Það er stundum erfitt að finna sér eitthvað til að skrifa um þegar þreytan eftir næturvaktina situr í öllum líkamanum. Þegar að við bætast tveir fundir um eftirmiðdaginn og kvöldið verður enn minna um gáfulegar skriftir.
Þar sem ég kom á fundarstað sá ég gamalt eintak af DV þar sem skrifað var um dóm yfir manni sem ráðist hafði á leigubílstjóra sem samkvæmt fyrirsögninni er lesbísk og hefur talsvert verið rætt um þennan dóm á blogginu. Umræddur leigubílstjóri er ágætis vinkona mín, en ég skil ekki hvað kynhneigð hennar komi fréttinni við. En úr því ástæða er til að taka fram að fórnarlambið er samkynhneigt, gefur þá ekki auga leið að árásarmaðurinn hljóti að vera gagnkynhneigður úr því ekki var getið um kynhneigð hans?
Þetta minnir svo aftur á viðtal sem ég heyrði eitt sinn í útvarpsþætti á útvarpsstöð sem nú er aflögð. Stjórnandi þáttarins, Guðríður Haraldsdóttir, ræddi við nokkra stráka í hljómsveit og spurði allt í einu eins og upp úr þurru:
“Er það satt að þið séuð allir gagnkynhneigðir?”
Það kom mikið hik og löng þögn áður en þeir viðurkenndu gagnkynhneigð sína.
þriðjudagur, nóvember 13, 2007
13. nóvember 2007 - Um lesbíska leigubílstjóra
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:38
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli