Það var ganga á fimmtudagskvöldið hjá Gönguhóp gullfallega fólksins og ég var að sjálfsögðu með, gekk að heiman að venju klukkan 18.10, gekk Víðidalinn að Heyvaði og yfir göngubrúna og upp í efra Breiðholt, niður hjá kirkjunni og að Vatnsveitubrú. Þar tók ég stefnuna upp í efra Breiðholt að nýju og gekk síðan gegnum kjarrið neðan húsanna austur í átt að Höfðabakka og niður slóða sem þar liggur niður að Árbæjarstíflu þar sem ég hitti gönguhópinn undurfagra klukkutíma eftir að ég hafði farið að heiman.
Að venju gekk hópurinn saman niður Elliðaárdalinn, yfir hitaveitustokkinn og upp aftur Rafstöðvaveginn, framhjá gömlu Elliðaárstöð og upp brekkuna að stíflunni þangað sem við komum móð og másandi eftir kraftgöngu kvöldsins að venju. Síðan var gengið með rólega hópnum umhverfis Árbæjarlónið og endað að venju við stífluna, sum eftir hálftíma labb, önnur eftir röskan klukkutíma gang og ég eftir rösklega tveggja tíma gang.
Þar sem við komum yfir stífluna og ætluðum að njóta samræðna, kom hópur hlaupafólks hlaupandi framhjá okkur. Fljótlega komu fleiri og enn fleiri. Þessi hlaupahópur ætlaði aldrei að taka enda. Eftir að ég kom heim gjörsamlega útkeyrð eftir gönguna fékk ég heimsókn frá einu pari þar sem annar helmingurinn hafði tekið þátt í svonefndu Powerade hlaupi. Hún blés ekki úr nös eftir að hafa hlaupið 10 km á rétt um einum klukkutíma, ein af um 300 manns sem tóku þátt í hlaupinu.
Svo er ég að monta mig af afrekum mínum í gönguhóp fallega fólksins!!!!
föstudagur, nóvember 13, 2009
13. nóvember 2009 - Gönguferð eða víðavangshlaup
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:35
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli