Um helgina fór fram heimsmeistarakeppni í mjög svo óvenjulegri íþrótt, svo óvenjulegri að sagt er að einungis sé hægt að halda hana í þremur ríkjum heimsins, Svíþjóð, Þýskalandi og Skotlandi. Í keppni þessari er keppt í hvert er besta maltwhiský í heiminum.
Áður en kom að lokakeppninni höfðu undankeppnir farið fram víða meðal áugafólks um whiskýdrykkju og þykir mér það skrýtið að mér hafi ekki verið boðið að taka þátt og smakka á gæðunum. Sigurverandi keppninnar varð skoska maltwhiskýið Lagavulin, en aukaverðlaun fengu Mortlach og japanski eðaldrykkurinn Miyagikoyo.
Þetta ágæta maltwhiský er bruggað skammt austan Port Ellen á eynni Islay sem tilheyrir Innri-Hebrideseyjum við vesturströnd Skotlands. Það fer að koma tími til að skreppa í heimsókn til þessarar ágætu eyju. Þá mætti gjarnan einnig koma við í Mortlach bruggverksmiðjunni í Dufftown í Banffshire, en í þeim bæ eru framleidd nokkur þekkt vörumerki á sviði eðaldrykkja, þar á meðal Glenfiddich. Hin fræga whiskýhátið sem haldin var árlega í Dufftown er nú haldin tvisvar á ári vegna mikillar aðsóknar, í maí og september.
Hver vill koma með í pílagrímsferð til whiskýhéraða Skotlands á eiginn kostnað? Það má auðvitað koma við á Orkneyjum í leiðinni en mig grunar að sumir ónefndir lesendur síðunnar eigi sér uppáhaldsdrykk sem framleiddur er á Orkneyjum.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=147&a=718825
http://www.thewhiskyexchange.com/B-40-Lagavulin.aspx
http://www.whisky-distilleries.info/Mortlach2_EN.shtml
mánudagur, nóvember 26, 2007
26. nóvember 2007 - Heimsmeistarakeppni!?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:32
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli