þriðjudagur, september 07, 2010

7. september 2010 - Jenis av Rana

Jenis av Rana er starfandi heimilislæknir í Færeyjum, formaður Miðflokksins á Straumey og áhrifamaður í sértrúarsöfnuði þar. Hann hefur nú gert okkur þann heiður að neita að sitja kvöldverðarboð til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur og eiginkonu hennar Jónínu Leósdóttur.

Þótt mér þyki miður að Jenis av Rana skuli hafa verið boðið í svo gott boð sem með þeim Jóhönnu og Jónínu, þá fagna ég því að hann skuli hafa afboðað sig við umrætt boð. Hann hefur ekki aðeins barist hatrammlega gegn mannréttindum í Færeyjum, heldur hefur hann og brotið gegn færeyskum barnaverndalögum sem kveða á um upplýsingaskyldu fólks sé brotið gegn þeim. Í því dæmi sem ég hefi heyrt um, ákvað hann að vernda söfnuð sinn gegn upplýsingaskyldunni er hann komst að því árið 2006 að fjölskyldufaðir hefði gert sig sekan um kynferðisofbeldi gegn dóttur sinni. Hann hafði ekki samband við yfirvöld sem honum bar lögum samkvæmt að gera og stóð auk þess með föðurnum gegn kæru dótturinnar gegn honum.

Að slíkum viðbjóði af manneskju skuli vera boðið að sitja til borðs með forsætisráðherra okkar er móðgun við íslenska þjóð, en sem betur fer hafnaði hann sjálfur boðinu.

Daginn sem færeyska þjóðin losar sig við öfgamann sem Jenis av Rana úr sviðsljósi stjórnmálanna verður stór dagur fyrir mannréttindabaráttu fólks um allan heim.


0 ummæli:







Skrifa ummæli