimm þjóðir hafa unnið samtals átta sinnum þar af fjórum sinnum frá 1990.

-----oOo-----

Í lokin má svo minna alla aðdáendur hetjanna í Halifaxhreppi sem gætu verið á ferðinni í nágrenni við Leicester eftir hádegi á laugardag að mæta á úrslitaleikinn sem fer fram á fótboltavelli bæjarins og hvetja andstæðingana, svo hetjunum okkar auðnist að leika áfram í kvenfélagsdeildinni í haust.


0 ummæli:







Skrifa ummæli