miðvikudagur, september 08, 2010

8. september 2010 - Lýður Oddsson

Jón Gnarr er snillingur á sínu sviði. Það þarf ekki að grafa lengi til að sjá að hann var á réttri hillu sem leikari hvort heldur er í sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum og auglýsingagerðarmaður er hann af Guðs náð. Hver man ekki eftir Júdasi í frægum auglýsingum frá Símanum eða þá Lýð Oddssyni lottóverðlaunahafa? Þá má ekki gleyma Georg Bjarnfreðarsyni sem er með fimm háskólagráður frá Uppsala Universitet. Með öllum þessum hlutverkum hefur Jóni Gnarr tekist að ávinna sér sess í hjörtum íslensku þjóðarinnar svo eftir er tekið.

Það gerir ekki málin verri að Jón Gnarr var tengdasonur hins ágæta Jóhanns Gíslasonar, eins skemmtilegasta vélstjóra sem siglt hefur á skipum Eimskipafélags Íslands og var þar yfirvélstjóri í fjölda ára, en hann lést snögglega síðastliðið vor nokkru fyrir kosningarnar.

Nú má greina slæman afturkipp á íslenskum auglýsingamarkaði. Jón Gnarr hefur haslað sér völl á nýjum vettvangi. Vafasamar auglýsingar hafa heltekið auglýsingatímana þar sem Steindi sýnir sínar verstu hliðar og Síminn lætur þekkta leikara drekka bensín af stút eins og sælgæti væri. Á sama tíma felst bætt hverfalýðræði í því að trésmiður í vesturbæ Reykjavíkur og fallkandídat í borgarstjórnarkosningum er gerður að formanni hverfarás Árbæjar og annar fallkandídat, sá úr Skerjafirðinum, er gerður að formanni hverfaráðs Kjalarness. Þá eru gjaldskrár borgarfyrirtækja miskunnarlaust hækkaðar af slíku miskunnarleysi undir stjórn Besta flokksins að verstu handrukkarar blikna í samanburði.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að bæði íbúar Reykjavíkur og auglýsinga- og skemmtanamarkaðurinn hafi þurft að líða fyrir þessi vistaskipti Jóns Gnarr.


0 ummæli:







Skrifa ummæli