sunnudagur, september 05, 2010

5. september 2010 - Af klaufaskap biskups

Gunnar Sigurjónsson prestur tjáði sig um starf biskups í sjónvarpsfréttum í kvöld, taldi orð hans klaufaleg en ekki svo að ástæða væri fyrir hann að segja af sér. Ég er sammála Gunnari um að biskup sé enginn sökudólgur í kynferðisbrotamálum meðal kirkjunnar þjóna. Klaufaskapur er hinsvegar réttlæting fyrir kröfu um afsögn.

Biskup tjáði sig ákaflega klaufalega í sjónvarpsviðtali um daginn um kynferðisbrotamál forvera síns í embætti og það er ekki nógu gott. Hann reyndi að sigla á milli skers og báru þegar nauðsynlegt var að taka skýra afstöðu gegn kynferðisafbrotum í þeim tilgangi að vernda látinn kollega sinn. Sá sem gegnir æðsta trúarlega embætti landsins verður að kunna skil á réttu og röngu og því brást biskup í þetta sinn. Það er um leið tæplega ástæða fyrir úrsögnum úr þjóðkirkjunni að fjölmiðlar hafi lagt kirkjuna í einelti eins og sá ágæti guðsmaður Örn Bárður Jónsson orðaði svo skemmtilega í messu sunnudagsins. Ástæðan er miklu fremur umræðan á Facebook og sú hjarðhegðun sem þar á sér stundum stað.

Eins og gefur að skilja var ekki búið að finna upp Facebook árið 1996 þegar síðustu fjöldaúrsagnir voru úr þjóðkirkjunni og sjálft netið reyndar enn að slíta barnsskónum. Þegar ofbeldisverk fyrrum biskups komust í hámæli öðru sinni fjórtán árum eftir hið fyrra hafði margt breyst í netheimum og auðvelt að kalla saman þjóðfund án atbeina fjölmiðla. Afleiðingin varð að fjöldaúrsögnum úr þjóðkirkjunni án þess að kirkja eða formlegir fjölmiðlar hefðu nokkuð um slíkt að segja.

Um það má svo deila hvort kirkjan verði nokkuð bættari með afsögn biskups þegar haft er í huga að einn þeirra sem stundum eru kallaðir svartstakkar er einmitt staðgengill biskups og vígslubiskup, séra Sigurður Sigurðsson í Skálholti.


0 ummæli:







Skrifa ummæli