Ég man eftir einum ágætum verkstjóra á næsta verkstæði við það sem ég var að vinna á fyrir einhverjum áratugum. Eitt sinn varð starfsmaður hjá honum fyrir því að klemmast alvarlega á hendi og úlnlið og leið hræðilega illa ef dæma mátti af sársaukaviðbrögðunum. Mikið fát greip verkstjórann og hann hóf að leita að einhverjum sem gæti keyrt hinn slasaða upp á slysadeild áður en einhver benti honum á að best væri að hringja beint í sjúkrabíl. Í framhaldi af kalli verkstjórans á sjúkrabíl komu fulltrúar frá lögreglu og Vinnueftirliti á staðinn og gerðu nauðsynlegar skoðanir og gerðu sína skýrslu.
Þetta atvik kom upp í hugann þegar ég heyrði af brunaslysi hjá veitingastofu KFC í Kópavogi á fimmtudagskvöldið.
Ekki ætla ég ásaka einn né neinn fyrir röngu viðbrögðin sem virðast hafa átt sér stað. Meginskýringin felst í ókunnugleika, ókunnugleika hverjum ber að tilkynna um slysið, en einnig ókunnugleika sem stafar af æfingaskorti. Hversu víða eru framkvæmdar neyðaræfingar á vinnustöðum á Íslandi? Hvernig hefðu vinnubrögðin orðið ef starfsfólkið á KFC hefði fengið nauðsynlega og rétta öryggisfræðslu er það hóf störf hjá fyrirtækinu? Hvað með öll hin fyrirtækin?
Hversu víða er til réttur búnaður á heimilum eða á vinnustöðum gegn brunaslysum, smáum eða stórum? Það eru vissulega víða til sjúkrakassar, en hversu víða eru til brunavarnarefni í sjúkrakössum, t.d. á veitingastöðum og annars staðar þar sem stöðugt er verið að bjástra með sjóðandi feiti og vatn?
Ég fullyrði að margir vinnustaðir og flest heimili séu án nauðsynlegs búnaðar gegn brunaslysum sem ættu þó að vera skylda á hverju heimili, sérstaklega þar sem börn eru. Þá er ég að tala um brunavarnarefni eins og BurnFree, BurnRelief og önnur slík efni og sem fást í flestum eða öllum apótekum.
Ég efast um að þessir fáu sem lesa bloggið mitt kíki í sjúkrakassann sinn og hlaupi svo út í apótek eftir nauðsynlegum efnum til að bæta öryggi barna sinna og annarra á heimilinu!
P.s. Það eru til ánægjulega undantekningar frá öryggisleysinu hjá nokkrum stórum vinnustöðum, t.d. hjá álverunum í Straumsvík og á Reyðarfirði auk OR og einhverra fleiri þar sem reynt er að minnka áhættuna eins og hægt er.
föstudagur, september 10, 2010
10. september 2010 - Röng viðbrögð við slysi?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:19
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli