sunnudagur, nóvember 01, 2009

1. nóvember 2009 - Hvernig geturðu gert okkur þetta?

Ég var að horfa á viðtal Evu Maríu við ÁrnaTryggvason leikara og þar kom í viðtalinu er hann lýsti því hvernig hann skrifaði sig frá þunglyndinu með hjálp Ingólfs Margeirssonar árið 1991. Í viðtalinu nefnir Árni viðbrögð sumra sem lýstu vonbrigðum sínum með frásögnina af veikindunum með orðunum:

„Hvernig geturðu gert okkur þetta?“

Ég hefi lent í nákvæmlega sömu lífsreynslunni þótt ekki sé um þunglyndi að ræða.

Ég hafði verið í tilfinningalegum feluleik gagnvart umhverfi mínu allt mitt líf þegar varnirnar brustu og ég þurfti að leita leiða til að fá bót meina minna, gekk á milli sérfræðinga hér heima og erlendis og óskaði aðstoðar. Það var erfitt, ekki síst vegna þess að tilfinningar mínar voru ekki viðurkenndar á Íslandi á þeim tíma og viðbrögðin mörkuðust nokkuð af kunnáttuleysinu.

Er ég tjáði fólki ætlun mína, að ég ætlaði til Svíþjóðar að freista þess að fá aðstoð voru algeng viðbrögð þau að ég mætti alls ekki segja frá þegar heim væri komið að nýju, ég yrði að loka fortíðina niðri í rykföllnum geymslum minninganna. Eins og sumum ætti að vera kunnugt, gekk það fremur illa.

Við sem vorum að ganga í gegnum aðgerðarferlið í Svíþjóð á árunum 1992-1995 urðum illilega fyrir barðinu á fordómum þegar falskar grunsemdir vöknuðu um morðingja í okkar hópi. Öfugt við það sem ætlast var til, var forystufólk litla félagsins okkar fyrst af öllum til að hlaupa í felur og enginn var eftir úti að halda uppi vörnum fyrir málstað okkar.

Eftir að hafa tekið þátt í að gagnrýna gömlu stjórnina fyrir aðgerðarleysið árið 1994 þurfti ég sjálf að taka að mér formennskuna í félaginu og þegar enn ein fordómaárásin kom á okkur í blöðum skömmu eftir að ég tók við stjórnarformennskunni, komst ég ekki lengur hjá að verja málstað okkar í blöðum og sjónvarpi í Svíþjóð. Eftir það var sakleysi tilfinningalega feluleiksins fyrir bí.

Eftir að heim var komið árið 1996 var ég orðin nokkuð þekkt af endemum og þá fékk ég oft að heyra þessi sömu orð frá vinum og ættingjum:

„Hvernig gastu gert okkur þetta?“

Hjartahlý ráð þurfa ekkert að vera góð þótt sögð séu af hjartans meiningu með velferð þess sem talað er við í huga.


0 ummæli:







Skrifa ummæli