miðvikudagur, september 15, 2010

15. september 2010 - Skýrslan!

Nú er skýrsla Vistheimilanefndar um Reykjahlíð komin út. Ég efa það ekki að nefndin hafi unnið störf sín af kostgæfni og gert sitt besta til að sannleikurinn kæmi fram, en það er ekki alltaf nóg. Það er auðvelt að beita fólk þrýstingi svo ekki sé talað um að freista þess með mögulegum peningum. Í þessu ljósi verður að skoða skýrslur sumra þeirra aðila sem gáfu skýrslu fyrir Vistheimilanefnd, ekki síst þeirra aðila sem gáfu skýrslu eftir að farið var að tala um bætur í formi peninga.

Sjálf var ég á barnaheimilinu frá því snemma vors 1959 til hausts 1963 og átti þarna bestu stundir æsku minnar. Barnaheimilið að Reykjahlíð var heimili mitt á meðan ég ólst þar upp og þótt dvöl mín hafi ekki verið eilíf sæla, er ég sannfærð um að ævi mín hefði orðið öllu verri hefði ég alist upp hjá foreldrum mínum í sárri fátækt við vondar aðstæður í Reykjavík.

Þegar Rósa Svavarsdóttir kom fyrst fram í fjölmiðlum með ásakanir áhendur Sigríði Jónsdóttur og Ara Maronssyni (1911-1966) gaf hún mjög sterklega í skyn að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hans hálfu og að hún og stöllur hennar hefðu orðið að festa sig við rúmstokkinn með beltum svo þeim yrði ekki rænt af Ara heitnum. Nú er ekki lengur talað um að festa sig við rúmstokkinn heldur er frásögnin orðin að belti og axlaböndum.

Reyndin er þessi. Stelpunum þótti Ari býsna stór og ruddalegur sem hann virkilega var. Og oft angaði hann af áfengi er hann kom í heimsókn þótt forstöðukonan byrjaði á að loka hann inni ef hann kom í þessu ástandi. Einn strákur á heimilinu sem er um sjö árum eldri en Rósa, skrökvaði því að stelpunum að Ari ætti það til að ræna litlum stelpum og stinga af með þær. Hann ráðlagði þeim því að festa sig með beltum við rúmstokkinn svo Ari gæti ekki náð þeim. Nú er þetta orðið að belti og axlaböndum.

Sjálfri fannst mér Ari leiðinlegur. Hann forðaðist krakkana, drykkfelldur og var fremur þumbaralegur í framkomu, ekki ósvipuð manngerð og Gunnar Huseby, en vei mér ef þessir menn hefðu nokkru sinni lagt hönd á börn. Nei, þeir voru frekar af þeirri gerðinni sem forðaði sér frá börnum.

Rósa hélt því fram í sjónvarpsviðtali að einhver sextán ára stelpa hefði verið send til vistunar í Reykjahlíð og sú hefði kennt henni að stela. Skrýtið! Ég var í Reykjahlíð á sama tíma og ég man ekki eftir neinni þjófóttri sextán ára stelpu sem hafði verið send þangað. Börn voru venjulega send í burtu þegar þau voru sextán ára, ekki öfugt. Einustu tilfellin sem börn voru á heimilinu eftir fimmtán ára aldur voru þegar börn ólust upp á barnaheimilinu og voru einfaldlega ekki farin þaðan. Á mínum tíma voru aðeins tvö börn þarna sem þetta átti við um, bæði strangheiðarleg og bindindissöm.

Allt tal Rósu um miða í rútuna sem hún hélt fram öðru sinni í sjónvarpi á miðvikudagskvöldið er bull. Krakkarnir í sveitinni notuðu enga miða í rútuna. Skólataskan var nægur farareyrir. Börn á leið í og úr skóla fóru einfaldlega í rútuna og fengu sér sæti.

Sigríður forstöðukona frá 1961 fær slæma dóma í skýrslunni. Nokkur börn eru neikvæð í hennar garð, þá helst Rósa Svavarsdóttir. Ég minnist hegðunar Sigríðar ekki sem harkalegt, heldur sem ákveðið. Hún lét ekkert vaða ofan í sig og þarf að svara fyrir það í dag hátt í hálfri öld síðar.

Ég ætla ekki að halda því fram að allt hafi verið fullkomið í Reykjahlíð, en það ágæta barnaheimili var eins fullkomið og efni og aðstæður gátu leyft því að vera.

Eftir að farið var að tala um bætur var auðvelt að fá fólk til að tala illa um æskuheimili mitt. Mitt í skýrslutökunum samþykkti Alþingi að greiða börnunum bætur. Þá var að vísu orðið of seint fyrir mig að sækja um bætur þar sem ég hafði tjáð mig opinberlega um heimilið áður, en ég hefði alveg getað hugsað mér að fá sex milljónir í bætur fyrir það ranglæti sem örlögin í formi foreldra sem þótti brennivínið gott, ollu mér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli