sunnudagur, september 19, 2010

19. september 2010 - Gaffalbitar!

Ég var að hlusta á þáttinn Rokkland í útvarpinu þar sem rætt var við þrjá meðlimi hljómsveitarinnar Gildrunnar frá Mosfellsbæ. Ólafur Páll stjórnandi kvartaði eitthvað yfir fjarveru Þórhalls bassaleikara og var honum þá bent á að Þórhallur væri búsettur austur á Eskifirði og lögregluvarðstjóri þar.

Upp í hugann kom slæmt mál frá því snemma árs 1997 að aðkomumaður að norðan gekk berserksgang á Eskifirði og ók meðal annars gaffallyftara á lögreglubíl með tveimur mönnum innanborðs og velti honum. Báðir lögreglumennirnir í bílnum slösuðust, annar þó mun meira og var einhverja mánuði frá vinnu af þeim sökum. Gárungarnir voru fljótir að taka við sér og voru lögreglumenn staðarins kallaðir gaffalbitar á eftir.

Nokkru eftir þetta var ég stödd á balli á Eskifirði og hitti þar Þórhall lögreglumann þar sem hann hélt uppi lögum og reglu á ballinu og spurði hann auðvitað hvað hann væri að gera þarna, hvort hann ætti ekki að liggja stórslasaður í rúminu heima?
”Nei nei, það er hinn gaffalbitinn sem liggur slasaður heima!”


0 ummæli:







Skrifa ummæli