Nú eru komin nákvæmlega tíu ár frá því ég hætti störfum hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar og flutti aftur til Íslands eftir sjö ára útlegð frá Íslandi. Það er full ástæða til að minnast þessa með nokkrum orðum því betri vinnuveitanda hefi ég aldrei haft, hvorki fyrr né síðar, og hefi ég þó oft unnið hjá fólki sem sýnt hefur mér vinsemd og virðingu.
Árið 1993 þurfti ég að ganga út á meðal samstarfsfólks míns við Hässelbyverket í Stokkhólmi og tilkynna hvað ég væri á leiðinni í gegnum, þ.e. leiðréttingu á kyni. Ég hafði þá lifað tvöföldu lífi um skeið, í kvenhlutverki heimavið en í karlhlutverki í vinnunni. Það var hinsvegar kominn tími á að brjóta múra og ljúka því ferli sem ég hafði byrjað mörgum árum áður á Íslandi og nú var komið að örlagastundu og tilkynningaskyldu. Ég valdi þá leið að skrifa bréf til vinnufélaganna sem og yfirmanna orkuversins þar sem ég útskýrði transsexualisma í fáeinum orðum og hvernig ég tengdist slíku tilfinningalífi og meðferðum. Ég vissi ekkert hver viðbrögðin yrðu, hvort ég yrði rekin eða útskúfuð á annan hátt. Í besta falli reiknaði ég með því að fá að halda vinnunni.
Viðbrögðin komu mér gjörsamlega á óvart. Af tæplega hundrað manna starfsliði fékk ég næstum ótakmarkaðan stuðning og varð ég fyrir smávegis fordómum frá einungis einum manni og sá var snarlega kallaður á fund og bað mig afsökunar á framferði sínu nokkru síðar. Yfirmenn vinnustaðarins gerðu gott betur en þetta. Þeir kölluðu í Dr. Bengt Lundström ráðgefandi læknir við Socialstyrelsen og sérfræðing í transsexualisma sem og Dr. Jan Eldh lýtalækni sem síðar framkvæmdi aðgerðina á mér til leiðréttingar á kyni og héldu þeir kynningarfund fyrir starfsfólk orkuversins. Eftir þetta fékk ég algjöran stuðning frá starfsfólkinu og hélt honum í gegnum súrt og sætt. Vorið 1994 mætti ég í fyrsta sinn í sjónvarpsviðtal í þætti í sænsku sjónvarpi sem fjallaði um transsexualisma. Tveir vaktfélagar mínir mættu sömuleiðis í sama sjónvarpsþátt mér til stuðnings. Ég lenti í viðtali í tímariti sænska Vinnueftirlitsins þar sem fjallað var um viðbrögðin á vinnustað gagnvart óskum mínum. Öll vaktin mín stóð með mér í myndatökum fyrir þetta viðtal.
Það má furða sig á því afhverju ég yfirgaf þennan góða vinnustað vorið 1996 og hélt heim á vit örlaga minna. Það hafa oft komið þær stundir að ég hafi fyllst eftirsjá að hafa kvatt þetta góða fólk og haldið aftur til Íslands, en um leið er ég fædd og uppalin á Íslandi og hér búa flestir ættingjar mínir. Hér bjuggu foreldrar mínir og systkini, börn og síðar barnabörn. Ég er alin upp með Esjuna fyrir augum alla daga og ég sá Esjuna í huga mínum hvern einasta dag, öll þessi ár sem ég bjó erlendis.
Á þessum tíu árum sem liðin eru síðan ég flutti til Íslands hefi ég kynnst mörgum góðum og jákvæðum einstaklingum sem hafa hvatt mig áfram og staðið með mér í baráttunni fyrir mannsæmandi lífi á Íslandi. Að öllum öðrum ólöstuðum, vil ég nefna tvo menn sem mér eru kærari en aðrir þegar þessi mál ber á góma og hafa komið í veg fyrir að ég gæfist upp og færi aftur til Svíþjóðar, enda hafa þeir sýnt mér slíka alúð og kærleika að gengur langt umfram venjulegan náungakærleika. Þessir tveir menn, báðir mér algjörlega óháðir, ótengdir og óskyldir, eru Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir í Reykjavík og Emil K. Thorarensen fyrrum útgerðarstjóri hjá Eskju hf. á Eskifirði, nú verktaki á Eskifirði. Án þessara tveggja manna væri ég löngu búin að yfirgefa þetta land fyrir fullt og allt. Þeir eru mínar hetjur.
fimmtudagur, júní 01, 2006
1. júní 2006 - Tíu ár
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:07
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli