Ég rifja upp gömlu góðu Keflavíkurgöngurnar sem voru gengnar af hugsjón, göngur sem voru nærri 50 kílómetrar og hófust við vallarhlið Keflavíkurflugvallar á Miðnesheiði og lauk á Lækjartorgi. Þær göngur sem voru styttri fengu önnur nöfn og má þar nefna Straumsvíkurgönguna árið 1977, en þá var gengið frá hliðum álversins í Straumsvík og endað á Lækjartorgi. Við vorum ekki alltaf mörg sem gengum af stað í Keflavíkurgöngurnar, einhver hundruð í upphafi en svo fjölgaði eftir því sem á leið og þegar komið var inn í Hafnarfjörð fjölgaði göngufólki verulega uns komið var til Reykjavíkur á útifund á Lækjartorgi.
Í gær var farin ganga sem kölluð var Keflavíkurganga þótt hún hvorki byrjaði né endaði í Keflavík. Hún byrjaði reyndar á miðjum Keflavíkurveginum, við Vogaafleggjarann og svo var gengin Strandarheiðin og gefist upp í Kúagerði þótt í blíðskaparveðri væri. Þetta var því ekki Keflavíkurganga í neinum skilningi þess orðs, heldur aumleg Strandarheiðarganga undir forystu frændanna Johnsen & Johnsen.
Ég hefi fullan skilning á þörf Suðurnesjamanna fyrir aukinni atvinnu. Atvinnuleysi er vont hlutskipti. Það hlýtur að vera hægt að fara einhvern milliveg í byggingu álvers í Helguvík án þess að reist verði risaálver eins og ætlunin er að byggja. Það er ekki til næg orka í það án þess að slíkt komi niður framtíðinni ef farið verður of geyst í framtíða gufuaflsvirkjanir. Það er hinsvegar tómt mál að kalla fram framkvæmdir með blekkingagöngum eins og þeirri sem farin var í gær og reynt þannig að tengja þægilegan sunnudagsgöngutúrinn við alvöru Keflavíkurgöngur.
Slíkt er móðgun við minninguna um auma fætur eftir alvöru Keflavíkurgöngur.
mánudagur, nóvember 09, 2009
9. nóvember 2009 – Um "Keflavíkurgöngur" síðari tíma
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:54
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli