Mbl.is sagði frá handalögmálum tveggja ökumanna í umferðinni í Reykjavík á þriðjudag. Það mætti halda að slíkt væri einsdæmi, en svo er ekki þótt slíkt þyki vafalaust einsdæmi á Íslandi.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/31/tveir_okumenn_slogust/
Við lestur fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér er einn vinnufélagi minn í Stokkhólmi í Svíþjóð var á ferðinni í eftirmiðdagsumferðinni. Hann ók fram með bílaröð á vinstri akrein og skaust svo inn á milli bíla rétt áður en þrengdist niður í eina akrein á gatnamótum. Sá sem var næstur fyrir aftan hann þeytti flautuna af miklum ákafa og virtist láta öllum illum látum, en ekki skal ég fullyrða hvort vinnufélaginn hafi svarað með fingrinum. Félaginn hélt áfram, en á næstu gatnamótum á eftir var rautt ljós og ökumaðurinn sem taldi svínað á sér enn næstur fyrir aftan. Á ljósinu kom hann út úr bílnum óð að bíl vinnufélaga míns, reif upp hurðina hjá honum og stakk hann í magann með hníf. Síðan hljóp hann aftur inn í bílinn sinn og ók í burtu.
Særður félagi minn sem var nýlega búinn að fá sér fyrsta gemsann sinn elti hinn og hringdi jafnframt í lögregluna sem náði árásarmanninum en félaginn komst undir læknishendur. Sárið var sem betur fer ekki lífshættulegt og komst hann aftur til vinnu einhverjum vikum síðar. Árásarmaðurinn reyndist vera fertugur karl með tandurhreint sakavottorð og hlaut hann eitt ár á bakvið lás og slá.
Hvað skyldi þetta kenna okkur? Jú, maður á ekki að þeyta bílflautuna að óþörfu.
miðvikudagur, október 31, 2012
31. október 2012 - Ekki misnota bílflautuna!
31. október 2012 - Útflutningur á rafmagni
Oft hefur sú umræða
komið upp að rétt væri að banna útflutning á ferskum fiski, betra væri að
fullvinna hann hér heima og selja hann til útlanda í frosnum flökum eða
blokkum. Þetta væri allt ákaflega þarflegt og gott ef ekki væri fyrir þá sök að
iðulega fæst hærra verð fyrir nýjan óunninn kældan fisk á mörkuðum erlendis en
fyrir beingödduð flökin. Því hefur umræðan iðulega fallið um sjálfa sig þegar
reynt hefur verið að banna útflutning á ferskum fiski.
Það var verið að kynna nýja skýrslu um efnahagsástandið á Íslandi á
þriðjudaginn. Þar kom fram meðal annars að framleiðni Íslendinga er lægri á
vinnustund en víða annars staðar og sýnir svart á hvítu að langur vinnutími
leiðir af sér minni afköst. Var það ekki hjá BM Vallá þar sem afköstin jukust
einhverju sinni þegar verkamenn stóðu í kjarabaráttu og fóru í yfirvinnubann?
Nú hefi ég ekki kynnt mér McKinsey skýrsluna í neinum smáatriðum, einungis
heyrt af henni í fréttum. Þar virðist samt margt vera áhugavert, t.d. það að
menntun í tæknigeiranum á Íslandi er langt fyrir neðan aðrar þjóðir og það er
þegar orðinn skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi. Þá hafa launin haldið
fólki frá því að mennta sig á tæknisviði.
Eitt atriði í skýrslunni stingur samt í augun. Þar er því haldið fram að
útflutningur á rafmagni um sæstreng myndi auka hagvöxt. Ég fer að halda að þeir
hafi tekið mið af dæminu um óunna fiskinn hér að ofan er þeir sömdu skýrsluna.
Vissulega munu fást fleiri krónur fyrir hvert megavatt sem selt er til
Skotlands um sæstreng, en hvað mun það þýða í reynd? Um leið og kaplinum verður
stungið í samband í Skotlandi mun raforkuverð til neytenda á Íslandi stórhækka.
Sú uppbygging í iðnaði sem hefur þegar verið gerð á Íslandi mun stöðvast. Hið
einasta sem getur komið í veg fyrir kollsteypu í íslenskum iðnaði verða hugsanlega
rafmagnstöpin á leiðinni til Skotlands, því öfugt við óunna fiskinn mun
flutningurinn á óunnu rafmagni flytja vinnuna við að búa til verðmæta vöru frá
Íslandi til Skotlands eða annarra landa. Stundum getur nefnilega borgað sig að
halda rafmagninu heima og sjálf er ég lítt hrifin af umræddum sæstreng.
Þar er betur heima setið en af stað farið!
mánudagur, október 29, 2012
29. október 2012 - Stöðumælasektir
Facebookvinkona mín að
nafni Vigdís Hauksdóttir var með þarfa áminningu til okkar dauðlegra með því að
birta kröfu frá innheimtufyrirtæki einu í Reykjavík sem sent hafði
innheimtubréf til einstaklings sem hafði verið lýstur gjaldþrota og flúinn
land. Ekki ætla ég að tjá mig mikið um gjaldþrot þessa einstaklings né hvaða
úrræði eru í boði enda brestur mig vit til að tjá mig um slík mál. Hinsvegar
rifjaðist upp fyrir mér atvik frá Svíþjóðarárum mínum.
Ég var einhverju sinni á ferðinni hjá Stockholmsmässan í Älvsjö. Er ég
nálgaðist staðinn á bíl svipaðist ég um eftir einhverju skilti sem segði til um
greiðsluskyldu, en sá ekkert. Ég lagði síðan bílnum á risastóru bílastæðinu,
svipaðist um aftur eftir greiðslukassa en sá engan og hélt að því búnu inn í Stockholmsmässan
og var þar næstu tvo tímana. Þegar ég kom út aftur var kominn sektarmiði á
bílinn, krafa upp á heilar 700 sænskar krónur.
Ég fór í fýlu. Þegar ég fer í fýlu verð ég reið og þá verð ég óstöðvandi. Þegar
ég kom heim skrifaði ég bréf til einkafyrirtækisins sem sá um innheimtu
stöðumælasekta og mótmælti sektinni. Það breytti engu og í svarbréfi ítrekaði
fulltrúi fyrirtækisins að ég yrði bara að greiða sektina, annars færi hún í
innheimtu. Ég fékk svo bréf frá innheimtufyrirtækinu sem ítrekaði kröfuna á
hendur mér, annars færi hún í dóm. Ég mótmælti aftur og málið fór í dóm. Sektin
var felld niður með dómi. Í ljós kom að risastórt skilti sem sagði til um
stöðumælagjald hafði verið fjarlægt einhverjum dögum áður vegna endurnýjunar og
hafði ekki verið sett upp aftur er ég lagði bílnum á bílastæðinu.
Nokkrum dögum eftir að mér barst tilkynning um dóminn fékk ég bréf frá
innheimtufyrirtækinu þar sem mér var tilkynnt að ef ég greiddi ekki sektina mætti
ég búast við frekari innheimtuaðgerðum og jafnvel dómi. Ég tók upp símann og
hringdi í innheimtufyrirtækið. Röddin sem svaraði mér virtist tilheyra
einhverjum ungum uppskafningi sem þegar byrjaði að hóta mér í símanum eftir að
ég hafði borið upp erindið.
Ég svaraði með því að tilkynna uppskafningnum að ef ég heyrði nokkru sinni frá
honum aftur hvort heldur væri munnlega eða bréflega myndi ég kæra hann fyrir
fjárkúgun. Síðan hefi ég ekkert frá honum heyrt.
29. október 2012 - Um fjölbreytileika á vinnumarkaði
Á fyrstu árum nýrrar
aldar kom hópur ungra velmenntaðra karlmanna fram á sjónarsviðið. Flestir voru
þeir með svipaða menntun í alþjóðaviðskiptum frá erlendum háskólum og flestir
óku þeir um á svipuðum bifreiðum, fóru í líkamsrækt daglega og lifðu svipuðu
lífsmunstri að öðru leyti. Þeim græddist fé, þeir voru áhrifamenn í nýlega
einkavinavæddum bönkum og tækifærin blöstu við þeim. Risið varð hátt á örstuttum
tíma, en svo hrundi það á einni viku og eftir sat hnípin þjóð í vanda.
Við getum horft á mörg alþjóðafyrirtæki. Kodak sankaði að sér snillingum á
síðustu öld, en þegar stafræna byltingin hófst í myndum fylgdi fyrirtækið ekki
eftir þróuninni og það fór þráðbeint á höfuðið. Fyrir innan við tuttugu árum
kom Nokia með nýja tegund farsíma sem tóku öðrum fram og risið varð hátt, en
fallið jafnfram hátt þegar aðrir komu með android símana. Nú er Microsoft
sömuleiðis komið í vandræði eftir að það fylgdi ekki eftir þróuninni í
smátölvum og tók seint við sér.
Þetta síðasta var meðal þess sem Harry van Dorenmalen stjórnarformaður IBM
Europe talaði um á málþingi um atvinnumál transfólks í Dordrecht á dögunum.
Hann benti á að eitt hið hættulegasta í stjórnun fyrirtækja væri einhæfni
starfsfólksins og þá sérstaklega yfirmanna þeirra, oft hörkuduglegs og
velmenntaðs starfsfólks, en það er oft líkt hverju öðru. Hann benti á að IBM
hefði ráðið þeldökka konu sem einn framkvæmdastjóra sinna snemma á sjöunda
áratugnum og að þetta hefði verið stórt skref í þá átt að auka margbreytileika
starfsfólks á þeim tíma sem þeldökkir börðust fyrir réttindum sínum og áttu
erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum og þetta bætt fjölbreytileika
framleiðslunnar, hafi stóraukið hagnað fyrirtækisins auk þess sem það naut
jákvæðrar athygli í augum þeirra sem teljast til minnihlutahópa.
Síðan hefur margt skeð í heiminum. Hinir ýmsu minnihlutahópar verða æ meir
sýnilegir á atvinnumarkaði, konur, þeldökkir, múslímar, samkynhneigðir og
fleiri og fleiri, nú síðast transfólk. Af hverju á öll þróun að miðast við
jakkafataklædda hvíta unga og miðaldra karla? Við vitum hvernig íslensku
bankarnir fór þráðbeint á höfuðið þegar innviðirnir byggðust upp á slíkum
körlum sem miðuðu störf sín við sjálfa sig og þjónustu við aðra jakkafataklædda
hvíta unga og miðaldra karla.
Er ekki kominn tími til að galopna atvinnumarkaðinn fyrir
fjölbreytileika mannlífsins?
sunnudagur, október 28, 2012
28. október 2012 - Að spara í utanlandsferðum
Ég skrapp til útlanda um
helgina. Slíkt þykir kannski ekki í frásögur færandi, en að fara tvisvar til
útlanda á tveimur mánuðum fyrir skítblanka manneskjuna þætti kannski óþarfi.
Vissulega hafði ég farið til Írlands með viðkomu hjá frændfólki mínu nærri
Manchester í september, en þá sleppti ég því að fara á kráarrölt tvö kvöld af
þremur sem eytt var í Dublin og kom heim með nærri helminginn af evrunum sem ég
hafði ætlað til ferðarinnar. Nú sleppti ég því að fara í bankann þegar haldið
var til Hollands í þriggja daga ráðstefnuferð.
Ég ætlaði mér að kaupa lestarferðir fyrirfram í gegnum netið. Það reyndist
ómögulegt og ég kom til Schiphol í Hollandi með einungis 200€ í vasanum,
reyndar kortið til vara. Byrjaði á að kaupa mér farmiða á ódýrasta farrými með
næstu lest til Dordrecht þar sem ráðstefnan var haldin, gekk frá hótelinu í
ráðhús bæjarins þar sem haldin var móttaka fyrir ráðstefnugesti, en dauðþreytt
skreiddist ég á hótelið klukkan tíu um kvöldið. Morguninn eftir gengum við tvær
frá hótelinu á ráðstefnustaðinn og eyddum þar deginum, en gengum til baka um
kvöldið þar sem vinkonan fór heim með næstu lest, en ég hélt til baka á
hótelið.
Þriðja daginn notaði ég svo til að skoða mig um í Dordrecht, fékk mér steik á
veitingastað og einn eða tvo öl á eftir og kvöldinu eytt við tölvuna á
hótelinu.Síðan var haldið á flugvöllinn morguninn eftir með lestinni frá
Brussels til Amsterdam. Á flugvellinum keypti ég mér eina gos á meðan beðið var
eftir kalli út í vél og heim var haldið án þess að eyða neinum gjaldeyri sem
heitið gat.
Eftir að heim var komið taldi ég 120€ upp úr veskinu mínu.
Hver vill styrkja mig í næstu ferð þar sem reynt verður að bæta ástand
transfólks á Íslandi sem og í öðrum löndum? Ég hefi ekki efni á slíku enda
löngu komin á hausinn vegna félagsmálastarfa fyrir annað transfólk!
sunnudagur, október 21, 2012
21. október 2012 - Leggðu pinnið á minnið
Ég var að horfa á auglýsingu sem á að hjálpa fólki að
muna pinnnúmerið sitt. Til sögunnar var maður kallaður sem er fæddur sjöunda
dag mánaðarins, á þrjú börn og kvæntist eiginkonunni árið 98. Allt gott og
blessað. En þetta var bara eitt númer.
En nú vandast málið. Ég er nefnilega ekki með eitt fjögurra stafa númer sem ég
þarf að muna. Ég á þrjú bankakort og öll krefjast þau þess að ég muni sitthvert
fjögurra stafa pinnnúmerið. Svo þarf ég að muna fjögurra stafa pinnnúmer í
hvert sinn sem ég millifæri eða greiði úr heimabankanum. Svo verð ég að muna
pinnið til að komast inn á vinnustaðinn á kvöldin eða nóttunni og ég verð að
kunna einhver pinn til að afvirkja innbrotakerfi á mannlausum dælustöðvum sem
ég þarf að heimsækja öðru hverju.
Málinu er ekki lokið. Ég er nefnilega líka í félagsmálum og þarf að muna pinnnúmer
að reikningum félaga sem ég er í trúnaðarstörfum fyrir. Áður en varir er ég
búin að tæma listann af möguleikum og næst þegar ég þarf að slá inn pinnið
þegar posanum er otað að mér verð ég að reyna að muna hvort ég eigi að nota afmælisdag
systur minnar eða húsnúmerið heima hjá ritaranum.
Já, það er svo auðvelt að leggja pinnið á minnið, eða hvað?
21. október 2012 - Bráðum koma blessuð jólin
Það er rétt komið framyfir miðjan október. Samt hafa
jólaauglýsingarnar dunið yfir okkur að undanförnu með tilheyrandi jólastefum,
Jólagestir Björgvins, jólatónleikar
Frostrósa, Jólin allsstaðar og Baggalútur með jólalög. Jólin eru komin í IKEA
og seríurnar eru komnar í Garðheima. Ofan á allt saman keypti ég jólaóróa
ársins í byrjun september.
Það veitir kannski ekki af að byrja nógu snemma að undirbúa jólin. Nógu dýrir
eru miðarnir á alla þessa tónleika þótt vafalaust sé hægt að fá þá á innan við
sjö þúsund stykkið ef setið er aftast á efstu svölum og erfitt að sjá að
venjulegt fólk hafi efni á þeim nokkrum dögum fyrir jól til viðbótar við
jólahlaðborðin, jólaglögg og skötuna á Þorlák.
Þegar fólk er svo búið að steypa sér í skuldafen mepð jólatónleikum,
jólahlaðborði, jólagjöfum og jólaskreytingum koma loks blessuð jólin. Um leið
þagnar jólatónlistin sem hefur verið á fullu frá því um miðjan nóvember og
flugeldar keyptir fyrir síðustu möguleikana á VISA kortinu. Þegar síðustu
blysin hafa farið í loftið verður hamast við að rífa jólaskrautið niður því
ekki má neitt minna á jólin þegar kemur að þorranum. Reikningurinn fyrir
herlegheitin kemur svo í febrúar.
Ég veit ekki hvað ég geri í ár. Ég fer ekki á jólatónleika Baggalúts né á Frostrósir
eða Björgvin. Gæti reyndar átt það til að kíkja við ef Borgardætur halda sína
tónleika fyrir örfáar krónur á Rosenberg. Jólaskrautið fer upp í lok nóvember
og verður tekið niður aftur fyrir þorrann. Jólakortunum fer fækkandi og ég bæti
engum nýjum kortavinum við þetta árið. Til að fyrirbyggja gleymsku er kannski
vissara að ljúka kveðjunum af og óska þessum örfáu blogglesöndum mínum
gleðilegra jóla