föstudagur, júní 23, 2006

23. júní 2006 - Grúskað í ættfræði

Ég nenni ekki að blogga þessa dagana. Það er hvort eð er algjör gúrkutíð í landsmálunum og Björn Ingi búinn að máta peysufötin hans Halldórs Ásgrímssonar í von um að geta lagað kynjahlutföllin í nefndum og ráðum borgarinnar. Þá hefi ég verið á fullu á vöktum að undanförnu auk einnar aukanæturvaktar og ekki getað sinnt nýjasta áhugamálinu, að labba á fjöll.

Eitt hefi ég þó getað gert að undanförnu. Ég hefi unnið í því að undanförnu á vaktinni að skrásetja niðja áa minna í fimmta lið, þeirra Magnúsar Benediktssonar (1831-1902) frá Varmadal á Kjalarnesi og Sigríðar Erlendsdóttur (1840-1934) frá Herdísarvík í Selvogi. Ég er búin að skrá niður beinagrindina að niðjatalinu, en á eftir að vinna að nánari kynnum á því fólki sem komið er af þeim sambýlingunum. Ekki get ég sagt hjónum því þau giftust aldrei og opinberlega var Sigríður bústýra hjá Magnúsi sem var ekkill er sambúðin byrjaði.

Ég er nú komin með tæplega 600 niðja, en samt vantar enn mikið upp á að ná öllum, þá helst þeim sem búa erlendis. Þannig vantar mig flesta afkomendur Ragnhildar Magnúsdóttur í Kanada sem og einnar konu sem flutti til Bandaríkjanna. Það er þó ljóst að meirihluti niðja Magnúsar Benediktssonar kemur frá tveimur barnabörnum hans, Ragnhildi Egilsdóttur í Stapakoti í Njarðvíkum og Arndísi Benediktsdóttur á Lokastíg 28 í Reykjavík. Ég sé að þetta verður skemmtilegt niðjatal ef það kemst einhverntímann út á netið eða á prent.


0 ummæli:







Skrifa ummæli