föstudagur, júní 02, 2006

2. júní 2006 - Letilíf

Ég nenni varla að blogga núna. Kannski er enn einhver þreyta í mér frá því á miðvikudag, en þá var ég á útopnuðu allan eftirmiðdaginn, bæði við síðasta opna húsið hjá Ættfræðifélaginu á þessu vori, eina litla fjallgöngu og að sækja eina vinkonu mína suður á flugvöll, en hún hafði misst af fyrra flugi.

Gönguferðin að þessu sinni, var upp á Helgafellið í Mosfellssveit, lágt fell og auðfarið, nema þar sem við fórum upp, því auðvitað erum við komnar í svo góða þjálfun, að valin er erfiðasta leiðin, ef fjallið sýnist auðvelt viðureignar. Því var farið upp skriðurnar að austanverðu frá Skammadal og upp á toppinn. Síðan var þvælst aðeins um toppinn í lélegu skyggni, farið niður að sunnanverðu hjá bænum á Helgafelli og gengið þaðan norður fyrir fjallið og inn Mosfellsdalinn og til baka í Skammadalinn.

Loksins gat ég látið ljós mitt skína, sagt sögur úr sveitinni og rifjað upp ýmis atvik úr æskunni og aðrar góðar sögur, sem hafðar eru eftir Halldóri nokkrum Laxness og Agli Skallagrímssyni. Með þessu labbi er ég komin upp í ca 46 kílómetra þessa vikuna. Ef miðað er við 30 kílómetra meðaltal sem ég setti mér sem gönguáætlun sumarsins, er ég nú búin að ná því og sex kílómetrum fyrir næstu viku.


0 ummæli:







Skrifa ummæli