mánudagur, júní 12, 2006

12. júní 2006 - Að sækja sér fé

Í síðustu viku birtist viðtal við Odd Helgason fyrrum sjómann og sjálfskipaðan ættfræðing á Rás 2 í útvarpinu og datt þá mörgum í hug að nú vantaði karlinn peninga til starfsemi sinnar. Þegar svo kom annað viðtal við sama mann í Morgunblaðinu í gær, 11. júní, gat ég ekki lengur orða bundist.

Ástæða þessa er sú að Oddur hefur setið á kontór sínum um rúmlega tíu ára skeið og skráð gögn sem áður hafa birst í bókum og kallar það rannsóknavinnu. Í hvert sinn sem út kemur nýtt niðjatal eða byggðatal sem unnið hefur verið á löngum tíma af áhugafólki um ættfræði, mætir Oddur og kaupir sér eintak af ritinu, skráir það inn í gagnagrunn sinn og kallar það ættfræði. Það að skrá inn gögn eftir annað fólk án þess að leggja neitt fram sjálfur af rannsóknavinnu, gefur lítið af sér í peningum. Maður gefur ekki aftur út ættfræðirit sem búið er að gefa út og fyrir bragðið hefur aldrei neitt verið gefið út af Ættfræðiþjónustunni ORG.

Það þarf samt að reka skrifstofuna og kaupa inn bækur og greiða laun til framkvæmdastjórans, Odds Helgasonar svo hann eigi fyrir neftóbaki í baukinn sinn. En þar sem engar eru eigin tekjur, verður að sækja styrki til starfseminnar. Þess vegna sækir Oddur mjög í að komast í viðtöl í fjölmiðlum svo hann geti miklað sig af afrekum sínum sem lítil eru og sent viðtölin við sig sem fylgirit með umsóknum sínum um nýja styrki. Þegar styrkirnir eru komnir í hús, getur hann haldið áfram að skrá inn nýjustu bækurnar og montað sig af fjölgun í gagnagrunni sínum.

Fyrir nokkrum árum síðan lenti afrit af gagnagrunni Odds Helgasonar á flæking úti í þjóðfélaginu. Þá var gagnagrunnurinn orðinn um 510.000 manns. Mér var sýnt þetta afrit og sá strax veigamikla galla á þessum gagnagrunni. Oddur hafði skráð inn alla Vigurættina, níu bindi auk registurs. Til þess að spara sér tíma við skráninguna, var öllum öðrum upplýsingum en grunnupplýsingum sleppt. Vinnufélagi minn einn er skráður með rangt föðurnafn í bókunum og hann er líka skráður með sömu villu í gagnagrunni Odds Helgasonar. Munurinn er þó sá að auðvelt er að leita sér upplýsinga um þessa villu eftir upplýsingunum í Vigurætt, en með því að Oddur hefur ekki skráð nema fæðingardag mannsins, er mjög erfitt að finna villuna eftir þeim upplýsingum einum. Með því að skrá einungis grunnupplýsingarnar úr Vigurætt, gerði hann aðalhöfundi ritanna um Vigurættina, Ásgeiri Svanbergssyni, illan leik. Sigurður Hermundarson hefur unnið í þrjú ár við að afla upplýsinga og skrá Grundarættina, mikið verk sem telur um 11000 niðja. Þegar ritverkið kemur út, mun Oddur Helgason verða fyrstur til að kaupa bækurnar og pikka upplýsingarnar inn í tölvuna sína.

Eitt sinn lenti ég á spjalli við karlinn á skrifstofu hans sem þá var við Hjarðarhaga í Reykjavík. Hann sýndi mér gögn um langalangömmu mína og varð ég að mótmæla þessu, vitandi að ég var ekki komin af ættinni Welding. Um svipað leyti var hægt að sækja upplýsingar um framættir í prentuðu formi frá Íslendingabók og þar kom sama villan fram þótt ljóst væri að ætluð langalangamma mín hefði dáið tíu ára gömul árið 1840. Þetta benti til að báðir aðilar hefðu sótt villuna í sama grunninn, niðjatal Welding ættarinnar í Hafnarfirði.

Skömmu síðar skrifaði ég grein um Íslendingabók í fréttabréf Ættfræðifélagsins þar sem ég benti meðal annars á þessa villu og af illkvittinni gamansemi minni, nefndi ég að þarna hefði Íslendingabók gengið í smiðju til Odds Helgasonar. Öfugt við það sem ég átti von á, hefi ég átt gott samstarf við Íslendingabók allar götur síðan. Oddur Helgason hefur hinsvegar aldrei heilsað mér aftur og sagði sig úr Ættfræðifélaginu skömmu eftir þetta.

Starfsemi Odds Helgasonar er nánast ónýt vinna sem einungis mun nýtast þeim sem sættast á hálfkák og heimildaleysi í ættfræði. Við hin greiðum sjálf fyrir bækurnar okkar og notum frítímann frá brauðstritinu til að sækja sannleikann í kirkjubækurnar á Þjóðskjalasafnið.

-----oOo-----

Þegar ég var að fletta sunnudagsblaði Morgunblaðsins rak ég augun í atvinnuauglýsingu frá einu stærsta og virtasta flutninga- og útgerðarfyrirtæki í heimi og sem ég hefi hrósað áður á þessari síðu. Í auglýsingunni var auglýst eftir vélstjórum á glæsifleytur fyrirtækisins og með auglýsingunni fylgdi mynd af skutnum á gámaskipinu Adrian Mærsk sem ber 6600 TEUs (gámaeiningar). (Stærstu skipin hjá Mærsk bera 7668 TEUs, en stærra skip er í smíðum. Dettifoss og Goðafoss bera 1457 TEUs hvort). Ég varð að lesa tvisvar og þrisvar yfir þessa auglýsingu og hugsa mig um enn oftar áður en ég gerði mér grein fyrir því að ég get ekki fengið neitt betra eða þægilegra starf en ég hefi í dag sitjandi fyrir framan stjórntölvu einungis einni skipslengd frá heimili mínu. Ég viðurkenni þó að þetta kitlar hégómagirndina.

Ég ætti kannski bara að sækja um launalaust frí í nokkra mánuði og skreppa eitt úthald? hmmm?

-----oOo-----

Mér leiðist handbolti!


0 ummæli:







Skrifa ummæli