laugardagur, nóvember 28, 2009

29. nóvember 2009 - Gert víðreist í skóginum

Þegar ég ákvað að taka þátt í transráðstefnunni í Linköping ákvað ég strax að nota tækifærið og heimsækja sem flesta af gömlum vinum sem ég á í Svíþjóð eftir ráðstefnuna og taka mér gott frí frá barlómnum á Íslandi. Ég held að það hafi tekist alveg ljómandi vel.

Ég byrjaði Svíþjóðarheimsóknina í gamla bænum þar sem ég bjó, með því að heimsækja gamlan nágranna í Jakobsberg áður en haldið var áfram suður á bóginn. Eftir góðan kaffisopa var ekið í gegnum eftirmiðdagsumferðina suður á bóginn, í gegnum Södertälje þar sem ég bjó eitt sinn í heilt ár og áfram til vinafólks míns í Vingåker þar sem sofið var eina nótt áður en haldið var til Linköping á ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni kynntist ég mörgu skemmtilegu fólki, meðal annarra Del LaGrace Volcano og hinni þekktu Sandy Stone sem þrátt fyrir aldurinn er enn uppfull af eldmóði. Það geta víst fáar manneskjur montað sig af því að skrifaðar hafa verið heilu bækurnar í hatri gegn einni manneskju eins og Sandy Stone kynntist er Janice Raymond færði hatur sitt á henni í letur í bókinni The Transsexual Phenomenon.

Eftir þriggja daga skemmtilega ráðstefnuna var haldið út á þjóðvegina á ný og nú suður til Småland þar sem fleira vinafólk varð fyrir barðinu á heimsóknaþörf minni. Þá notaði ég tækifærið og heimsótti einnig prestinn í nágrannasókninni sem ég hefi nefnt áður í bloggfærslum mínum.

Eftir að hafa eytt þremur dögum í skóginum norðan við Växjö var enn á ný haldið út í óvissuna í skóginum, en nú til nágrennis Oskarshamn þar sem frændi minn og eiginkona hans búa. Eftir tvo daga hjá þeim var enn haldið út í skóg, en nú norður á bóginn og eftir góðan kaffisopa og með því í Norrköping var enn haldið inn í skóginn og nú til Sala í Vestmanland til vinafólks sem þar býr í skógarjaðrinum. Þaðan hefur svo verið farið um nágrannahéruð, til Skinnskatteberg og Stokkhólms og drukkið öl á kvöldin.

Nú er aðeins einn staður eftir á heimsóknalistanum, gamli vinnustaðurinn minn. Eftir morgundaginn get ég því haldið heim á leið með söknuði í hjarta, en um leið með góðar minningar í farteskinu eftir tvö þúsund kílómetra ferðalag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli