fimmtudagur, september 02, 2010

2. september 2010 - Voðaverk Kristjáns Möller

Ég er ekki sátt. Kveðja Kristjáns Möller til handa landsmönnum síðustu mínutur sínar í ráðherraembætti er eins og hnífur í bak friðarsinna og kann ég honum engar þakkir fyrir. Það má vel vera að nýfrjálshyggjuþrjótarnir sem seldu útsæðið úr eigin garði á Suðurnesjum og eru nú á hvínandi kúpunni með stuðningi innfæddra fagni innilega komu þessa málaliðafyrirtækis til Suðurnesja, en þeir verða vonandi einir um það.

Reyndar grunar mig að ekki muni líða langur tími uns Suðurnesjamenn sjái einnig þvílíkan harmleik er verið að framkvæma með þessu glapræði og sjálf vona ég að jafnaðarmenn losi sig við fráfarandi samgönguráðherra úr liði sínu svo fljótt sem verða má eftir þessi svik við jafnaðarstefnuna og friðarvonir í heiminum.

Það er fleira sem gerir mig ósátta við ríkisstjórnina. Ég er ósátt við brotthvarf Rögnu Árnadóttur úr ríkisstjórn. Það má vera að einhverjum þyki sem sæti Ögmundar Jónassonar í ríkisstjórn sé málamiðlun svo hægt sé að skapa frið meðal VG. Þeir sem halda slíkt vaða villu og reyk. Fyrsta merki hins nýja klofnings meðal kattanna í VG er þingsályktunartillaga Ásmundar Einars gegn samningaviðræðunum um Evrópusambandið.

Einhvern veginn fæ ég á tilfinninguna að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé í andarslitrunum nema til komi nýr stuðningur úr öðrum áttum en frá VG.

Því miður.


0 ummæli:







Skrifa ummæli