fimmtudagur, júní 15, 2006

15. júní 2006 - Baðferðin

Þegar ég var komin heim úr vinnu á miðvikudagseftirmiðdaginn, byrjaði ég á því að láta renna í baðið því svo vill til, þótt suma gruni annað, að ég fer stundum í bað eftir vinnu. Þegar ég var búin að láta renna í baðkarið heitt og gott vatn, alveg á mörkum þess að vera of heitt, skrapp ég fram í forstofu að hringja eitt símtal sem ég hafði gleymt.

Þar sem ég var að tala í símann heyrði ég skyndilega skerandi óp og hávaða innan úr baðherbergi. Ég stökk þangað og í sömu mund og ég kom að baðherbergisdyrunum veltist kolsvartur og rennblautur hnoðri fram af baðherberginu og beint inn í litla herbergi og undir rúm. Það fór ekkert á milli mála að þarna var Hrafnhildur ofurkisa á ferðinni og hafði greinilega ákveðið að fara í bað á undan mér. Merkilegt, hún hefur aldrei viljað fara í bað áður.

Það tók mig langan tíma að þurrka upp af gólfinu og síðan Hrafnhildi sjálfa og sleikja úr henni fýluna aftir baðið áður en ég komst sjálf í bað. Ég var þó vart búin að láta renna úr baðinu og þrífa það, þegar Hrafnhildur var komin ofan í baðkarið og farin að leika sér þar.

-----oOo-----

Í dag mun ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar láta af störfum og ný stjórn undir forsæti Geirs Hilmars taka við. Geir hefur margsinnis lýst því yfir að þetta sé sama stjórnin með nýjum andlitum og er það ver. Þó er einn munur á. Framsóknarmenn sem eru studdir af einungis örfáum kjósendum, halda áfram valdastöðu sinni og bæta við sig ráðherra.

Í Reykjavík er ástandið enn verra eftir kosningarnar. Hér höfðu kjósendur lýst frati á Framsóknarflokkinn svo eftir var tekið. Samt kemur flokkurinn út sem sigurvegari kosninganna eftir ótrúlega klaufalega myndun nýs borgarstjórnarmeirihluta undir stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og einn óvinsælasti borgarfulltrúi stjórnarandstöðu íhaldsins síðustu tólf árin og sem loksins gafst upp á að reyna að stjórna borginni, fékk alveg sérstaka sárabót frá Villa sem nýr stjórnarformaður stærsta fyrirtækisins í meirihlutaeigu borgarinnar.

Getur það verið, út frá orðum Vilhjálms Þ. um að hreinsa til í borginni, að hann ætli sér að þvo kjaftinn á umræddum fyrrverandi borgarfulltrúa með grænsápu svo hann geti átt samskipti við Framsóknarmanninn?

P.s.
Fimmtudagsmorgunn.
Batnandi fólki er best að lifa. Við lestur á fimmtudagsblaði Morgunblaðsins, sé ég að húsfreyjan á Mosfelli og fráfarandi umhverfisráðherra hefur ákveðið að friða kúluskítinn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli