Skipstjóri einn sem ég sigldi með um tíma á árum áður á litlu flutningaskipi, þykir með afbrigðum skapstór og alls ekki að allra skapi. Þrátt fyrir það er tiltölulega auðvelt að lynda við hann ef rétt er farið að honum frá upphafi. Þannig var samstarf okkar með hinum mestu ágætum á sínum tíma þótt öðrum mislíkaði skapferli hans. Þannig þoldu nokkrir pólskir skipsfélagar alls ekki karlinn.
Ég hefi stundum heyrt gamlar sögur af þeim gamla og skapköstum hans, bæði í vinnu og innan fjölskyldu hans. Ég hefi þó valið að taka ekki nema hæfilega mikið mark á þeim sögum, enda vafalaust ýktar að einhverju leyti.
Þessi ágæti skipstjóri varð sjötugur fyrir nokkrum árum og átti því að kominn á eftirlaun. Ég varð því hissa er ég heyrði fyrir nokkru að hann hefði tekið við skipstjórn á flutningaskipinu Axel sem áður hét Greenland Saga og hafði verið keypt til fyrirtækis á Akureyri frá Danmörku.
Ekki veit ég hvort gamli skipstjórinn hafi verið um borð þegar Axel strandaði, en ef svo var, er ljóst að hinn austur-evrópski (lettneski?) yfirvélstjóri skipsins er líka mikill skaphundur og stjórnar illa skapi sínu.
P.s. Í athugasemd frá Óla frænda á Moggabloggi kemur fram að títtnefndur skipstjóri var ekki um borð þegar skipið strandaði. Greinilegt samt að skapið hefur hlaupið í menn við erfiðar aðstæður.
miðvikudagur, nóvember 28, 2007
28. nóvember 2007 - III - Gamall skipstjóri
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli