sunnudagur, nóvember 04, 2007

5. nóvember 2007 - Grimmileg örlög Lajku


Síðastliðið sumar loguðu bloggheimar af heift yfir ætluðum örlögum hundsins Lúkasar á Akureyri. Öllu grimmilegri urðu þó örlög hinnar rússnesku Lajku fyrir fimmtíu árum síðan.

Lajka (víða skrifuð Laika) er sennilega frægasta tík sem uppi hefur verið í raunheimum. Hún var fyrsti geimfarinn og jafnframt var hún fyrsta lífsveran af jörðinni sem lét lífið úti í geimnum. Lengi voru uppi frásagnir þess efnis að hún hefði lifað í marga daga úti í geimnum og jafnvel átt afturkvæmt sem var ómögulegt. Í reynd dó hún einungis nokkrum klukkustundum eftir að henni hafði verið skotið út í geiminn. Mikill hiti og stress dýrsins urðu sennilega til þess að hún dó einungis fimm til sjö tímum eftir geimskotið um borð í geimfarinu Spútnik 2.

Á laugardag voru liðin 50 ár frá þessum tímamótum í mannkynssögunni er fyrstu lífverunni var skotið út í geiminn. Um leið er ástæða til að minnast allra þeirra dýra sem hafa orðið fórnarlömb grimmdareðlis mannsins, þótt vissulega hafi ferð Lajku stuðlað að mikilli framþróun manneskjunnar í geimvísindum.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=712124


0 ummæli:







Skrifa ummæli