sunnudagur, júní 25, 2006

25. júní 2006 - Fjallganga


Það hefur fjölgað í gönguhópnum og Þórður sjóari orðinn fullgildur limur í hópnum. Í tilefni af því var haldið á Grímannsfellið á laugardagsmorguninn. Það var lagt af stað fyrir allar aldir eða klukkan níu og farið upp í Mosfellsdal. Þar var síðan farið eftir bókinni, bílnum lagt hjá Túnfæti og haldið þaðan upp fjallið. Þótt Grímannsfellið sé hærra en fjöll þau sem við höfum farið áður í sumar, reyndist það mun auðveldara viðfangs, en einnig var hægt að ganga talsvert eftir hábungunni til suðausturs áður en komið var á Háahnúk sem er talinn vera 482 metrar.

Eftir að hafa hvílst neðan við Háahnúk um stund var haldið til austurs niður brattann að Bringnagili, en þaðan var Köldukvísl fylgt til norðurs í átt að Gljúfrasteini og áfram þaðan að Túnfæti og síðan heim aftur.

Öll ferðin tók rúmlega sex tíma. Sit ég nú hér heima og vorkenni sjálfri mér, sólbrunnin á öxlum og hálsi og væntanlega verð ég með harðsperrur í dag eftir að hafa gengið á þúfum að hætti Bobby Fishers. Að venju stóðu ferðafélagarnir sig mun betur en ég, en ég læt svo nokkrar myndir fylgja á myndablogginu mínu undir liðnum 2.4. Fjallaferðir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli