föstudagur, nóvember 30, 2007

30. nóvember 2007 - Að kvitta undir VISA-nótur

Mér finnst rétt eins og flestum, ákaflega leiðinlegt að kvitta undir VISA-reikninga þegar ég að versla eitthvað. Ekki er það til að bæta úr að aðstaðan til þess er oft á tíðum slæm. Ef boðið er að skrifa undir í réttri hæð, er það á illa festum undirfleti svo að undirlagið leikur á reiðiskjálfi meðan kvittað er. Þá er víða boðið upp á að skrifa undir á sjálfu afgreiðsluborðinu sem gerir að verkum að ég verð að beygja mig og hneigja fyrir afgreiðslufólkinu um leið og skrifað er. Er ég þó ekki nema 1,75 metrar á hæð.

Sumir hafa festan penna hægra megin við kvittunarstaðinn til að forðast að viðskiptavinurinn taki pennann með sér þegar farið er úr búðinni. Ekki er sú leiðin betri hvað mig snertir, að þurfa að teygja á pennafestingunni eins og hægt er svo hægt sé að skrifa undir með réttri hendi, þ.e. þeirri vinstri.

Einn er sá afgreiðslustaður sem býður upp á betri möguleika en aðrir og leysir skemmtilega úr vandamálum okkar örvhentra. Áfengisverslunin Heiðrún sem staðsett er í Hálsaskógi hér í Árbæ, er að sjálfsögðu með penna báðum megin og þjónar þannig bæði okkur vinstrafólkinu sem er trútt skoðunum sínum út í fingurgóma og hægrisinnum.

Ætli það sé vegna þessarar þjónustu, en ekki vegna vöruúrvalsins sem mér þykir svo gott að versla þar?

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

29. nóvember 2007 - Andrea Ey

Útfararræðan hans séra Bjarna Karlssonar í dag var falleg og innileg.

Það var haustið 1974 sem farið var að gera togarann Vestmannaey út frá Vestmannaeyjum eftir að hafa verið gert út frá Hafnarfirði vegna Eyjagossins frá því skipið kom til landsins í febrúar 1973.

Það var þetta haust sem Eyjólfur Pétursson frændi minn og skipstjóri á Vestmannaey fór að slá sér upp með ungri einstæðri móður í Eyjum, Ingveldi Gísladóttur, kvæntist henni og gekk börnum hennar í föðurstað. Andrea var þá tveggja ára og ólst upp í Vestmannaeyjum. Sjálf hafði ég tækifæri til að fylgjast vel með fjölskyldunni fyrstu árin á meðan ég var á Vastmannaey og bjó í Eyjum.

Vegna fjarlægðar voru aldrei mikil samskipti okkar á milli eftir að ég flutti frá Eyjum, kom þangað sjaldan og fylgdist einungis með fjölskyldunni á Bröttugötunni þegar stórir atburðir áttu sér stað, fæðingar, afmæli og jarðarfarir.

Í dag var Andrea Ey borin til grafar, einungis 35 ára gömul. Hún hafði átt í baráttu við fíkniefnadjöfulinn í mörg ár, stundum sigrandi, stundum ekki. Hún sýndi okkur hinum að fíkniefnin og Bakkus geta komið við allsstaðar, ekki síður hjá velefnuðu og kærleiksríku heimili eins og í þessu tilfelli þar sem foreldrarnir hafa ávallt farið vel með sitt.

Með þessum orðum vil ég votta Ingu, Eyfa og systkinum hinnar látnu, þá sérstaklega Eyjólfi Inga, syni hinnar látnu, samúðarkveðjur mínar.

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

28. nóvember 2007 - III - Gamall skipstjóri


Skipstjóri einn sem ég sigldi með um tíma á árum áður á litlu flutningaskipi, þykir með afbrigðum skapstór og alls ekki að allra skapi. Þrátt fyrir það er tiltölulega auðvelt að lynda við hann ef rétt er farið að honum frá upphafi. Þannig var samstarf okkar með hinum mestu ágætum á sínum tíma þótt öðrum mislíkaði skapferli hans. Þannig þoldu nokkrir pólskir skipsfélagar alls ekki karlinn.

Ég hefi stundum heyrt gamlar sögur af þeim gamla og skapköstum hans, bæði í vinnu og innan fjölskyldu hans. Ég hefi þó valið að taka ekki nema hæfilega mikið mark á þeim sögum, enda vafalaust ýktar að einhverju leyti.

Þessi ágæti skipstjóri varð sjötugur fyrir nokkrum árum og átti því að kominn á eftirlaun. Ég varð því hissa er ég heyrði fyrir nokkru að hann hefði tekið við skipstjórn á flutningaskipinu Axel sem áður hét Greenland Saga og hafði verið keypt til fyrirtækis á Akureyri frá Danmörku.

Ekki veit ég hvort gamli skipstjórinn hafi verið um borð þegar Axel strandaði, en ef svo var, er ljóst að hinn austur-evrópski (lettneski?) yfirvélstjóri skipsins er líka mikill skaphundur og stjórnar illa skapi sínu.

P.s. Í athugasemd frá Óla frænda á Moggabloggi kemur fram að títtnefndur skipstjóri var ekki um borð þegar skipið strandaði. Greinilegt samt að skapið hefur hlaupið í menn við erfiðar aðstæður.

28. nóvember 2007 - II - 158 farsímar!

Ég heyrði í fréttum Ríkisútvarpsins að í Lúxemburg væru 158 farsímaáskriftir á hverja 100 íbúa landsins. Það þykir mér mikið. Ef allir farsímar landsins væru í notkun í einu, þyrfti rúmlega helmingur landsmanna að tala í tvo síma samtímis.

Í gegnum hugann fer minning um mann. Þetta var snyrtilegur ítalskur maður á milli þrítugs og fertugs sem virtist þykja ákaflega vænt um hana mömmu sína og hann átti tvo farsíma, notaði einn síma til að tala við mömmu sína og annan til að tala við félagana eða Drottinn allsherjar. Ég sá hann fyrst á flugvellinum í Stansted í Englandi þar sem hann var talandi á leið til Tórínó eins og reyndar og fleiri samanber frásögn frá þeim tíma:

http://velstyran.blogspot.com/2006/11/18-nvember-2006-tali-me-tvo-farsma.html

Þar sem ég set þessa frásögn á skjá, heyri ég í Bryndísi Odds (Britney Spears) syngja með sinni hugljúfu rödd frammi í eldhúsi. Ég þarf ekkert að vera í vafa um hvaða sími er að hringja. Hinn síminn syngur með rödd Freddý heitins Mercury.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item179154/

28. nóvember 2007 - Varað við hálku!

Það var fagurt útsýnið til norðurs þar sem ég bjó áður á sjöttu hæð í blokk í Hólahverfinu, enda var hægt að sitja úti í glugga löngum stundum og njóta útsýnisins og Esjunnar sem og mannlífsins niðri á bílastæðunum og gangstígunum meðfram húsinu.

Einhverju sinni, þegar blotnað hafði eftir kuldatíð og svellalög á jörðu, sat ég úti í glugga og virti fyrir mér það sem við augu bar utandyra og veitti þá athygli manni einum á gangstígnum fyrir neðan og virtist hann nokkuð við aldur ef marka mátti göngulagið. Hann gekk eins og Stekkjastaur og ríghélt sér í allt sem hönd á festi á leið sinni meðfram húsinu. “Æ, hvað er að sjá vesalings gamla manninn, af hverju fær hann sér ekki göngugrind í stað þess að staulast svona áfram?”, hugsaði ég þar sem ég fylgdist með manninum sex hæðum neðar.

Nokkru síðar þennan sama dag mundi ég eftir því að ég átti erindi út í búð að kaupa salt í grautinn eða eitthvað með kaffinu. Ég fór niður og út áleiðis í búðina. Ég hafði ekki komist nema fimm eða sex metra frá húsinu þegar fæturnir á mér fengu skyndilega þá hugdettu að gá til himins. Það sem eftir var ferðar minnar út í búð sem og á ferð mín heim aftur, gekk ég nákæmlega eins og “gamli” maðurinn sem hafði ríghaldið sér í allt sem hönd á festi á leið sinni út í búð.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

27. nóvember 2007 - Hross gera gagn!

Þessi fyrirsögn kemur Íslendingum að sjálfsögðu lítið á óvart, en notagildi íslenska hestsins er æ meir að sanna sig í útlöndum, ekki síst í Svíþjóð þar sem íslenskir hestar hafa verið notaðir í ein fimmtán ár til skemmtana og æfinga fyrir börn með skerta hreyfigetu og börn með einhverfu og ADHD.

Á dögunum var ágæt grein í Dagens nyheter um ágæti íslenskra hesta á hestabúgarði á Drottningholm nærri Stokkhólmi, þ.e. ekki langt frá heimili Kalla kóngs. Í greininni eru gæði hestsins dásömuð til þroska fyrir þessi börn og þá ekki síst þau tengsl sem myndast oft á milli barnanna og hestsins.

Ekki ætla ég að apa allt upp sem stendur í greininni, enda áhugi minn á hestum ákaflega takmarkaður, hvort heldur þeir eru notaðir til reiðar eða saltaðir úr tunnu.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=1298&a=719223

mánudagur, nóvember 26, 2007

26. nóvember 2007 - Heimsmeistarakeppni!?


Um helgina fór fram heimsmeistarakeppni í mjög svo óvenjulegri íþrótt, svo óvenjulegri að sagt er að einungis sé hægt að halda hana í þremur ríkjum heimsins, Svíþjóð, Þýskalandi og Skotlandi. Í keppni þessari er keppt í hvert er besta maltwhiský í heiminum.

Áður en kom að lokakeppninni höfðu undankeppnir farið fram víða meðal áugafólks um whiskýdrykkju og þykir mér það skrýtið að mér hafi ekki verið boðið að taka þátt og smakka á gæðunum. Sigurverandi keppninnar varð skoska maltwhiskýið Lagavulin, en aukaverðlaun fengu Mortlach og japanski eðaldrykkurinn Miyagikoyo.

Þetta ágæta maltwhiský er bruggað skammt austan Port Ellen á eynni Islay sem tilheyrir Innri-Hebrideseyjum við vesturströnd Skotlands. Það fer að koma tími til að skreppa í heimsókn til þessarar ágætu eyju. Þá mætti gjarnan einnig koma við í Mortlach bruggverksmiðjunni í Dufftown í Banffshire, en í þeim bæ eru framleidd nokkur þekkt vörumerki á sviði eðaldrykkja, þar á meðal Glenfiddich. Hin fræga whiskýhátið sem haldin var árlega í Dufftown er nú haldin tvisvar á ári vegna mikillar aðsóknar, í maí og september.

Hver vill koma með í pílagrímsferð til whiskýhéraða Skotlands á eiginn kostnað? Það má auðvitað koma við á Orkneyjum í leiðinni en mig grunar að sumir ónefndir lesendur síðunnar eigi sér uppáhaldsdrykk sem framleiddur er á Orkneyjum.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=147&a=718825
http://www.thewhiskyexchange.com/B-40-Lagavulin.aspx
http://www.whisky-distilleries.info/Mortlach2_EN.shtml

laugardagur, nóvember 24, 2007

24. nóvember 2007 - Oft ratast kjöftugum satt orð á munn!

Ég verð seint talin vera í vináttu við Össur Skarphéðinsson þótt bæði séum við flokksbundin í Samfylkingunni og þrátt fyrir ágætis kunningsskap við Magnús bróður hans. Í þetta sinn erum við þó sammála, ég og Össur, að upphlaup ungliðadeildar Sjálfstæðisflokksins með hjálp vinstrigrænna og annarra hafi skaðað Orkuveitu Reykjavíkur og útrásarstefnu hennar verulega.

Það má vissulega gagnrýna ýmislegt í sameiningarferli REI og GGE, en um leið var um að ræða stórkostlegt útrásartækifæri, þar sem Orkuveitan lagði til fjármagn og þekkingu á móti fjármagni frá einkageiranum, öllum hlutaðeigandi til hagsbóta í framtíðinni undir öruggri stjórn Bjarna Ármannssonar. Með hinu fáránlegu upphlaupi og þá fyrst og fremst því er stuttbuxnaliðið klagaði gamla góða Villa fyrir Geir Haarde, tókst að klúðra þessu frábæra viðskipta- og útrásartækifæri sem jafnframt hefði getað orðið mjög hagkvæmt fyrir jörð hinna þverrandi orkuauðlinda.

Í dag er Villi fallinn og nýr meirihluti tekinn við völdum í ráðhúsinu. Þótt ég fagni óvæntri upphefð Dags B. Eggertssonar, er ljóst að það mun taka langan tíma að bæta skaðann sem orðinn er og það verður erfitt að bera klæði á vopnin eftir það sem á undan er gengið.

Í ljósi þessa fagna ég orðum Össurar Skarphéðinssonar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1304972

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

21. nóvember 2007 - Leti


Nenni ekki að blogga núna því ég er að farast úr leti. Kannski dettur mér eitthvað til hugar annað kvöld :)

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

20. nóvember 2007 - Íslensk tunga


Það er ekki oft sem ég og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir erum sammála, en það skeði samt á föstudaginn var, á degi íslenskrar tungu. Ég held bara að við höfum ekki verið sammála um eitt né neitt síðan hén réði Pál Magnússon í embætti útvarpsstjóra. Og þó,við erum líka sammála um ráðningu Guðrúnar Ögmundsdóttur sem verkefnastjóra hjá menntamálaráðuneytinu.

Ég er löngu búin að fá upp í kok af öllum þessum ensku heitum á fyrirtækjum og verslunum í Reykjavík. Ég viðurkenni að vísu vilja erlendra eigenda verslunarkeðja að þeir vilji halda nöfnum sínum á verslunum sínum hvar sem þær eru niðurkomnar, samanber Kentökký fræd tsikken og Tojs er Öss, en mér finnst algjör óþarfi að gera slíkt hið sama með íslensk fyrirtæki eins og Eivíón grúpp og Æsland Express.

Hugsið ykkur ruglið. Hér á landi hafa verið starfrækt gæðafyrirtæki á borð við Barnasmiðjuna með eigin framleiðslu undir vörumerkinu Krummagull og svo hreinræktaðar verslanakeðjur eins og Leikbær. Til hvers á ég þá að fara í verslanir á borð við Tojs err öss, skrifað Toys´r Us, með vafasama starfsmannastefnu eins og átti sér stað þegar þessar verslanir opnuðu með pomp og prakt í Svíþjóð?

Ég verð að hugsa mig tvisvar um áður en ég legg slíkt á mig.

Kannski er ég ekki eins vandlát þegar kemur að því að kaupa föt utan á mig. Þó ber ein af uppáhaldsverslunum mínum nafn stofnanda síns, undurfallegt íslenskt nafn,
en samtímis get ég ekki hunsað Lilju vinkonu mína Hauksdóttur í Cosmó, en hún og starfsfólk hennar hafa sýnt mér alúð og velvilja frá því ég flutti aftur til íslands fyrir ellefu árum. Sömu sögu er að segja af Katrínu í Veftu, fataversluninni í Hólagarði. Ég veit hinsvegar ekki hvaðan nöfn verslana þeirra eru komin.

Ég á enga hljómdiska með íslenskum listamönnum sem flytja tónlist sína á ensku. Þó á ég diska með erlendum hljómsveitum sem flytja tónlistina á ensku og þýsku og sænsku; og ég á marga diska með íslenskum listamönnum sem flytja tónlist á íslensku.

Þrátt fyrir hughreystingarhjal ýmissa íslenskufræðinga á föstudag þess efnis að íslensk tunga sé ekki í neinni hættu, er ég með áhyggjur af íslenskri tungu, móðurmáli mínu og áa minna langt aftur í ættir.

Kannski getum við Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir haldið áfram að vera ósammála um þá styrki sem þarf að veita til að efla íslenskufræðslu til handa nýjum Íslendingum, en þar vil ég að sjálfsögðu ýta undir íslenskukennsluna með ókeypis fræðslu til handa því ágæta fólki sem vill setjast hér að til frambúðar, ekki síst í ljósi þess að mikill fjöldi þess hefur aldrei notið neinnar þjónustu hins opinbera, öfugt við langflesta Íslendinga.


Fæ mér einn danskan öl í glasi merktu Hviids vinstue í minningu ástmögurs þjóðarinnar sem hefði átt 200 ára afmæli síðastliðinn föstudag.

mánudagur, nóvember 19, 2007

19. nóvember 2007 - Stoltur níræður bíleigandi


Fyrir nokkrum árum mátti lesa frétt þess efnis að lögreglan í Borgarnesi hefði stöðvað 91 árs gamlan mann og mun sá vera elstur allra sem teknir hafa verið fyrir of hraðan akstur í umdæmi Borgarneslögreglunnar. Einhver hvíslaði því að mér hver hefði verið þar á ferð og veit ég að sá hinn sami hefur ekið bíl alla tíð frá því hann tók bílpróf á þriðja eða fjórða áratug tuttugustu aldar og ekur hann enn daglega og dettur engum til hugar að um sé að ræða mann sem nú er kominn hátt á tíræðisaldur.

Á forsíðu sunnudagsblaðs Fréttablaðsins er sagt frá níræðum manni á Hvolsvelli sem var að eignast sinn fyrsta bíl á ævinni, manni sem einungis tvisvar hefur ekið bíl eftir að hann fékk bílprófið í maí 1941. Sjálfsagt er að óska gamla manninum til hamingju með bílakaupin og geri ég það hér með. Um leið er vafamál hvort óska eigi öðrum vegfarendum til hamingju með þessi bílakaup.

Það er mikill munur á þessum tveimur köppum þótt báðir séu vafalaust hinir hressustu andlega og líkamlega, þrátt fyrir háan aldur. Annar hefur keyrt daglega, hinn nánast aldrei. Annar er vanur hinni miklu streytu sem oft fylgir umferðinni nú á dögum, hinn er streytuvaldurinn. Hinn síðarnefndi mun aldrei ná þeirri færni sem þarf til að vera úti í umferðinni. Það er einfaldlega of seint fyrir hann þar sem hann vantar alla æfingu sem og snerpu yngri áranna. Þá er vafamál hvort hann megi aka bíl, en ef mig misminnir ekki, voru í eina tíð til reglur þess efnis að banna mætti fólki akstur ef of langt væri síðan síðast var ekið (vafamál hvort slík regla standist stjórnarskrá).

Þá má ætla að sá sem hefur komist af án þess að aka bíl í 90 ár geti komist af án þess það sem eftir er ævinnar, en til vara að ökumanninum sé gert það skylt að aka ekki út fyrir hérað. Slíks munu vera fordæmi hjá ágætri eldri konu austur á fjörðum sem tók bílpróf í Reykjavík. Hún gat ómögulega lært að aka í hringtorgi og að lokum gerðu hún og prófdómarinn með sér heiðursmannasamkomulag þess efnis að hún fengi prófið, en keyrði ekki út fyrir Austfirði þar sem engin voru hringtorgin á þeim tíma.

http://vefblod.visir.is/index.php?netpaper=496

sunnudagur, nóvember 18, 2007

18. nóvember 2007 - Sátt eða uppgjöf?

Svandís Svavarsdóttir telur að fullnaðarsigur muni nást í máli sínu gegn Orkuveitunni ef fyrirtækið viðurkennir að ólöglega hafi verið boðað til stjórnar- og eigendafundarins 3. október síðastliðinn að sögn Ríkisútvarpsins.

Alveg rétt hjá Svandísi. Ef Orkuveitan gefst upp hefur Svandís unnið fullnaðarsigur. Þessi málalok geta samt ekki kallast sátt, heldur væri þá um að ræða hreina uppgjöf.

Af hverju fæ ég á tilfinninguna að Svandís sé að hæðast að nýrri stjórn Orkuveitunnar með þessum ummælum sínum?

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item177713/

laugardagur, nóvember 17, 2007

17. nóvember 2007 – Óskabarn þjóðarinnar




Í fórum mínum á ég gamla bók sem Sigurlaugur Þorkelsson (faðir Þorkels Sigurlaugsonar) og starfsmaður Eimskipafélags Íslands til margra áratuga gaf mér á sínum tíma og er hún enn í uppáhaldi hjá mér. Bókin heitir Eimskipafélag Íslands tuttugu og fimm ára og var afmælisrit félagsins árið 1939.

Þegar ég var í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð var bókin meginheimild mín í sögu um upphaf siglinga við Ísland með gufuskipum 1855-1914. Ritgerðin er löngu glötuð og hið einasta sem stendur af henni er minning um ágæta ritgerð sem gaf mér góða einkunn.

Við lestur bókarinnar komst ég ekki hjá því að hrífast með stórhug og baráttu þess fjölda fólks sem sló saman aurunum uns margar urðu krónurnar í þjóðarátaki til stofnunar félags sem tryggja átti íslenskri þjóð flutninga til og frá landinu með íslenskum skipum og íslenskum áhöfnum.

Það urðu mörg áföllin á langri vegferð en einnig margir sigrarnir. Árið 1930 voru skipin orðin sex, öll með íslenskum áhöfnum og hélst sá skipastóll uns kom til heimsstyrjaldar sem varð til fækkunar skipa og áhafna í stríðslok og fyrstu árin eftir stríð. Eftir það hófst mikil endurnýjun og uppbygging skipastólsins.

Þegar ég hóf fyrst störf hjá félaginu í ársbyrjun 1971 átti það þrettán skip og hið fjórtánda í smíðum, öll með íslenskum áhöfnum. Þegar Mánafoss kom til landsins um vorið var sérstaklega tekið fram í frétt af komu skipsins að nú væru 402 skipverjar á skipum félagsins. Skipafjöldinn komst sem mest upp í 23 skip undir íslenskum fána og 26 skip alls. Í dag eru fjögur skip félagsins með íslenskum áhöfnum, ekkert undir íslenskum fána.

Í dag dettur engum til hugar að tala um Óskabarn þjóðarinnar þegar minnst er á Eimskip. Því miður, því mér þykir enn vænt um félagið.

-----oOo-----

Meðal athugasemda sem hafa borist mér við fyrri færslu var ein sem benti á spillingu stjórnmálamanna og hugsanlega bitlinga þeim til handa frá þeim ríku. Ef frá er talinn sá augljósi bitlingur sem nefndur var í fyrri færslu þegar ráðherrann tók við nýju skipi Samskipa fyrir hönd Færeyinga, ætla ég ekki að hætta mér út í vangaveltur um þá hluti.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

16. nóvember 2007 - Blekkingar starfsmannastjórans


“Hefurðu séð blöðin í gær?” spurði vinkona mín stórhneyksluð á svip.
“Það er verið að skipta íslensku hásetunum út á skipum Samskipa fyrir rússneska háseta á sultarlaunum.”

Það var eðlilegt að konan væri hneyksluð, gift sjómanni og hefur löngum borið hag sjómannastéttarinnar sér fyrir brjósti. Ég vildi fá að vita í hvaða blaði þetta hefði birst, en þá var hún ekki viss, hafði þetta eftir annarri hneykslaðri sjómannskonu, en hélt að það væri í DV. Ég hringdi í Erlu frænku á DV sem staðfesti við mig fréttina og í framhaldinu náði ég mér eintak af DV.

Þar var viðtal við Einar Inga Einarsson sem sér um ráðningar skipverja á skip Samskipa. Í viðtalinu hélt hann því fram fullum fetum að til að fá réttindi til að sigla sem háseti þurfi sex mánaða starfsþjálfun á sjó og námskeið í Fjöltækniskólanum og það væri ekkert fólk að fá sem hefði þessi réttindi. Hvað er maðurinn að rugla? hugsaði ég. Einustu skilyrðin eru þau að hafa farið á hin bráðnauðsynlegu námskeið hjá Slysavarnarskóla sjómanna.

Svo áttaði ég mig á klókindunum. Skipin eru skráð í Færeyjum og þar sem í Danmörku mun vera krafa um að hásetar á farskipum sigli fyrst sem viðvaningar í sex mánuði. Hvernig á að vera hægt að ná þessum réttindum á Ísland? Það er ekki hægt. Það eru engir viðvaningar til lengur á skipum íslenskra útgerða. Það er búið að útrýma þeim rétt eins og loftskeytamönnum og eins og verið er að útrýma öðrum farmönnum! Þeir verða einfaldlega að ráða fullgilda háseta á skipin á mannsæmandi launum í stað þess að einblína á viðvaninga. Þeir hafa bara ekki áhuga fyrir slíku.

Í stað Íslendinganna sem eru látnir hætta, eru ráðnir Rússar og Lettar eða þá Króatar og þurfa þeir að skila 270 tíma vinnu á mánuði um borð fyrir 1500 $. (90.000 krónur á mánuði) Fyrir næstu 100 tíma í yfirvinnu fá þeir 500 $ að auki. Ég ætla að taka fram að þessar upphæðir eru óstaðfestar, en þetta eru þær tölur sem ég hefi heyrt af launum nýju hásetanna á Arnarfelli og sel það ekki dýrara en ég keypti það.


Hvað skyldu svo íslensk stjórnvöld gera? Svarið er einfalt. Ekki neitt! Þrír síðustu samgönguráðherrar hafa stuðlað að útrýmingu íslenskrar farmannastéttar, allir þrír, Halldór Blöndal, Sturla Böðvarsson og nú síðast Kristján L. Möller. Sturla Böðvarsson tók að auki þátt í skrípaleiknum er hann tók við Arnarfellinu fyrir hönd færeysku þjóðarinnar sem samgönguráðherra Íslands. Hann var verðlaunaður fyrir tiltækið með forsetaembætti á hinu háa Alþingi.

Sum skipa íslensku skipafélaganna eru sögð sigla undir sjóræningjafánum. Fremstur sjóræningjanna er þá væntanlega sá sem fékk Elton John til að syngja í fimmtugsafmælinu sínu. Með enn frekara þrælahaldi á skipum sínum ætti hann að geta endurvakið Elvis frá dauðum til að syngja í sextugsafmælinu sínu.

Sjá og:

http://jp.blog.is/blog/jp/entry/365609/

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

14. nóvember 2007 - Mamma hennar Línu ...


... langsokks er 100 ára í dag. Kannski ekki mamma hennar beint, heldur konan sem skóp sögupersónuna Línu langsokk og fjölda annara skemmtilegra persóna sem börn hafa hrifist með og dáðst að, börn á borð við Ronju ræningjadóttur, Emil í Kattholti og leynilögreglumanninn Karl Blómkvist auk fjölda annarra skemmtilegra persóna.

Það var 14. nóvember 1907 (tveimur dögum fyrir 100 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar) sem bændahjónunum Samuel August Ericsson og Hanne Ericsson fædd Jonsson í bænum Näs nærri Vimmerby í Småland fæddist dóttirin Astrid Anna Emilia Ericsson. Hún ólst upp á kærleiksríku heimili foreldra sinna í hópi eldri bróður og tveggja yngri systra. Árið 1924 hóf hún störf á Wimmerby tidning sem prófarkalesari, en árið 1926 verður hún ólétt af syninum Lars með ritstjóranum á blaðinu, vildi ekki hefja búskap með honum og flutti til Stokkhólms þar sem hún lærði vélritun og hraðritun.

Árið 1929 hóf hún störf hjá Kongliga Automobil Klubben, þar sem hún kynntist skrifstofustjóranum Sture Lindgren og giftist honum 1931. Hún eignaðist annað barn sitt, Karin, 1934.

Árið 1941 lá Karin heima með lungnabólgu og Astrid Lindgren hóf að segja henni sögurnar um Línu langsokk. Þremur árum síðar sendi hún handrit að sögunni um Línu til bókaútgáfunnar Bonnier sem höfnuðu henni. Hún lagfærði þá texta handritsins og sendi hana inn í samkeppni um barnabók hjá útgáfunni Rabén og Sjögren þar sem bókin hlaut fyrstu verðlaun. Áður hefði sama forlag gefið út bókina “Britt-Mari lättar på sitt hjärta”, en með Línu langsokk kom stóri sigurinn.


Frá 1947 til 1970 vann Astrid Lindgren í hlutastarfi hjá Rabén & Sjögren sem ritstjóri barnabókadeildarinnar. Árið 1976 lenti hún óvart inni í pólitískum deilum er hún sem jafnaðarmanneskja sagði frá því í grein í Expressen í miðri kosningabaráttunni að hún hefði verið látin greiða 102% af tekjum sínum í skatta. Þessi orð hennar eru af mörgum talin hafa orðið til að ríkisstjórn Olofs Palme féll í þingkosningunum þá um haustið og ríkisstjórn Torbjörns Fälldin tók við.

Bækur Astrid Lindgren hafa nú verið seldar í 145 milljónum eintaka og þýddar á minnst 88 tungumál.

Astrid Lindgren lést 28. janúar 2002 á heimili sínu í Stokkhólmi þar sem hún hafði búið síðan 1926.

Þótt hún sé einn dáðasti barnabókahöfundur sem uppi hefur verið fékk hún aldrei Nóbelinn, ekki fremur en minni spámenn á borð við Gunnar Gunnarsson og Davíð Stefánsson. Hún fékk hinsvegar fjölda annarra viðurkenninga bæði heima og erlendis en sennilega má halda því fram að þær viðurkenningar sem henni þótti vænst um, hafi verið hrifning barna á sögupersónum hennar.

Einhverju sinni minnist ég sjónvarpsviðtals við Astrid Lindgren og spyrillinn spurði beint: Hvar er Emil í Kattholti? (sögurnar um Emil eru unnar úr reynslusögum föður hennar frá æskuárunum á seinnihluta nítjándu aldar)
Þá hló Astrid Lindgren og svaraði:
Hann Emil är kommunalråd i Mariannelund. (í bæjarráði í bænum Mariannelund, skammt frá Vimmerby).

Stytt og endursagt úr:
http://sv.wikipedia.org/wiki/Astrid_Lindgren
http://www.astridlindgren.se/index_1024.htm

13. nóvember 2007 - Um lesbíska leigubílstjóra

Það er stundum erfitt að finna sér eitthvað til að skrifa um þegar þreytan eftir næturvaktina situr í öllum líkamanum. Þegar að við bætast tveir fundir um eftirmiðdaginn og kvöldið verður enn minna um gáfulegar skriftir.

Þar sem ég kom á fundarstað sá ég gamalt eintak af DV þar sem skrifað var um dóm yfir manni sem ráðist hafði á leigubílstjóra sem samkvæmt fyrirsögninni er lesbísk og hefur talsvert verið rætt um þennan dóm á blogginu. Umræddur leigubílstjóri er ágætis vinkona mín, en ég skil ekki hvað kynhneigð hennar komi fréttinni við. En úr því ástæða er til að taka fram að fórnarlambið er samkynhneigt, gefur þá ekki auga leið að árásarmaðurinn hljóti að vera gagnkynhneigður úr því ekki var getið um kynhneigð hans?

Þetta minnir svo aftur á viðtal sem ég heyrði eitt sinn í útvarpsþætti á útvarpsstöð sem nú er aflögð. Stjórnandi þáttarins, Guðríður Haraldsdóttir, ræddi við nokkra stráka í hljómsveit og spurði allt í einu eins og upp úr þurru:
“Er það satt að þið séuð allir gagnkynhneigðir?”
Það kom mikið hik og löng þögn áður en þeir viðurkenndu gagnkynhneigð sína.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

11. nóvember 2007 - II - Minningardagur fallinna hermanna


Á borðinu fyrir framan mig er gömul bók sem tengist hermönnum, Minningarrit íslenzkra hermanna sem gefið var út í Winnipeg árið 1923. Í henni eru myndir og stutt æviágrip Íslendinga fæddra á Íslandi eða börn foreldra sem fæddust á Íslandi sem skráðu sig til herþjónustu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Í dag eru liðin 89 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar og hefur þessi dagur verið lýstur Remembrance day í Bretlandi og breska samveldinu sem og víða um heim, en til aðgreiningar frá hinum bandaríska Memorial day í maí hefur hann hlotið heitið Veterans day þar í landi, en Armistice day í einhverjum ríkjum Vestur-Evrópu.

Rúmlega 1300 Íslendingar eða fólk af íslensku bergi tók þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Af þessum hópi féllu um 143, flestir í beinum átökum, en nokkrir af óbeinum afleiðingum styrjaldarinnar. Auk þeirra féllu um 30 Kanadamenn af íslenskum heimilum, flestir kvæntir íslenskum konum.

Ekki treysti ég mér til að telja upp mannfall Íslendinga í seinni heimsstyrjöld eða öðrum styrjöldum síðar, en einhverjir íslenskir hermenn eru taldir upp í bókinni Veterans of Icelandic Descent World War II sem og einhverjir sem féllu í Vietnam. Mig grunar reyndar að sú skrá sé ekki tæmandi. Þar er til dæmis ekki getið eins leikfélaga míns sem fór til bandarísks föður síns um 1960 og sögur segja að hafi fallið í Vietnam. Hans er ekki getið í bókinni og ekki hefi ég skoðað minningarmúrinn í Washington DC til að kanna hvort hann sé þar að finna.

Það er full ástæða til að minnast þessa fólks sem voru fórnarlömb hatrammra styrjalda.

11. nóvember 2007 - Sælubros?

Á föstudagskvöldið tók ég þátt í vinnustaðateiti í vinnunni minni, en hugðist halda þaðan niður í bæ, tók upp símann og hringdi heim til vinkonu minnar til að athuga hvort hún vildi skreppa með.

Það var svarað hinum megin og ég heyrði strax að þetta var ekki vinkonan svo ég sagði strax: “Sæl. Er mamma þín heima?”

Það kom smáþögn í símann hinum megin en svo var mér sagt að vinkonan hefði skroppið til útlanda og þetta væri móðir hennar. Ég er viss um að móðirin sem komin er á áttræðisaldur sé enn með sælusvip eftir að hafa verið ruglað saman við 18 ára barnabarn sitt.

laugardagur, nóvember 10, 2007

10. nóvember 2007 - Jóhanna Sigurðardóttir


ÆÆÆ. Ekki hún Jóhanna mín.

Í byrjun júlímánaðar síðastliðins og í kjölfar gagnrýni Seðlabankans, ákvað Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra að lækka lánahlutfall til íbúðarkaupa úr 90% í 80%. Ég mótmælti þessari lækkun á bloggsíðu minni, en svo virðist sem enginn hafi tekið mark á þessari athugasemd minni. Um daginn hækkaði einhver einkabankinn vextina og nýir íbúðakaupendur sátu eftir með sárt ennið.

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/254578/

Í gær sá Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ástæðu til þess að mótmæla vaxtahækkun þessa ónefnda einkabanka á íbúðalánavöxtum. Af hverju? Þeir eru að fylgja fordæmi Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra er hún ákvað að lækka lánahlutfallið úr 90% í 80%, gerðu reyndar enn betur og hækkuðu vextina upp úr öllu valdi.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ætti frekar að velta fyrir sér atlögu sinni að íbúðakaupendum, en að kenna öðrum um neikvæðni í íbúðarkaupum sem hún átti frumkævðið að.

föstudagur, nóvember 09, 2007

9. nóvember 2007 - Ekki gleyma lýsinu!!!


Á mínum yngri árum voru óþekkir krakkar skilgreindir sem villingar og þaðan af verra. Sumir voru í sífelldum útistöðum við umhverfi sitt og einhverjir leikfélaganna voru sendir í sveit vegna þess hve illa þeim gekk að aðlagast umhverfi sínu. Nú eru til nöfn á vandamálunum og meðal þeirra er ADHD (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) sem ég kann ekki að skilgreina frekar en mun eiga við börn með athyglisbrest með eða án ofvirkni.

Á dögunum birtist ákaflega áhugaverð grein í Dagens nyheter um árangur af notkun lýsis fyrir börn með ADHD eða athyglisbrest og ofvirkni. Samkvæmt sænskri rannsókn sem birt var á ráðstefnu í Bandaríkjunum í gær, reyndist lýsið bæta líðan 35% barna með vægari tegund ADHD á meðan aðrar aðferðir reyndust miklu mun léttvægari.

Ekki er tekið fram hvort um sé að ræða ufsalýsi, þorskalýsi eða þá hákarlalýsi, en allt er það bráðhollt þótt enginn sé athyglisbresturinn.

Ekki ætla ég að hætta mér út í ítarlegri umræður um ADHD, enda hefi ég ekki mikið vit á vandamálinu, en þó er gamla reglan enn í fullu gildi að lýsið er allra meina bót!

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?a=713435

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

8. nóvember 2007 - Fjarstýringin að vinstrigræna eðalvagninum mínum


Ég skrapp bæjarleið í gær. Slíkt þykir venjulega ekki til frásagnar nema að þegar ég kom út úr búð og dró bíllyklana upp úr vasanum, varð fjarstýringin að bílnum eftir í vasanum.

Ég hafði veitt því eftirtekt fyrir nokkru síðan að komin var sprunga í gúmmíið sem heldur fjarstýringunni við lyklakippuna og nú þegar gúmmíið var endanlega farið, var ljóst að ekki myndi líða á löngu uns fjarstýringin færi sömu leiðina nema ég gripi til viðeigandi ráðstafana.

Minnug þess að fjarstýringin var ættuð úr Bílanausti, skrapp ég þangað sem ég hélt að Bílanaust væri, en þar var þá ekkert Bílanaust lengur, heldur var verslun Neins komin þar í staðinn. Er inn var komið virtist allt með svipuðum ummerkjum og síðast er ég kom þangað inn, það er þegar Bílanaust var nýflutt á Höfðann úr Borgartúni. Þar inni var mér svo vísað á þjónustuverkstæði Neins við Funahöfða þar sem starfsmenn voru eldsnöggir að bjarga fjarstýringunni minni frá eilífri glötun fyrir örfáar krónur.

Og ég sem hélt að Neinn væri bensínstöð eða fjölmiðlafyrirtæki á Akureyri, eða er það verslun með bókhaldsvörur?

Af hverju finna þeir ekki betra nafn á þetta fyrirtæki? Til dæmis má kalla bensínstöðvarnar Bílanaust sem ætti ágætlega við rétt eins og við gömlu góðu bílabúðina.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

6. nóvember 2007 - Laun stjórnenda OR .....

....þola ekki dagsljós, segir dagblaðið 24 stundir eða hvað það heitir nú á þessum síðustu og verstu tímum. Skrýtið! Hvar hafa blaðamenn blaðsins haldið sig síðustu mánuðina?

Fyrir einungis þremur mánuðum síðan birtu tvö tímarit tekjublöð þar sem fram komu laun ýmissa einstaklinga þar á meðal margra stjórnenda Orkuveitunnar, en auk þeirra nokkurra minni spámanna og kvenna eins og mín, Stefáns Pálssonar og Helga Péturssonar. Hefði ekki verið nær að endurbirta þessar tölur í stað þess að umlykja launin einhverri dulúð og vandlætingu?

Allavega bera þær launatöflur ekki með sér að neitt þurfi að fela og alls ekki ef ábyrgðin og vinnan á bak við launin eru tekin inn í dæmið!

sunnudagur, nóvember 04, 2007

5. nóvember 2007 - Grimmileg örlög Lajku


Síðastliðið sumar loguðu bloggheimar af heift yfir ætluðum örlögum hundsins Lúkasar á Akureyri. Öllu grimmilegri urðu þó örlög hinnar rússnesku Lajku fyrir fimmtíu árum síðan.

Lajka (víða skrifuð Laika) er sennilega frægasta tík sem uppi hefur verið í raunheimum. Hún var fyrsti geimfarinn og jafnframt var hún fyrsta lífsveran af jörðinni sem lét lífið úti í geimnum. Lengi voru uppi frásagnir þess efnis að hún hefði lifað í marga daga úti í geimnum og jafnvel átt afturkvæmt sem var ómögulegt. Í reynd dó hún einungis nokkrum klukkustundum eftir að henni hafði verið skotið út í geiminn. Mikill hiti og stress dýrsins urðu sennilega til þess að hún dó einungis fimm til sjö tímum eftir geimskotið um borð í geimfarinu Spútnik 2.

Á laugardag voru liðin 50 ár frá þessum tímamótum í mannkynssögunni er fyrstu lífverunni var skotið út í geiminn. Um leið er ástæða til að minnast allra þeirra dýra sem hafa orðið fórnarlömb grimmdareðlis mannsins, þótt vissulega hafi ferð Lajku stuðlað að mikilli framþróun manneskjunnar í geimvísindum.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=712124

laugardagur, nóvember 03, 2007

3. nóvember 2007 - Barði og trumbuslagararnir


Ef mikið er af auglýsingatímum í miðjum sjónvarpsþáttum er ég venjulega búin að fá nóg og farin að snúa mér að öðrum áhugamálum í öðrum auglýsingatíma. Þetta á jafnt við um Formúluna sem Laugardagslögin. Ég vandi mig því á að byrja ekki að horfa á útsendingu frá keppnum í Formúlunni fyrr en eftir annað auglýsingahlé og bílarnir komnir af stað í upphitunarhringinn. Þá hefur þátturinn Laugardagslögin verið svo hræðilega litlaus að ég hefi ekki nennt að horfa á hann til enda.

Nú brá öðruvísi við. Ég sá byrjunina og þegar kom að öðru auglýsingahléi var ég farin að snúa mér að skemmtilegri þáttum tilverunnar að venju. Skyndilega heyrði ég þetta frábæra tölvupopp og trumbuslátt innan úr stofu rétt eins og Kraftwerk væru komnir á sviðið. Ég fór að hlusta og horfa.

Útsetning og sviðssetning á lagi Barða Jóhannssonar reyndist vera tær snilld og það kom mér ekkert á óvart að það skyldi komast áfram í lokakeppnina. Hið einasta sem ég sá athugavert við flutninginn var að hljómborðsleikarinn skyldi ekki líka vera ber að ofan eins og trumbuslagararnir og karlsöngvarinn sem ég veit ekki nöfnin á.

Ef Barði kemst ekki áfram alla leið í lokakeppni Júróvisjón í vor með þessu taktfasta lagi verð ég illa svikin. Verð ég þó seint talin mikill aðdáandi teknó og trumbusláttartónlistar.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4360041

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

2. nóvember 2007 - Hvor er betri Bush eða Neuman?


Eins og allir sjá sem vilja sjá, er sterkur svipur með þeim félögum George Dobbljú Bush og Alfred E. Neuman. Báðir eru þeir með sterkt svipmót af skapara sínum og frægir að endemum, Bush í embætti sínu sem forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, en Neuman sem tákngervingur fyrir bandaríska grínblaðið MAD.


Guðni Már vinur minn dró fram á síðu sinni ákveðna táknmynd fyrir þá félaga báða tvo. Þegar grannt er skoðað, er greinilegt að þeir eru ekki aðeins með sterkan svip, heldur svo líkir að það hlýtur að vera náinn skyldleiki þeirra á millum.

Sönnunin er hér til hliðar.

1. nóvember 2007 - Klúður í Borgarráði.

Fyrir nokkrum dögum átti ég leið um Laugardalinn og kom að sýningarpallinum með skiltunum sem sögðu sögu Þvottalauganna í Laugardal. Þegar að var komið reyndust upplýsingaskiltin vera horfin. Ég hafði samband við umsjónarmann Þvottalauganna og spurði hann hvort verið væri að endurskoða sögu Þvottalauganna. Hann hló, en neitaði því að verið væri að endurskoða söguna.

Á fimmtudagsmorguninn ákvað Borgarráð Reykjavíkur að endurskoða ákvarðanir OR og rífa upp ákvarðanir lögmætrar stjórnar fyrirtækisins.

Það kom mér ekkert á óvart að Svandís Svavarsdóttir skyldi bregðast við á þennan hátt, en að stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki sleppa pilsfaldi hennar er þeir klöguðu gamla góða Villa fyrir formanninum sínum kom mér verulega á óvart.

Ég hefi sjaldan verið sammála Hannesi Smárasyni, en nú er ég honum og Bjarna Ármannssyni hjartanlega sammála um vonbrigði þeirra. Það tjón sem ákvörðun Borgarráðs er að valda Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy verður erfitt að bæta til viðbótar því tjóni sem flumbruháttur Svandísar og stuttbuxnadeildarinnar hafa þegar valdið þessum aðilum.

Því meir sem ég kynnist íslenskri pólitík, því vænna þætti mér um hundinn minn ef ég ætti hund á annað borð.