Ég fór á tónleika á mánudagskvöldið. Það var ljóst löngu áður en ég kom á staðinn að eitthvað mikið var í vændum. Rúmlega klukkutíma áður en tónleikarnir áttu að hefjast voru allar aðkomuleiðir fullar af bílum og ég sá mitt óvænna og lagði mínum bíl við dælustöðina í Grafarholti því ég sá ekki möguleika á að komast að dælustöðinni við Víkurveg þar sem ég hafði hugsað mér að leggja bílnum.
Ég var snemma á ferðinni og var komin að Egilshöll klukkan hálfátta og var þá löng biðröð fyrir utan. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert hress með fyrirkomulag á staðnum, enda finnst mér óþarfi að bæta sjálfspíningu á öll þrengslin, en þau fólust í því að ég vissi ekki af neinum möguleika til að setjast niður fyrr en ég var á leiðinni út eftir tónleikana og settist því ekki niður fyrr en eftir fulla fjóra tíma
Öfugt við tónleikahaldarana, stóð Roger Waters sig með prýði og hefur greinilega engu gleymt frá fyrri árum og vafalaust hefur Nick Mason gert honum kleyft að halda sig við efnið. Það var gaman að sjá þá tvo skila Dark Side of the Moon með hjálp frábærra söngkvenna sem ég vissi ekki nöfnin á og allnokkrum hóp góðra hljóðfæraleikara. Ekki var það til að skemma fyrir, að sjá fólk á öllum aldri, gamla karla með skalla og ístru og hálfberar táningsstelpur dilla sér í takt eftir hljómunum í þeirri geysimiklu breidd tónleikagesta sem sjá mátti á staðnum og greinilegt að Pink Floyd og Roger Waters eiga sér aðdáendur á öllum aldri..
Mér tókst ekki að ná góðum myndum, en sonurinn var upp við sviðið og hann og vinnufélagi hans náðu mörgum myndum af kappanum sem ég vonast til að geta sett inn á þriðjudagskvöldið. Hinsvegar náði ég mynd af einum sem stóð rétt hjá mér og greinilega á svipuðum aldri og Roger Waters sjálfur.
-----oOo-----
Á forsíðu Fréttablaðsins á mánudag var mynd af hópi Íslendinga vera að fagna sigri Íslands yfir Svíþjóð í handbolta. Til vinstri á myndinni (hægra megin við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur) er maður sem sagður er vera Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóð og fagnar hann einnig innilega úrslitunum. Mér finnst þetta alvarlegt mál hve Göran Persson er orðinn hræðilega líkur Júlíusi Hafstein þeim sem grunaður er um að hafa klúðrað Kristnihátíð og stjórnarráðsafmæli um árið!
þriðjudagur, júní 13, 2006
13. júní 2006 – Tónleikar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:48
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli