Þegar ég ákvað að taka þátt í transráðstefnunni í Linköping ákvað ég strax að nota tækifærið og heimsækja sem flesta af gömlum vinum sem ég á í Svíþjóð eftir ráðstefnuna og taka mér gott frí frá barlómnum á Íslandi. Ég held að það hafi tekist alveg ljómandi vel.
Ég byrjaði Svíþjóðarheimsóknina í gamla bænum þar sem ég bjó, með því að heimsækja gamlan nágranna í Jakobsberg áður en haldið var áfram suður á bóginn. Eftir góðan kaffisopa var ekið í gegnum eftirmiðdagsumferðina suður á bóginn, í gegnum Södertälje þar sem ég bjó eitt sinn í heilt ár og áfram til vinafólks míns í Vingåker þar sem sofið var eina nótt áður en haldið var til Linköping á ráðstefnuna.
Á ráðstefnunni kynntist ég mörgu skemmtilegu fólki, meðal annarra Del LaGrace Volcano og hinni þekktu Sandy Stone sem þrátt fyrir aldurinn er enn uppfull af eldmóði. Það geta víst fáar manneskjur montað sig af því að skrifaðar hafa verið heilu bækurnar í hatri gegn einni manneskju eins og Sandy Stone kynntist er Janice Raymond færði hatur sitt á henni í letur í bókinni The Transsexual Phenomenon.
Eftir þriggja daga skemmtilega ráðstefnuna var haldið út á þjóðvegina á ný og nú suður til Småland þar sem fleira vinafólk varð fyrir barðinu á heimsóknaþörf minni. Þá notaði ég tækifærið og heimsótti einnig prestinn í nágrannasókninni sem ég hefi nefnt áður í bloggfærslum mínum.
Eftir að hafa eytt þremur dögum í skóginum norðan við Växjö var enn á ný haldið út í óvissuna í skóginum, en nú til nágrennis Oskarshamn þar sem frændi minn og eiginkona hans búa. Eftir tvo daga hjá þeim var enn haldið út í skóg, en nú norður á bóginn og eftir góðan kaffisopa og með því í Norrköping var enn haldið inn í skóginn og nú til Sala í Vestmanland til vinafólks sem þar býr í skógarjaðrinum. Þaðan hefur svo verið farið um nágrannahéruð, til Skinnskatteberg og Stokkhólms og drukkið öl á kvöldin.
Nú er aðeins einn staður eftir á heimsóknalistanum, gamli vinnustaðurinn minn. Eftir morgundaginn get ég því haldið heim á leið með söknuði í hjarta, en um leið með góðar minningar í farteskinu eftir tvö þúsund kílómetra ferðalag.
laugardagur, nóvember 28, 2009
29. nóvember 2009 - Gert víðreist í skóginum
föstudagur, nóvember 27, 2009
27. nóvember 2009 – Christine
Þegar ég valdist sem formaður í föreningen Benjamín í Svíþjóð í ársbyrjun ársins 1994 fékk ég úrvals fólk með mér í stjórnina, m.a. meðstjórnandann Christine, transstúlku sem ég hafði allan vafa á í byrjun, en reyndist gull þegar á reyndi.
Hún var mörgum árum yngri en ég, framhleypin og vottaði fyrir athyglissýki hjá henni að mínu mati, en um leið manneskja sem hægt var að senda í hvaða verkefni sem var án þess að hún hikaði. Þennan kost hennar notaði ég án þess þó yfirkeyra stelpuna.
Eitt sinn vorum við beðnar um að mæta í sjónvarpsþátt í TV3 í Svíþjóð og auðvitað var Christine með í erfiðum klukkutíma þætti þar sem allt var látið flakka, okkar þarfir og langanir, meðferðarferlið og framtíðin.
Ári síðar lauk ég mínu aðgerðarferli og Christine ári á eftir mér. Ég flutti heim og missti tengslin við fólkið mitt í Svíþjóð. Ég fékk þó um skeið eina og aðra frétt af samtökunum okkar og örlögum virkustu meðlimanna, þar á meðal af Christine. Einhverjum árum síðar hvarf hún af sjónarsviðinu, flutti norður í land til foreldra sinna og ég missti öll tengsl.
Það var í fyrra að hún birtist mér á ný, á Facebook. Fjölskyldan hafði selt jörðina norður í Jämtland og flutt suður til Vestmanland og minnkað búskapinn og sjálf hafði hún gengið Facebook á hönd.
Á fimmtudaginn fór ég í heimsókn til Christine þar sem hún býr ásamt systur sinni og foreldrum nærri bænum Skinnskatteberg, talsvert fyrir norðvestan Västerås. Mitt í skóginum dundaði fjölskyldan sér við kindabúskap, lífrænt ræktaðar hænur af sömu gerð og margumtalaðar landnámshænur, endur og gæsir og seldi afurðirnar beint af býli, svona dæmigerður lífrænn sjálfsþurftarbúskapur. Þarna mátti ég hafa mig alla við að koma mér frá skapstyggum gæsasteggnum sem á að verða jólamaturinn í ár, merkilega skapgóðum kindum og heimilislegri sveitaverslun.
Einhvernveginn fékk ég á tilfinninguna að Christine væri á réttum stað í lífinu þar sem hún stóð í forinni í samfestingnum og talaði við ærnar, rétt eins og hver annar bóndi norður í landi á Íslandi.
En það var yndislegt að hitta hana aftur eftir þrettán ára aðskilnað.
fimmtudagur, nóvember 26, 2009
26. nóvember 2009 - Presturinn í Lammhult
Á sunnudaginn var hitti ég prestinn í Lammhult. Slíkt þætti venjulega ekki ekki í frásögur færandi þegar haft er í huga að ég hefi aldrei hafnað barnatrúnni og fremur talið mig kristna þótt sumir “kristnir” bókstafstrúarmenn vilji telja mig með því versta sem komið getur fyrir hinn kristna heim. Ég fór samt og bankaði upp á hjá presti á sunnudagskvöldið, enda eigum við ýmislegt sameiginlegt.
Annika Stacke er sóknarprestur í Lammhult. Á yngri árum var hún meðlimur í sérstrúarsöfnuði í sænska Biblíubeltinu og prestur þar, en einn góðan veðurdag sá hún að skoðanir hennar og sænsku þjóðkirkjunnar ættu frekar samleið en skoðanir pingströrelsen. Hún færði sig yfir í þjóðkirkjuna og hóf þá vegferð sem ég gekk einnig í gegnum og lauk aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni árið 2002. Hún hafði einnig verið í hjónabandi í fortíðinni og eignast börn og hún varð einnig um skeið formaður í föreningen Benjamin þar sem ég hafði gegnt formennsku í tvö ár um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.
Meðan á aðgerðarferlinu stóð, voru ýmsar hindranir lagðar fyrir Anniku Stacke, en hún stóð þær allar af sér með bros á vör og hlýju í hjarta. Haustið 2003 losnaði staða sóknarprests í Lammhult og Annika sóttu um og fékk stuðning biskupsins í Växjö til brauðsins. Eins og gefur að skilja varð allt vitlaust í sænska Biblíubeltinu þar sem pingströrelsen sleit öllu samstarfi við sænsku þjóðkirkjuna. Biskupinn gaf sig ekkert og Annika hélt brauðinu.
Sex árum síðar er allt dottið í dúnalogn. Pingströrelsen er löngu búin að sætta sig við ráðningu Anniku í embætti sóknarprests í Lammhult og sóknarbörnin eru mjög sátt við prestinn sinn sem bauð þeim hjartahlýju og bros er reynt var að hrekja hana í burtu með fordómum fyrir sex árum síðan.
laugardagur, nóvember 21, 2009
22. nóvember 2009 – Strákurinn sem varð heimsmeistari kvenna í bruni.
Fréttir fjölmiðla í haust af vafasömu kynferði Caster Semaneya frá Suður-Afríku sem varð heimsmeistari kvenna í 100 metra hlaupi er síður en svo einasta dæmið um að ekki hafi alltaf verið á hreinu með kynferði íþróttakvenna. Það eru nokkur dæmi um slíkt þekkt, t.d. Stanislawa Walasiewicz (1911-1980) frá Póllandi sem keppti í hlaupum á árunum fyrir stríð, flutti síðar til Bandaríkjanna og tók upp nafnið Stella Welsh. Hún lést er hún var úti að versla í Ohio árið 1980, varð óvart á milli í skotárás bófa og lögreglu. Eftir andlát hennar uppgötvaðist að hún var intersex.
Einnig má nefna Foekje Dillema (1926-2007) frá Hollandi sem sömuleiðis var intersex eins og Stella.
Eitt frægasta dæmið var samt um Eriku Schinegger (f. 19. júní 1948) frá Agsdorf í Austurríki. Erika var fræg skíðadrottning í bruni á unglingsárunum og árið 1966 varð “hún” heimsmeistari kvenna á heimsmeistaramótinu á skíðum í Portillo í Chile og voru þetta jafnframt einustu gullverðlaunin sem Austurríki fékk á þessu móti. Á þessum tíma var verið að byrja að framkvæma kynjapróf á keppendum kvenna í alþjóðamótum, fyrst á frjálsíþróttamótinu í Búdapest árið 1966 og síðan haustið 1967 fyrir ólympíuleikana í Grenoble í Frakklandi 1968. Erika var prófuð og svarið kom um að “hún” væri karlkyns. “Hún” fór í fleiri próf og ávallt var niðurstaðan hin sama, “hún” væri karlkyns. Erika var því dæmd úr leik fyrir umrædda ólympíuleika.
Erika hafði aldrei þróað eðlileg brjóst og aldrei haft blæðingar, en eftir að niðurstaða rannsóknanna lá fyrir, fór niðurbrotin manneskjan í frekari rannsókn í Innsbruck þar sem fyrri rannsóknir voru staðfestar, en jafnframt að “hún” hefði virk karlkynskynfæri falin á bakvið húðina. Erika ákvað þá að ganga hreint til verks, fór í erfiða aðgerð til leiðréttingar á kyni sínu þar sem besífanum var sleppt út og hann breytti nafni sínu í Erik. Hann hélt áfram að keppa um skeið í skíðaíþróttum en nú í karlaflokki, vann þrjú mót í Evrópumótaröð í bruni veturinn 1968-1969, en var þá beðinn um að hætta í austurríska landsliðinu vegna þeirra vandræða sem hann var talinn valda meðal annarra keppenda!
Þess má geta að eftir að Erik lauk aðgerðinni til leiðréttingar á kyni sínu, skilaði hann silfurverðlaunum sínum frá Portillo 1966 til keppandans sem lenti í öðru sæti á þeim heimsleikum, Marielle Goitschel frá Frakklandi.
Erik hefur lifað góðu lífi sem karl eftir þetta, rekur skíðaskóla fyrir börn í heimabæ sínum í Agsdorf, er kvæntur og á eina dóttur.
Ævisaga Eriks Schinegger, “Sigurinn yfir sjálfum mér, maðurinn sem varð heimsmeistari kvenna” (Mein Sieg über mich. Der Mann, der Weltmeisterin wurde)
kom út árið 1988 og heimildarmyndin Erik(a) gerð árið 2005 þar sem lífi hans er lýst.
fimmtudagur, nóvember 19, 2009
19. nóvember 2009 - Maður eða kona eða ...?
Fólk er gjarnt á að skipta heiminum í hvítt eða svart þótt oft sé heilmikið á milli. Það eru til strákar og það eru til stelpur, en er það jafneinfalt og hvítt og svart?
Þar sem ég sit spennandi transráðstefnu í Linköping, hlustaði ég á fyrirlestur Del LaGrace Volcano um stöðu intersex fólks í heiminum. Hann er fæddur árið 1957 í Kaliforníu í Bandaríkjunum, fæddur með kynfæri beggja kynja og lifði fyrstu 37 ár ævinnar í kvenhlutverki. Eftir það ákvað hann að reyna að draga það besta fram í kostum kynjanna og hóf að lifa á milli kynja.
Hann hefur búið lengi í Englandi en býr nú í Svíþjóð. Hann sýndi okkur vegabréfið sitt þar sem fram kemur að hann er skráður sem kona, en þegar hann endurnýjar vegabréfið er hann vanur að setja kross á milli reitanna fyrir M og F og þótt hann sé með smáhökuskegg, dettur engum til hugar að spyrja hann hvað hann sjálfur vill, en það væri þá hvorugtveggja eða hvorugkyns.
P.s. Það er val Del LaGrace Volcano að vera ávarpaður í karlkyni út á við til að minnka hættuna á ofsóknum og barsmíðum.
Del LaGrace er lærður ljósmyndari og sjónlistamaður og snilldarlegur fyrirlestur hans gaf alveg nýja sýn á stöðu intersex fólks í heiminum og annarra þeirra sem kjósa að lifa á milli kynja í heimi sem hatar þá.
Eigum við að flokka Del LaGrace sem mann eða konu eða eitthvað annað? Ég segi fyrir mína parta, það skiptir ekki máli. Hann er fyrst og fremst manneskja sem hefur sýnt okkur að það er allt of mikið til í heiminum til að hægt sé að skipta öllum heiminum í hvítt og svart!
laugardagur, nóvember 14, 2009
15. nóvember 2009 - Nýr ferðamannaskattur
Reiknað hefur verið að ætlaðir skattar á flugfarþega til Íslands muni færa íslenska ríkinu nærri milljarð íslenskra króna í tekjur á næsta ári ef af verður. Ekki er víst að af verði því miðað við reynslu annarra þjóða getur þessi skattur dregið stórlega úr komu erlendra ferðamanna til landsins og þá er ver af stað farið en heima setið.
Ég legg því til að í stað þessa nýja ferðamannaskatts verði Varnarmálastofnun lögð niður um áramót og þeim fjármunum sem eru ætlaðir henni verði notaðir til að greiða þær skuldir sem ferðamannaskatturinn átti að greiða. Um er að ræða 962 milljónir króna eða um það bil sömu upphæð og átti að ná inn með ferðamannaskattinum.
15. nóvember 2009 - Af þjóðfundi
Til eru fáeinir frasar sem allir geta tileinkað sér. Það eru orð eins og heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, en að auki lýðræði, kærleikur og mannréttindi. Vandamálið er bara að sínum augum lítur hver á þessi góðu orð. Margir af félögum mínum í Samfylkingunni tóku virkan þátt í þjóðfundinum og svo virðist sem margir alþingismenn úr öðrum flokkum og aðrir pólitíkusar hafi verið áberandi í Laugardalshöllinni.
Eiginlega þótti mér hin flokkspólitíska aðkoma að þjóðfundinum rýra nokkuð niðurstöðu fundarins. Sjálf komst ég ekki á fundinn vitandi að ég yrði á vakt þennan dag, þótt ég hafi fengið hvatningu um þjóðfundinn frá félögum mínum í Samfylkingunni sem þátt tóku í undirbúningi þjóðfundarins fyrir löngu án þess þó að svara í neinu. Því veit ég ekki hvort ætlunin hafi verið sú að ég ætti að sitja fundinn.
Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að fögnuður atvinnupólitíkusa með fundinn segi mér að fundurinn hafi runnið út í sandinn og skili litlu sem engu eftir sig þó ef frá er talinn hagnaður þeirra sem njóta hagnaðar af sektarinnheimtum vegna stöðulagabrota.
Því miður.
föstudagur, nóvember 13, 2009
13. nóvember 2009 – Einstök óheppni
Í tilefni dagsins rifjast upp sagan af einum kunningja mínum sem fótbrotnaði fyrir framan tölvuna sína. Slíkt þætti alveg einstök óheppni ef ekki væri vitað um aðstæður.
Kunninginn hafði verið að vinna erfitt verkefni á tölvuna og verið lengi að. Er hann ætlaði að standa upp frá tölvunni, reyndist annar fóturinn algjörlega dofinn og við það að hann ætlaði að standa í fótinn, datt hann og fótbrotnaði í fallinu. Þótt um einskæra tilviljun hafi verið um að ræða, láta kunningjarnir ekki slíkt tækifæri til háðs úr hendi sér sleppa og nota hvert tækifæri sem gefst til að segja frá manninum sem fótbrotnaði fyrir framan tölvuna sína.
Í gærkvöldi heyrði ég af öllu grátbroslegra atviki ef hægt að tala um að slys sé broslegt. Það var um pilt sem sleit lærvöðva í stærðfræðiprófi!!!!!
Neitið því svo að stærðfræðin sé erfið!
13. nóvember 2009 - Gönguferð eða víðavangshlaup
Það var ganga á fimmtudagskvöldið hjá Gönguhóp gullfallega fólksins og ég var að sjálfsögðu með, gekk að heiman að venju klukkan 18.10, gekk Víðidalinn að Heyvaði og yfir göngubrúna og upp í efra Breiðholt, niður hjá kirkjunni og að Vatnsveitubrú. Þar tók ég stefnuna upp í efra Breiðholt að nýju og gekk síðan gegnum kjarrið neðan húsanna austur í átt að Höfðabakka og niður slóða sem þar liggur niður að Árbæjarstíflu þar sem ég hitti gönguhópinn undurfagra klukkutíma eftir að ég hafði farið að heiman.
Að venju gekk hópurinn saman niður Elliðaárdalinn, yfir hitaveitustokkinn og upp aftur Rafstöðvaveginn, framhjá gömlu Elliðaárstöð og upp brekkuna að stíflunni þangað sem við komum móð og másandi eftir kraftgöngu kvöldsins að venju. Síðan var gengið með rólega hópnum umhverfis Árbæjarlónið og endað að venju við stífluna, sum eftir hálftíma labb, önnur eftir röskan klukkutíma gang og ég eftir rösklega tveggja tíma gang.
Þar sem við komum yfir stífluna og ætluðum að njóta samræðna, kom hópur hlaupafólks hlaupandi framhjá okkur. Fljótlega komu fleiri og enn fleiri. Þessi hlaupahópur ætlaði aldrei að taka enda. Eftir að ég kom heim gjörsamlega útkeyrð eftir gönguna fékk ég heimsókn frá einu pari þar sem annar helmingurinn hafði tekið þátt í svonefndu Powerade hlaupi. Hún blés ekki úr nös eftir að hafa hlaupið 10 km á rétt um einum klukkutíma, ein af um 300 manns sem tóku þátt í hlaupinu.
Svo er ég að monta mig af afrekum mínum í gönguhóp fallega fólksins!!!!
miðvikudagur, nóvember 11, 2009
11. nóvember 2009 - Að kasta sér fyrir lest!
Þjóðverji einn kastaði sér fyrir lest á dögunum og dó, maður á besta aldri og toppmaður í íþróttum, landsliðsmaður í fótbolta, maður sem hafði barist við þunglyndi og gefist upp.
Aðstandendur mannsins eiga alla mína samúð sem og allir aðstandendur allra þeirra sem sjá enga aðra leið út úr erfiðleikum sínum en þá að svipta sig lífi. Um leið er verður að gera alvarlega athugasemd við þá aðferð sem maðurinn beitti við að svipta sig lífi.
Það er ákaflega ruddaleg aðferð við sjálfsmorð að kasta sér fyrir lest. Það er hægt að svipta sig lífi á annan hátt, hljóðlega og í kyrrþei. En hin árásarfulla aðferð skaðar marga aðra en þann sem sviptir sig lífi, þá fyrst og fremst lestarstjórann í þessu tilfelli. Líf hans eða hennar er í rúst á eftir og verður viðkomandi í flestum tilfellum ófær um að stjórna lest á eftir, verður jafnvel andlegur öryrki á eftir.
Mörg þau tilfelli þar sem einhver kastar sér fyrir lestina eiga sér stað á fjölmennum brautarstöðvum þar sem fjöldi fólks verður áhorfandi að sjálfsvíginu. Flestir áhorfendur verða miður sín á eftir, oft í langan tíma og það verður ávallt hræðileg minning sem brennir sig í vitundina það sem eftir er.
Ég held að fæst það fólk sem sviptir sig lífi á ruddalegan hátt, geri sér grein fyrir þeim afleiðingum sem sjálfsvígið veldur öllu því fólki sem koma að slysinu því annars myndi það velja aðrar aðferðir við að stytta sér aldur.
mánudagur, nóvember 09, 2009
9. nóvember 2009 – Um "Keflavíkurgöngur" síðari tíma
Ég rifja upp gömlu góðu Keflavíkurgöngurnar sem voru gengnar af hugsjón, göngur sem voru nærri 50 kílómetrar og hófust við vallarhlið Keflavíkurflugvallar á Miðnesheiði og lauk á Lækjartorgi. Þær göngur sem voru styttri fengu önnur nöfn og má þar nefna Straumsvíkurgönguna árið 1977, en þá var gengið frá hliðum álversins í Straumsvík og endað á Lækjartorgi. Við vorum ekki alltaf mörg sem gengum af stað í Keflavíkurgöngurnar, einhver hundruð í upphafi en svo fjölgaði eftir því sem á leið og þegar komið var inn í Hafnarfjörð fjölgaði göngufólki verulega uns komið var til Reykjavíkur á útifund á Lækjartorgi.
Í gær var farin ganga sem kölluð var Keflavíkurganga þótt hún hvorki byrjaði né endaði í Keflavík. Hún byrjaði reyndar á miðjum Keflavíkurveginum, við Vogaafleggjarann og svo var gengin Strandarheiðin og gefist upp í Kúagerði þótt í blíðskaparveðri væri. Þetta var því ekki Keflavíkurganga í neinum skilningi þess orðs, heldur aumleg Strandarheiðarganga undir forystu frændanna Johnsen & Johnsen.
Ég hefi fullan skilning á þörf Suðurnesjamanna fyrir aukinni atvinnu. Atvinnuleysi er vont hlutskipti. Það hlýtur að vera hægt að fara einhvern milliveg í byggingu álvers í Helguvík án þess að reist verði risaálver eins og ætlunin er að byggja. Það er ekki til næg orka í það án þess að slíkt komi niður framtíðinni ef farið verður of geyst í framtíða gufuaflsvirkjanir. Það er hinsvegar tómt mál að kalla fram framkvæmdir með blekkingagöngum eins og þeirri sem farin var í gær og reynt þannig að tengja þægilegan sunnudagsgöngutúrinn við alvöru Keflavíkurgöngur.
Slíkt er móðgun við minninguna um auma fætur eftir alvöru Keflavíkurgöngur.
sunnudagur, nóvember 08, 2009
8. nóvember 2009 – Illa gengur hjá Halifaxhrepp
Ég var að skoða nýjustu stöðuna í enska boltanum og líst illa á blikuna. Halifaxhreppur er kominn niður fimmta sæti eftir að hafa tapað fyrsta leik haustsins í dag gegn köplunum í Prescott. Það var kannski ekki við miklu að búast eftir að hafa ekki spilað leik í nærri mánuð og á liðið nú fimm leiki til góða á toppliðin svo ekki er öll von úti enn.
Við skulum vona að Halifaxhreppur nái að taka sig saman í andlitinu fyrir næsta leik á þriðjudaginn svo við aðdáendur liðsins getum aftur tekið gleði okkar, enda lítið spennandi að vera alltaf á botninum í langlanglangneðstu deild.
laugardagur, nóvember 07, 2009
7. nóvember 2009 – „Er karlinn alveg að missa sig“...
.... hugsaði ég er ég sá Fréttablaðið í dag og á forsíðu blaðsins var stór mynd af forseta Íslands og eiginkonu hans þar sem þau voru að sýna sig í Smáralind, en undir myndinni var feitletruð fyrirsögn:
„Ljósritar viðkvæm málsgögn úti í bæ“
Sem betur fer sá ég að um misskilning var að ræða því fréttin átti alls ekki við myndina af forsetanum, heldur um hið blanka embætti ríkissaksóknara sem hefur ekki efni á ljósritunarvél öfugt við forsetann og biskupsembættið þar sem ávallt er til nóg af peningum.
þriðjudagur, nóvember 03, 2009
3. nóvember 2009 - Konur á rauðum sokkum
Var að horfa á kvikmyndina Konur á rauðum sokkum í sjónvarpinu. Mér þótti myndin mjög athyglisverð og skemmtileg á köflum, ekki síst fyrir þá sök að svo stutt er síðan rauðsokkurnar voru upp á sitt besta og um leið stutt síðan raunveruleg stéttabarátta kvenna á Íslandi hófst fyrir alvöru.
Ég viðurkenni alveg að ég hefði viljað sjá meira af samtímamyndbrotum frá þessum tíma og þá helst kvennafrídeginum 1975. Hann var mér minnisstæður enda fór ég með tveggja og hálfs mánaðar gamla dóttur mína með mér í skólann um morguninn. Í löngu frímínútunum um morguninn var haldinn kynningarfundur rauðsokkahrefingarinnar í hátíðarsalnum. Ég þurfti að byrja á að skipta á stelpunni áður en ég fór inn í hátíðarsal með hana í barnavagninum sem hafði verið keyptur notaður og í fremur bágbornu ástandi. Þegar ég keyrði barnavagninn inn í hátíðarsalinn byrjaði að ískra í einu hjólinu, allur salurinn heyrði og starði á mig með barnavagninn og það varð þessi generalhlátur í salnum.
Konan sem var í púltinu að tala misskyldi hláturinn og tók honum sem háði í minn garð og hóf að skamma salinn fyrir fordóma gegn einasta nemandanum sem tæki foreldrahlutverkinu alvarlega. Eftir fundinn var gefið frí í skólanum það sem eftir var dagsins enda erfitt að halda uppi aga þegar fjöldi nemenda voru með börn sín með sér og mikið um að vera í bænum.
Að sjálfsögðu fórum ég og dóttir mín niður í bæ á útifundinn eftir hádegið og trúlega hefur hún verið með yngstu þátttakendunum á útifundinum 24. október 1975, aðeins tveggja og hálfs mánaðar gömul.
mánudagur, nóvember 02, 2009
2. nóvember 2009 - Köttur með valkvíða
Eins og það fólk sem þekkir mig veit, þá er of hátt af svölunum hjá mér og niður á jörðina og því komast kisurnar mínar ekki út af sjálfsdáðum, heldur verða að fá fylgd niður stigana þar sem opna verður fyrir þeim útidyrnar.
Í morgun átt Hrafnhildur ofurkisa þá helstu þrá að komast út í náttúruna og mér fannst sjálfssagt að verða við bón hennar, fylgdi henni niður stigann og opnaði út í garð. Hún hljóp út og komst að því að það var rigning úti, sneri við og kom inn aftur. Það hlyti að vera miklu betra veður götumegin og hún hljóp að dyrunum að aðalinngangnum. Ég opnaði fyrir henni og hún hljóp út, fann að það var líka rigning þeim megin og flýtti sér inn aftur. Önnur tilraun garðmegin og aftur götumegin. Loks ákvað hún að hrista af sér óttann við regndropana og fór út í garðinn og enn einhversstaðar þarna úti. Ég er hinsvegar búin að fá hreyfingu dagsins í tilraunum mínum við að þjóna kettinum.
Mikið skelfing er stundum erfitt að eiga við kött sem þjáist af valkvíða
2. nóvember 2009 - Hér blaktir aldrei hár á höfði!
Fyrir nokkru áttum ég og vinnufélagi minn hjá OR erindi upp á Akranes í þeim tilgangi að kynna okkur verklega starfsemi fyrirtækisins þar og þær framkvæmdir sem við erum smám saman að bæta inn á eftirlitskerfi okkar í vinnunni. Við fengum prýðilega góða leiðsögn hjá svæðisstjóranum um hina ýmsu þætti starfseminnar, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.
Þar sem við vorum úti á berangri að skoða ofan í nýjan fráveitubrunn, varð mér á orði að spyrja svæðisstjórann að því hvort ekki væri næðingssamt hérna? Ekki stóð á svarinu:
„Ég get svarið það sannleikanum samkvæmt, að hér blaktir aldrei hár á höfði“ svaraði hann um leið og hann strauk sér um sköllótt höfuðið!
sunnudagur, nóvember 01, 2009
1. nóvember 2009 - Hvernig geturðu gert okkur þetta?
Ég var að horfa á viðtal Evu Maríu við ÁrnaTryggvason leikara og þar kom í viðtalinu er hann lýsti því hvernig hann skrifaði sig frá þunglyndinu með hjálp Ingólfs Margeirssonar árið 1991. Í viðtalinu nefnir Árni viðbrögð sumra sem lýstu vonbrigðum sínum með frásögnina af veikindunum með orðunum:
„Hvernig geturðu gert okkur þetta?“
Ég hefi lent í nákvæmlega sömu lífsreynslunni þótt ekki sé um þunglyndi að ræða.
Ég hafði verið í tilfinningalegum feluleik gagnvart umhverfi mínu allt mitt líf þegar varnirnar brustu og ég þurfti að leita leiða til að fá bót meina minna, gekk á milli sérfræðinga hér heima og erlendis og óskaði aðstoðar. Það var erfitt, ekki síst vegna þess að tilfinningar mínar voru ekki viðurkenndar á Íslandi á þeim tíma og viðbrögðin mörkuðust nokkuð af kunnáttuleysinu.
Er ég tjáði fólki ætlun mína, að ég ætlaði til Svíþjóðar að freista þess að fá aðstoð voru algeng viðbrögð þau að ég mætti alls ekki segja frá þegar heim væri komið að nýju, ég yrði að loka fortíðina niðri í rykföllnum geymslum minninganna. Eins og sumum ætti að vera kunnugt, gekk það fremur illa.
Við sem vorum að ganga í gegnum aðgerðarferlið í Svíþjóð á árunum 1992-1995 urðum illilega fyrir barðinu á fordómum þegar falskar grunsemdir vöknuðu um morðingja í okkar hópi. Öfugt við það sem ætlast var til, var forystufólk litla félagsins okkar fyrst af öllum til að hlaupa í felur og enginn var eftir úti að halda uppi vörnum fyrir málstað okkar.
Eftir að hafa tekið þátt í að gagnrýna gömlu stjórnina fyrir aðgerðarleysið árið 1994 þurfti ég sjálf að taka að mér formennskuna í félaginu og þegar enn ein fordómaárásin kom á okkur í blöðum skömmu eftir að ég tók við stjórnarformennskunni, komst ég ekki lengur hjá að verja málstað okkar í blöðum og sjónvarpi í Svíþjóð. Eftir það var sakleysi tilfinningalega feluleiksins fyrir bí.
Eftir að heim var komið árið 1996 var ég orðin nokkuð þekkt af endemum og þá fékk ég oft að heyra þessi sömu orð frá vinum og ættingjum:
„Hvernig gastu gert okkur þetta?“
Hjartahlý ráð þurfa ekkert að vera góð þótt sögð séu af hjartans meiningu með velferð þess sem talað er við í huga.