þriðjudagur, september 14, 2010

14. september 2010 - Um Landeyjahöfn

Ein ástæða þess hve illa hefur gengið að byggja upp Vestmannaeyjar að nýju eftir gosið 1973 eru samgöngurnar. Fólk sem var sífellt sjóveikt eða flughrætt átti mjög erfitt með að búa í Eyjum svo ekki sé talað um ef það leið sömuleiðis af innilokunarkennd á lítilli eyju þótt hátt sé til loft og glæsileg sýn til sjávar og fjalla. Ég er ekki viss um að þröng göng á sprungusvæði með hættu á eldgosum og jarðhræringum hefði hjálpað mikið upp á.

Með tilkomu Landeyjahafnar og þess mikla árangurs sem fyrstu vikurnar af Landeyjahöfn báru með sér, er ljóst að Landeyjahöfn er það sem koma skal. Með einungis rúmlega hálftíma ferð á milli lands og Eyja á Herjólfi ná þeir sem verst eru haldnir af sjóveiki vart að verða sjóveikir nema þá í haugabrælu.

Þessir byrjunarerfiðleikar sem há ferjusiglingum á milli lands og Eyja munu vonandi heyra sögunni til, kannski ekki strax, en alveg örugglega innan nokkurra ára. Sjálf er ég farin að hlakka til að geta skroppið dagsferð til Eyja þegar mér sýnist rétt eins og að skreppa vestur á Snæfellsnes eða á næsta fjall.

Það má vel vera að nauðsynlegt verði að lengja hafnargarðana eða gera einhverjar þær framkvæmdir sem koma í veg fyrir sandburð fyrir hafnargarðinn eins og hefur verið undanfarnar vikur, en til þess eru vandræðin að læra af þeim og gera betur næst.

Þá er ég sannfærð um að eftir að þessum byrjunarerfiðleikum lýkur, muni mannlífið í Eyjum blómstra sem aldrei fyrr og að Eyjamenn geti sannanlega haldið áfram að telja ”Norðurey” sem stærstu eyjuna í Vestmannaeyjum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli