sunnudagur, júní 04, 2006

4. júní 2006 - Af Alþingi ofl.

Þá er Alþingi farið heim í sumarfrí og mætir ekki aftur fyrr en í byrjun október. Ekki get ég sagt að ég hafi fylgst mikið með því, minnug orða ónefndrar varaþingkonu sem settist á þing í forföllum Hannibals Valdimarssonar fyrir rúmlega þremur áratugum. Eftir að hafa setið þar í nokkra daga, fannst henni kominn tími til að kveða sér hljóðs og sagði frá því, er hún fór til Reykjavíkur til að setjast á þing, ætlaði hún að nota tímann og skreppa í leikhús úr því hún væri í Reykjavík á annað borð. Það hefði þó fljótlega komið í ljós að hún þyrfti ekkert að skreppa í Þjóðleikhúsið því hún væri stödd í helsta leikhúsi þjóðarinnar, sjálfu Alþingi.

Afstaða mín gagnvart Alþingi þetta vorið er eitthvað svipað. Ég hefi lítið getað fylgst með raunverulegum umræðum né afgreiðslu mála, því fjölmiðlarnir hafa ekki haft nokkurn áhuga á að fræða okkur almúgann um það sem raunverulega gerðist, en eyddu öllum tímanum í að fjalla um leiklistartilburði alþingismanna. Einhversstaðar heyrðist mér þó sem að ný tóbaksvarnarlög hefðu verið samþykkt þar sem reykingar verða bannaðar á öllum opinberum stöðum frá miðju ári 2007.

Ég hefi marglýst því yfir hér að ég er ekki hrifin af þessari lögleiðingu reykingabanns. Ég hefði kosið að veitingamönnum yrði í sjálfsvald sett hvort þeir vildu banna reykingar á veitingastöðum sínum eður ei. Afstaða mín stjórnast ekki af eiginhagsmunahvötum, því ég hefi ekki reykt síðan í ágúst árið 2000. Hinsvegar tók ég þá ákvörðun þegar ég hætti að reykja, að hætta án fordóma gagnvart reykingafólki. Þannig hefi ég ekki bannað gestum mínum að reykja og ekki rekið þá út á svalir. Það er einungis ef mér finnast reykingarnar ganga út í öfgar sem ég áminni fólk um að reykja aðeins minna. Ég óttast hinsvegar að margt skemmtilegt fólk sem ég hitti stundum á Næstabar, muni hætta að sjást þar eftir að bannið tekur gildi.

Annað þingmál sem ég er óhress með afgreiðsluna á, er breytingatillagan við frumvarpið um réttindi samkynhneigðra. Breytingatillagan gekk út á að prestum yrði heimilt að gifta samkynhneigð pör, en mér skilst að hún hafi verið dregin til baka eða felld. Því miður segi ég, því með slíkri tillögu hefði verið hægt að ýta öllum málefnum samkynhneigðra út af borðinu í eitt skipti fyrir öll með því að þá hefði samkynhneigðum verið tryggð full mannréttindi. Í þetta sinn tókst kirkjunni að tefja fyrir framgangi málsins og er það miður.

-----oOo-----

Síðustu viku gekk ég í samtals 60 kílómetra. Þetta er tvöfalt meira en áætluð göngulengd vikunnar og þarf ég nú einungis að ganga tíu kílómetra til að ná markmiði nýrrar viku. Ætlunin er þó að ganga töluvert, enda bíða mín tvö léttfarin fjöll í nágrenni Reykjavíkur, en eru þó nauðsynleg til æfinga fyrir erfiðari göngur síðsumarsins. Þetta verða Keilir og Grímannsfell og nú er það spurningin hvort mér takist ætlunarverkið?


0 ummæli:







Skrifa ummæli