laugardagur, nóvember 21, 2009

22. nóvember 2009 – Strákurinn sem varð heimsmeistari kvenna í bruni.


Fréttir fjölmiðla í haust af vafasömu kynferði Caster Semaneya frá Suður-Afríku sem varð heimsmeistari kvenna í 100 metra hlaupi er síður en svo einasta dæmið um að ekki hafi alltaf verið á hreinu með kynferði íþróttakvenna. Það eru nokkur dæmi um slíkt þekkt, t.d. Stanislawa Walasiewicz (1911-1980) frá Póllandi sem keppti í hlaupum á árunum fyrir stríð, flutti síðar til Bandaríkjanna og tók upp nafnið Stella Welsh. Hún lést er hún var úti að versla í Ohio árið 1980, varð óvart á milli í skotárás bófa og lögreglu. Eftir andlát hennar uppgötvaðist að hún var intersex.
Einnig má nefna Foekje Dillema (1926-2007) frá Hollandi sem sömuleiðis var intersex eins og Stella.

Eitt frægasta dæmið var samt um Eriku Schinegger (f. 19. júní 1948) frá Agsdorf í Austurríki. Erika var fræg skíðadrottning í bruni á unglingsárunum og árið 1966 varð “hún” heimsmeistari kvenna á heimsmeistaramótinu á skíðum í Portillo í Chile og voru þetta jafnframt einustu gullverðlaunin sem Austurríki fékk á þessu móti. Á þessum tíma var verið að byrja að framkvæma kynjapróf á keppendum kvenna í alþjóðamótum, fyrst á frjálsíþróttamótinu í Búdapest árið 1966 og síðan haustið 1967 fyrir ólympíuleikana í Grenoble í Frakklandi 1968. Erika var prófuð og svarið kom um að “hún” væri karlkyns. “Hún” fór í fleiri próf og ávallt var niðurstaðan hin sama, “hún” væri karlkyns. Erika var því dæmd úr leik fyrir umrædda ólympíuleika.

Erika hafði aldrei þróað eðlileg brjóst og aldrei haft blæðingar, en eftir að niðurstaða rannsóknanna lá fyrir, fór niðurbrotin manneskjan í frekari rannsókn í Innsbruck þar sem fyrri rannsóknir voru staðfestar, en jafnframt að “hún” hefði virk karlkynskynfæri falin á bakvið húðina. Erika ákvað þá að ganga hreint til verks, fór í erfiða aðgerð til leiðréttingar á kyni sínu þar sem besífanum var sleppt út og hann breytti nafni sínu í Erik. Hann hélt áfram að keppa um skeið í skíðaíþróttum en nú í karlaflokki, vann þrjú mót í Evrópumótaröð í bruni veturinn 1968-1969, en var þá beðinn um að hætta í austurríska landsliðinu vegna þeirra vandræða sem hann var talinn valda meðal annarra keppenda!


Þess má geta að eftir að Erik lauk aðgerðinni til leiðréttingar á kyni sínu, skilaði hann silfurverðlaunum sínum frá Portillo 1966 til keppandans sem lenti í öðru sæti á þeim heimsleikum, Marielle Goitschel frá Frakklandi.

Erik hefur lifað góðu lífi sem karl eftir þetta, rekur skíðaskóla fyrir börn í heimabæ sínum í Agsdorf, er kvæntur og á eina dóttur.

Ævisaga Eriks Schinegger, “Sigurinn yfir sjálfum mér, maðurinn sem varð heimsmeistari kvenna” (Mein Sieg über mich. Der Mann, der Weltmeisterin wurde)
kom út árið 1988 og heimildarmyndin Erik(a) gerð árið 2005 þar sem lífi hans er lýst.


0 ummæli:







Skrifa ummæli