laugardagur, september 29, 2007

29. september 2007 - Um Estonia

Í gær voru liðin 13 ár frá slysinu hræðilega þegar Estonia fórst á Eystrasalti á leið sinni frá Tallinn til Stokkhólms og 852 manneskjur fórust. Nokkrum dögum áður hafði ég verið um borð í gamalli rússneskri ferju á leið til Riga og langaði til að prófa að fara með þessu glæsilega skipi sem blasti við er við héldum úr höfn frá Stokkhólmi.

Allt var til að minna mig á þennan hræðilega atburð. Áður en ég hélt til Riga þurfti ég að sækja mér nýtt vegabréf á lögreglustöðina í Jakobsberg. Konan sem afgreiddi mig og sem ég var ágætlega málkunnug, eftir að hún hafði tvisvar þurft að taka af mér lögregluskýrslu vegna þess að brotist hafði verið í bílinn minn, sagði mér frá því að hún væri að fara í ráðstefnuferð til Eistlands eftir nokkra daga með Estonia. Ekki man ég lengur nafn hennar, en hún fórst með skipinu.

Erfiðasta minningin er þó kannski sú að ég var komin heim frá Eystrasaltslöndum og á fyrstu næturvakt eftir ferðina góðu og hafði gengið túrbínueftirlitið um nóttina. Er ég kom upp í stjórnstöð eftir hringinn og inn í setustofu þar sem menn höfðu verið að horfa á spennandi kvikmynd á myndbandi, sátu þeir nokkrir og sögðu ekki orð, en gláptu stórum augum á sjónvarpið og textaræmuna sem gekk niður eftir skjánum. Þetta voru fyrstu fréttir af Estoniaslysinu.

-----oOo-----

Fyrir nokkrum dögum síðan drukknaði maður sem var tengdur fjölskyldu minni í Soginu. Slysin gera ekki boð á undan sér.

föstudagur, september 28, 2007

28. september 2007 - Miriam Rose

Ég hefi á stundum gert góðlátlegt grín að dansflokknum Seifing Æsland og aðgerðum þeirra. Mér finnst það þó lélegt þegar yfirvöld ætla sér að beita tvöfaldri refsingu gagnvart ungri stúlku sem hefur ákveðið að setjast hér að.

Þegar Miriam Rose var dæmd til greiðslu sektar og sat síðan af sér dóminn fyrir verk sín gagnvart Alcan og fleiri fyrirtækjum var það endanlegur dómur fyrir ákveðinn verknað. Um leið og hún kom út eftir að hafa setið dóminn af sér var hún laus allra mála. Verknaður hennar taldist ekki svo svívirðilegur að henni væri vísað úr landi með dómi.

Ég get ekki séð að stúlkan hafi gert neitt það eftir fangavistina sem veldur því að það beri að vísa henni úr landi. Að auki hefur hún sjálf lýst því yfir að ekki standi til að taka þátt í fleiri aðgerðum af því tagi sem Seifíng Æsland stóð fyrir í sumar. Þar með er íslenskri réttlætiskennd og dómvenju fullnægt. Það er engin ástæða til frekari aðgerða. Að ákveða núna að vísa henni úr landi verður því einungis að skoðast sem hefnd yfirvalda pólitísk ákvörðun og mun efalaust auka á vantrú almennings gagnvart ríkisvaldinu verði kröfunni framfylgt.

Hvað um betrunarstefnu stjórnvalda?

fimmtudagur, september 27, 2007

27. september 2007 - Ein lítil ljósapera


Það fór framljósapera í bílnum hjá mér fyrir nokkru síðan. Það var komið myrkur og rigning úti svo að þegar ég kom inn á bensínstöð, fékk ég mér kaffisopa á meðan starfsmaður skipti um peruna. Hann var eldsnöggur að verkinu og lipur. Greinilega toppþjónusta á þessum stað.

Fljótlega eftir þetta fékk ég á tilfinninguna að framljósin væru vanstillt. Þegar ég var á ferðinni í gær notaði ég því tækifærið og kom við í skoðunarstöð og bað skoðunarmanninn um að athuga ljósastillinguna hjá mér. Það var auðsótt mál og þegar ég hafði opnað vélarlokið kom hið sanna í ljós. Peran hafði verið þvinguð öfug í og sat alls ekki eins og hún átti að gera og fyrir bragðið lýsti framljósið meira upp en niður. Það tók hálfa mínútu að snúa perunni og koma henni fyrir á réttan hátt og prófa stillinguna og ég gat ekið í burtu í góðu skapi og án þess að eiga á hættu að fá kvartanir frá Flugmálastjórn.

Skoðunarmaðurinn sagði mér að þetta væri algengt að perurnar færu vitlaust í við þessar aðstæður, þ.e. þegar óreyndir starfsmenn á bensínstöðvum skiptu um perur í bílum hjá viðskiptavinunum. Það kom mér ekkert á óvart.

miðvikudagur, september 26, 2007

26. september 2007 - Eftirlit með ströndum?


Reglulega berast okkur sauðsvörtum almúganum fréttir af fíkniefnaneyslu fanga á Litla-Hrauni, smygli á fikniefnum þangað inn og viðurlögum við slíku athæfi. Þessar fréttir virðast stundum vera dálítið fjarlægar ekki síst í ljósi þess að Litla-Hraun ætti eðlis síns vegna og einangrunar frá samfélaginu að vera sá staður á Íslandi sem er helst laus við slíkan ófögnuð sem fíkniefnin eru. Ónei, ekki aldeilis. Ef marka má fréttirnar er allt á kafi í dópi og vímu þar inni.

Nú vill dómsmálaráðherra herða eftirlitið með ströndum landsins. Forstjóri Landhelgisgæslunnar vill koma á ratsjáreftirliti meðfram ströndum til að fylgjast sem nákvæmast með öllum skipaferðum og ýmsir hafa á orði að auka þurfi eftirlitið í höfnum og á flugvöllum til að tryggja að ekkert dóp komist til landsins, allt í krafti þess að yfirvöld fundu mikið magn af fíkniefnum og náðu glæponum í stað þess að koma í veg fyrir smyglið frá upphafi. En gaman. Þetta fer að minna æ meira á gamla Sovétið.


Í gegnum hugann rifjast gömul ævintýri frá siglingum til Sovétríkjanna sálugu. Þegar nálgast var ströndina sást hvar öflugir ljóskastarar lýstu upp sjóinn utan strandarinnar til að tryggja að óvinurinn kæmist ekki að ströndinni (eða var það til að tryggja að engir flóttabátar kæmust frá ströndinni í skjóli myrkurs?). Eftir að hafa eytt dögum og jafnvel vikum á ytri höfninni undir stöðugu eftirliti tók strangt vegabréfaeftirlit og könnun á fjármunum. Það var svo ekki fyrr en við brottför að virkileg leit hófst auk þess sem leitað var í farmi. Þá var eins gott að gera grein fyrir þeim fjármunum sem höfðu tapast meðan á dvöl í höfn stóð og alls ekki játa að hafa skipt í rúblur á svörtum markaði. En það er önnur saga.
(Í draumum mínum sé ég ljóskastarana lýsa upp strendur Íslands í leit að dópinu. Það styttist stöðugt í framtíðardrauminn um Sovét-Ísland.)


Áhöfn skips þar sem ég var þekkti til í gamla daga var lögð í einelti af þáverandi Tollgæslustjóra. Tollverðir fengu stöðugt ný fyrirmæli um aukna hörku í samskiptum sínum við hina stórhættulegu áhöfn skipsins og urðu að hlýða hvað sem raulaði eða tautaði. Þrátt fyrir ótrúlega fjármuni sem varið var í leit í skipinu fannst sjaldan neitt. Kannski ein og ein flaska sem einhver hafði reynt að fela innanklæða eða á milli þilja en fátt meira. Einn góðan veðurdag mátti svo lesa í dagblöðum að áhöfnin hefði smyglað fleiri þúsund flöskum af áfengi í land fyrir framan vökul augu embættismanna ríkisins.

Við getum hert allt eftirlit með gífurlegum kostnaði. Við getum byggt múra og elt hvert einasta skip og hverja einustu flugvél sem kemur til landsins. Fikniefnasmyglarar munu samt halda áfram að smygla til landsins rétt eins og að vonlaust virðist vera að koma í veg fyrir smygl inn á Litla-Hraun.

Er ekki gáfulegra að reyna að minnka eftirspurnina með fræðslu og áróðri í stað þess að setja alla þjóðina í hlekki á bak við múra?

þriðjudagur, september 25, 2007

25. september 2007 - II - Enn um fágaða framkomu.

Í bókaskápnum mínum er gömul bók, árituð af höfundi sem kom til Íslands haustið 1986 er bókin kom út á íslensku. Hún heitir Niðurlægingin (Ganz unted) eftir þýska rithöfundinn Günter Wallraff og fjallar bókin um reynslu hans er hann lék tyrkneska verkamanninn Ali í Vestur-Þýskalandi og hvernig farandverkamennirnir frá Tyrklandi voru niðurlægðir á þýskum vinnumarkaði á áttunda og byrjun níunda áratugarins. Allar götur síðan bókin kom út í Þýskalandi árið 1985 (og Íslandi 1986) hafa frásagnir bókarinnar verið dregnar í efa. Sjálf las ég bókina með gagnrýnum hætti án þess þó að afneita þeim frásögnum sem þar birtust.

Það hefur löngum verið þekkt að fólk með mikla tjáningarhæfileika taki að sér hlutverk fólks sem gengið hefur í gegnum marga hluti í lífinu. Þar er kannski Hollywood skýrasta dæmið, en margar kvikmyndir sem þar hafa verið gerðar fjalla um raunverulega lífsreynslu fólks

Við vitum það vel að andlit sem segja frá eru miklu áhrifaríkari en einföld auglýsing í blaði. Því er nauðsynlegt til að bók komist á metsölulista, að einhver túlki sögupersónuna. Það þarf ekki að vera hún sjálf. Það er nóg að kalla til fulltrúa hennar sem tekur að sér að túlka hana á lifandi hátt.

Ég fæ á tilfinninguna við lestur athugasemda fólks við fyrri pistil að sumir telji mig vera að véfengja þær sögur sem sagðar eru í bókunum sem fjallað er um. Það er ekki rétt og kemur auk þess ágætlega fram í pistlinum. Um leið finnst mér full ástæða fyrir fólk að éta ekki allt hrátt sem því er sagt og vera dálítið gagnrýnið á það sem ber fyrir augu þess. Sjálf hefi ég ekki véfengt reynsluna sem fram kemur í bókunum sem um er rætt, einungis hina leikrænu tjáningu fólksins sem lýsti sögunum í útvarpi og sjónvarpi nánast eins og sögumenn sem skapaði örlítinn efa hjá mér um persónurnar sem birtust á sjónvarpsskjánum.

Það var ekki Elizabeth drottning sjálf sem túlkaði sig í kvikmyndinni The Queen, heldur fékk Helen Mirren það erfiða hlutverk og tókst svo snilldarlega að haft var á orði að hún væri líkari drottningunni en drottningin sjálf. Sagan um Díönu prinsessu var samt jafn hjartnæm og þótt drottningin sjálf hefði leikið sjálfa sig.

Um orð "Magna" sem birtust í athugasemdum á Moggabloggi hirði ég ekki. Þau dæma sig sjálf og bera höfundi þeirra gott vitni.

25. september 2007 - Of fáguð framkoma?


Ég kannast við mann sem hefur lent í skelfilegu sjóslysi. Þetta er ákaflega prúður maður og í alla staði hinn þægilegasti viðkynningar. En hann talar helst aldrei um erfiða lífsreynslu sína. Nýlega komst ég að því að fyrrum vinnufélagar hans vissu ekki einu sinni af hinni skelfilegu lífsreynslu kunningja míns.

Ég varð agndofa er ég heyrði lýsingar ungs þeldökks manns á voðaverkum þeim sem hann framdi er hann var yngri í Afríkuríkinu Sierra Leone sem barnahermaður. Þar sem ég sat í sjónvarpssófanum fannst mér óraunverulegt að horfa á unga manninn á skjánum lýsa biturri lífsreynslu sinni með jafnaðargeði á nánast óaðfinnanlegri ensku. Um leið var sagt frá nýútkominni bók um þessa lífsreynslu unga mannsins. Hann var ekki sá fyrsti.

Í fyrra minnir mig að ung þeldökk stúlka hafi lýst reynslu sinni í sjónvarpi er hún var innilokuð ásamt fáeinum öðrum konum og gátu þær sig hvergi hrært svo vikum skipti, vitandi að utan við dyrnar beið ekkert annað en nauðgun og dauði. Stúlkan lýsti biturri lífsreynslu sinni með jafnaðargeði og fágaðri framkomu. Svo var sagt frá nýútkominni bók.

Ef mig misminnir ekki var sagt frá ungri þeldökkri stúlku fyrir tveimur árum, stúlku sem var þvinguð til að giftast fullorðnum frænda sínum í Sómalíu, en náði að flýja og gerðist fyrirsæta. Hún kom sömuleiðis mjög vel fyrir og svaraði spurningum með jafnaðargeði og svo fylgdi bók í kjölfarið.

Ég gæti ekki gert þetta. Ef ég hefði gengið í gegnum álíka lífsreynslu og þetta ágæta fólk væri ég sennilega taugahrúga það sem eftir væri ævinnar, kannski eins og þýski kafbátavélstjórinn úr heimsstyrjöldinni síðari sem ég heyrði af og sem fór síðar yfir á sænskt flutningaskip. Hann þurfti að nota bleyju þegar hann svaf því hann pissaði alltaf undir í martröðum minninganna. Hann forðaðist að tala um stríðið við skipsfélaga sinn sem sagði mér frá honum rétt eins og kunningi minn sem áður er sagt frá. Þá má ekki gleyma Breiðavíkurdrengjunum sem brotnuðu í beinni er farið var að ræða öllu vægari lífsreynslu þeirra í æsku, jafnvel sá harðsvíraðasti í hópnum.

Þarna mætir ungt fólk í blóma lífsins í íslensku sjónvarpi, gullfallegt fólk með nánast óaðfinnanlega framkomu, allt komið frá svörtustu Afríku, talar nánast lýtalausa ensku og segir frá skelfilegri reynslu bernskunnar með jafnaðargeði og allt að leikrænum tilburðum. Ég ætla ekki að véfengja reynsluna sem þetta fólk er að lýsa, en einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að þetta séu allt leikarar. Reynslan sé einhverra sem eru ófær um að tjá sig svona stórkostlega.

mánudagur, september 24, 2007

24. september 2007 – Konur með yfirvaraskegg og ....


... karlar án skeggs. Vorið 2005 kom út bókin Women with mustaches and Men without Beards: Gender and Sexual Anxieties of Iranian Modernity.

Góður vinur gamla Ayatollah Khomeini var transsexual karl, þ.e. fæddur sem kona en fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni í Englandi ef mig misminnir ekki. Ekki man ég nafnið á transsexual karlinum, en með tilvera hans og bætt lífsgildi að loknum aðgerðum sannfærðu Khomeini um að aðgerðir til leiðréttingar á kyni ætti rétt á sér. Síðan þetta var hafa margir samkynhneigðir karlar bjargað lífi sínu með því að leggjast undir hnífinn og breytt sér í konur. Þetta er þó skammvinn lausn fyrir samkynhneigða karla sem vilja njóta lífsins sem karlar með körlum. Því eru slíkar kynskiptaaðgerðir hrein martröð fyrir samkynhneigða karla. Ekki er það til að bæta úr að íranskir læknir eru ekkert sérlega færir í slíkum aðgerðum og gera venjulega meira ógagn en gagn.

Ég pantaði bókina í sumar og fékk eftir nokkra daga. Ég var þá með of margar bækur hálflesnar á náttborðinu mínu og því byrjaði ég á að lána hana til samverkafólks míns innan Verndarvættanna, samstarfshóps Amnesty um mannréttindi samkynhneigðra þar sem bókin gengur á milli fólks sem eru venjulega agndofa á slíkum pyntingum sem að þvinga fólk sem ekki er transgender eða transsexual að fara í kynskiptaaðgerð.

Bókin fæst hjá Amazon og kostar 16.96 $ auk sendingarkostnaðar

Fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í starfi Verndarvættanna, samstarfshóps Amnesty um mannréttindi samkynhneigðra er hvatt til að hafa samband við Írisi Ellenberger: ie@amnesty.is

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1293164

föstudagur, september 21, 2007

21. september 2007 - Smyglað á Fáskrúðsfirði!


Í þá gömlu góðu daga þegar millilandaskipin komu við á ströndinni á ferðum sínum til og frá útlöndum, þótti sjálfsagt og eðlilegt að hafa tollverði starfandi á helstu viðkomustöðum þegar komið var frá útlöndum, ekki síst þegar haft var í huga að erfitt var að nálgast drykkinn görótta víða á landsbyggðinni. Þessir menn voru misjafnir eins og fólk er flest og sumir sem tóku starf sitt með meiri áhuga en aðrir, þar á meðal Herbert á Akureyri og tollvörðurinn á Fáskrúðsfirði. Ekki man ég hvað hann hét, en við skulum kalla hann Friðrik. Friðrik var reglusamur og uppfullur af gömlum ungmennafélagsanda og því lítt hrifinn af drykkjuskap og svalli.

Friðrik hafði það fyrir sið að standa við landganginn á meðan skipin lágu í höfn og fylgjast með allri umferð að og frá skipi og því hvort einhverjir væru að laumast frá borði með bokku innanklæða. Einhverju sinni sá hann hvar einn skipverja gekk niður landganginn og stillti sér upp á bryggjunni neðan við stefni skipsins, en annar skipverja fór fram á bakkann með bjórkassa. Sá kastaði bjórkassanum niður til drengsins sem stóð á bryggjunni, hann greip kassann fimlega og hljóp af stað upp bryggjuna. Friðrik hljóp af stað á eftir drengnum og í gegnum allt þorpið. Þótt drengurinn væri áratugum yngri en Friðrik, var sá gamli enn uppfullur af ungmennafélagsanda og náði drengnum á endanum utan þorpsins. Reyndist bjórkassinn vera tómur. Meðan á þessu stóð fór mikil sala á áfengi fram um borð í skipinu.

Í öðru tilfelli stóð Friðrik plikt sína við landganginn á meðan bát var róið að útsíðu skipsins og áfengið afhent í gegnum kýrauga í skjóli myrkurs.

Ekki tókst alltaf jafnvel að plata þann gamla. Eitt sinn var skipið farið og tveir ungir aðkomumenn settust á tröppur húss til að kasta mæðinni og létu flöskuna ganga á milli sín og grobbuðu hátt um hvernig þeir hefðu platað helvítis tollvörðinn. Skyndilega kom hendi aftanfrá og greip flöskuna af þeim. Var þar Friðrik sjálfur mættur utan við sínar eigin útidyr á náttklæðunum einum fata.

Frásagnir birtar með fyrirvara um nákvæmni sagnanna.

fimmtudagur, september 20, 2007

20. september 2007 - II - Ég skal kenna ykkur að smygla...

.... sagði miðaldra maður sem kom eitt sinn í heimsókn um borð til okkar þar sem við lágum í höfn í Bandaríkjunum. Skipstjórinn okkar hló að gestinum og spurði hvað hann gæti kennt okkur, dæmdur maðurinn fyrir stærsta áfengissmygl Íslandssögunnar eftir fræga ferð með Ásmundi til Belgíu haustið 1967.

Reynsla þessa manns flaug í gegnum huga mér er ég fylgdist með sexmenningunum sem héldu blaðamannafund í morgun skreyttir eins og sex jólatré. Á blaðamannafundinum fluttu þeir okkur hálfkveðna vísu um fíkniefnasmygl sem komist hefði fyrir á hálfu A4 blaði. Til hvers allt þetta umstang löngu áður en öll kurl eru komin til grafar? Hefði ekki verið nóg að senda út stutta fréttatilkynningu í byrjun til að lægja öldurnar og koma í veg fyrir kjaftasögur?

Þetta uppistand í upphafi máls minnir mig annars á áðurnefnt Ásmundarsmygl fyrir 40 árum. Þar gerðu fimmmenningarnir í áhöfn bátsins röð mistaka sem hver og ein hefði nægt til að benda á þá sem seka fyrir tilraun til stórsmygls. Sama virðist hafa verið á borðinu í gærkvöldi og morgun. Mennirnir leigja eða kaupa seglskútu, fylla af fíkniefnum og sigla til Íslands á hægustu ferð þegar allra veðra er von. Meðhjálparinn í landi á ekki einu sinni til farsíma til að hringja úr og virðist ekki hafa ráð á landakorti til að glöggva sig á að hann sé kominn til Fáskrúðsfjarðar.

Það þarf ekki sex löggur skreyttar eins og jólatré til að segja okkur að þessir svokölluðu fíkniefnasmyglarar eiga betur heima á uppeldisstofnun. Nær væri fyrir löggurnar að einbeita sér að því að finna þann aðila sem fjármagnaði glæpinn en að hreykja sér á skjánum.

20. september 2007 - Miðborgarvandamál


Í fyrrasumar kom ég til Manchester á heitasta tíma sumarsins. Um leið og ég hafði hent töskunum inn á hótel fór ég beint inn á Canal Street og hitti þar fólk sem ég hafði mælt mér mót við og þurfti nauðsynlega að fá mér einn öl eftir ferðina. Af því að fólkið sem ég hitti sat utandyra, var ölið afgreitt í plastmálum, ekki í gleri. Ef ég vildi drekka ölið úr glasi varð ég líka að drekka það innandyra. Í vor var ég í Amsterdam á Queensday. Þar var sama sagan nema að það var skilagjald á plastglösunum, tvær evrur fyrir að skila þeim tómum til baka.

Þegar ég var ung og falleg lokuðu allir skemmtistaðir í Reykjavík klukkan eitt á föstudagskvöldum og tvö á laugardagskvöldum. Fólk þurfti að vera komið inn fyrir klukkan hálftólf og hætt var að afgreiða brennivínið klukkan hálf eitt á föstudagskvöldum og hálftvö á laugardagskvöldum.

Skemmtistaðirnir voru víða. Glaumbær við Fríkirkjuveg, Sigtún við Austurvöll og Alþýðuhúskjallarinn neðst við Hverfisgötu. Aðrir helstu staðir voru Klúbburinn við Borgartún, Röðull við Skipholt og Þórskaffi við Brautarholt. Auk þeirra voru hótelin og salir þeim tengdir.

Það voru sífelld ólæti í íbúunum nærri Röðli. Þeir vildu losna við skemmtistaðinn úr nágrenninu. Að öðru leyti held ég að þessir fáu skemmtistaðir hafi verið að mestu leyti til friðs. Fólk hellti í sig eins miklu brennivíni og hægt var til að þurfa ekki að drekka eins mikið á staðnum og ef það var ekki ofurölvi þegar stöðunum var lokað, var haldið í næturteiti með hæfilegum skammti af slagsmálum í heimahúsum og afskiptum lögreglu af heimilishaldi í úthverfum Reykjavíkur.

Svo lagaðist ástandið. Fyrst var opnunartíminn rýmkaður og haft opið til klukkan þrjú á nóttunni. Ég man að ég kom eitt sinn á Sjallann á Akureyri og fannst nánast heimskulegt að þar var enn lokað klukkan tvö á laugardagskvöldi. Nokkrum árum síðar komu ölið og krárnar. Flennistóru skemmtistaðirnir á borð við Klúbbinn, Þórskaffi og Broadway í Mjódd lögðu upp laupana og ég flutti úr landi.

Einhverju sinni kom ég í heimsókn til Íslands og hreifst mjög af hinni sérstöku næturstemmningu, að sjá fullar götur af fólki á heimleið eftir skemmtanahaldið klukkan þrjú að nóttu. Þegar ég flutti svo heim sumarið 1996 var ástandið enn svona og sá ég það eitt slæmt við næturlífið að það var erfitt að ná í leigubíl heim. Skömmu síðar var afgreiðslutíminn gefinn nánast frjáls í stað þess að settar væru reglur misjafnan lokunartíma skemmtistaða og kráa. Það fannst mér synd að ekki væru settar sérreglur fyrir næturklúbba en að aðrar krár lokuðu klukkan þrjú eða í síðasta lagi klukkan fjögur.

Þótt ég hafi ekki reykt í mörg ár, held ég að reykingabannið hafi gert illt verra í Reykjavík. Nú verður fólk að fara út að reykja, en má ekki taka glösin með sér. Ekki hefi ég séð möguleika á að fólk fái að taka öl með sér í plastmáli eins og er leyfilegt í Amsterdam og Manchester. Þess í stað er fólki boðið upp á að reykja eða drekka, ekki hvorutveggja í senn. Nú situr fólk inni á kránum og tæmir glasið, fer svo út, hittir félagann fyrir utan, lendir á spjalli og þarf síðan að kasta af sér vatni. Þá er búið að loka eða biðröð til að komast inn aftur. Það er pissað í næsta húsasundi.

Nú vill lögreglustjórinn endurnýja gömul afskipti af heimilishaldi og sífelldum kvörtunum nágranna yfir næturpartíum á heimilum. Hann er strax farinn að hlakka til að kljást við nágranna margra lítilla skemmtistaða í úthverfum Reykjavíkur í stað þess að hafa allt á sama stað eins og Egill Vilhjálmsson hf auglýsti þegar ég var ung (ég er ennþá falleg og mun fallegri en áður).


Öll þessi “vandamál” sem ég hefi þulið upp eru smámál, reyndar svo lítil að einungis þarf að leita góðra lausna sem allir geta sætt sig við. Ég sendi tillögu að opnu pissiríi fyrir karla til Dags B. Eggertssonar í sumar og sem hann sendi áfram til framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar. Síðan hefur ekkert til þessarar tillögu heyrst og þykist ég vita að hún hafi verið talið óhæf fyrir karlmenn sem pissa alltaf framhjá. Ég er ekki með neina skyndilausn að hraðpissiríi fyrir konur.

Þá þarf einfaldlega að setja skýrari reglur um opnunartíma skemmtistaða, þeir ákveða fyrirfram hversu lengi þeir hyggjast hafa opið, veitingahús til eitt, krár til tvö eða þrjú eða fjögur um helgar. Sjálf er ég fyllilega sátt við að Næstibar sé opinn eins og nú er, til klukkan þrjú, því þá er ég yfirleitt komin heim og upp í rúm.

En ég held að það sé allt til þess vinnandi að vera ekki að endurvekja gamla fortíðardrauga með því að stytta opnunartímann um of og bjóða lögreglunni heim og að kljást við óeirðarseggi klukkan fimm og sex á morgnanna.

miðvikudagur, september 19, 2007

19. september 2007 - Að flytja hús í heilu lagi!


Flutningafyrirtækið ET með fjölda dráttarbíla á einhvern öflugasta dráttarvagn á Íslandi. Vagninn er með beygjur á flestum eða öllum öxlum og liðugur sem Mercedes ef flytja þarf þungavörur, hvort heldur er rafala í stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar, túrbínur til Hellisheiðarvirkjunar eða hús úr miðbænum og upp í Árbæjarsafn. Bifreiðarstjórarnir hjá þessu ágæta fyrirtæki eru kallaðir til flestum tilfellum þegar flytja þarf þungavörur enda orðnir reynsluboltar eftir margra ára þungaflutninga um land allt.

Á mánudagskvöldið var hús flutt af Hverfisgötu og að gatnamótum Bergstaðastrætis og Spítalastígs. Flutningurinn gekk illa og húsið ruggaði á flutningavagninum eins og væri það á ferð í haugasjó. Fyrir bragðið stórsá á húsinu og húsum sem voru í vegi hússins sem flutt var.

Í framhaldi þess að sýndar voru myndir af flutningnum í sjónvarpinu sem sýndi ágætlega að hvorki var dráttarvagninn góði notaður né reynsluboltarnir hjá ET, spyr ég:

“Af hverju var ekki notast við bestu mögulegu tækni til að flytja húsið þessa stuttu leið?”

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1292172

þriðjudagur, september 18, 2007

18. september 2007 - Útvísun eftir afbrot!

Í gær fréttist af því að íslendingur hefði verið verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Kaupmannahöfn auk tíu ára útvísunar frá Danmörku að afplánun lokinni. Mér fannst þetta mildur dómur miðað við umfang málsins og efa ekki að Íslendingurinn hefði fengið mun þyngri dóm á Íslandi þótt hann hefði sloppið við útvísun, enda bannað að vísa Íslendingum úr landi á Íslandi.

Í fréttum Ríkisútvarpsins fannst mér ég heyra hluttekningu með vesalings íslenska föðurnum sem á barn í Danmörku og sem hann fær ekki að sjá næstu tíu árin. Ég hefi enga samúð með honum. Hann hefur unnið fyrir dóm sínum og blessað barnið hans getur bara heimsótt hann til Íslands eftir lúkningu refsingar.

Annars skil ég ekki hvað er svona hörmulegt fyrir Íslending að vera vísað úr landi í Danmörku fyrir jafnmikinn glæp og hér um ræðir. Finnsk vinkona mín framdi afbrot í Svíþjóð, afbrot sem þykir ekki einu sinni afbrot í flestum ríkjum heims og var reyndar fyrst allra til að hljóta dóm fyrir afbrot sitt eftir nýlegum lögum um bann við vændi og starfsemi hóruhúsa í Svíþjóð. Hún hlaut fjögurra ára fangelsi og útvísun í tíu ár frá Svíþjóð að afloknu fangelsi. Dómurinn gegn henni þótti harkalegur í Svíþjóð, en þó var honum fagnað meðal feminista á Norðurlöndum, meðal annars á Íslandi.

Þótt ég hafi fyrirlitið atferli hinnar finnsku vinkonu minnar, þá aðstoðaði hún mig að koma mér fyrir í nýju landi er ég fluttist til Svíþjóðar árið 1989. Sjálf lauk hún prófi í félagsfræði í Svíþjóð og fjármagnaði menntun sína með vændi áður en hún stofnaði hóruhús þau sem hún var dæmd fyrir.

Núna virðast Íslendingar vera að hneykslast á því að íslenskur stórglæpamaður skuli ekki fá að búa áfram í Danmörku að aflokinni refsingu. Betur að Íslendingar geri slíkt hið sama og Danir og Svíar og ég efa ekki að íslenskir dómstólar dæmi eftir lögunum og sendi glæponana snarlega úr landi að aflokinni refsingu. Þeir eiga það skilið.

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/140651/#comments

mánudagur, september 17, 2007

17. september 2007 - Að aflokinni afmælisveislu


Ég ætla ekkert að biðja mína kæru lesendur afsökunar á að hafa ekki skrifað neitt á laugardagskvöld eða á sunnudagsmorguninn. Ég var löglega afsökuð í leit að betra heilsufari undir sæng.

Sonur minn á þrítugsafmæli í dag og hélt veglega veislu á laugardagskvöldið. Ég veit að ykkur finnst ótrúlegt að ég, barnung stúlkan, skuli eiga börn um þrítugt, en það er samt dagsatt að tvö barna minna minna hafa náð þrítugu. Þetta var auðvitað kjörið tækifæri til að kynnast tengdafólki sonarins og skoða betur borgfirskar og skagfirskar ættir tengdadótturinnar. Veislan orsakaði að ég komst ekki á kráarrölt sem upphaflega var ætlun mín, heldur flýtti ég mér heim að sofa að veislu lokinni. Þegar haft er í huga lélegt drykkjuþol mitt mætti halda að ég væri ólétt en ekki tengdadóttirin.

Myndin er tekin í lok veislunnar á viðkvæmu augnabliki.

-----oOo-----

Þótt félagar mínir tveir, stýristrumparnir, sem eru annars vegar í norska skerjagarðinum og hinsvegar úti fyrir ströndum Kaliforníu, hafi vafalaust dansað stríðsdans eftir glæsilegan sigur KR-inga í íslensku úrvalsdeildinni ætla ég ekki að taka þátt í hrunadansinum með þeim að sinni, ekki fyrr en KR hefur náð að lyfta sér af botni deildarinnar og úr fallsæti.

laugardagur, september 15, 2007

15. september 2007 - II - Af hverju á ég að véfengja dómskerfið?

Nú líst mér á. Bloggheimar eru farnir að hafa áhrif á umræðuna og eru uppfullir reiði vegna mildunar dóms yfir nauðgara úr fjórum árum í þrjú og hálft. Sjálf á ég ekki til orð vegna vandlætingar því tilfinning mín segir mér að það eigi að steikja þennan mann í vítisloga um ókomna tíð í helvíti sem er að sjálfsögðu mun meiri refsing en dómskerfið vill ganga. Eins gott að tilfinningar mínar fái ekki að ráða för í þessu máli.

Dómar bloggheima (Moggabloggsins) hafa löngum einkennst af æsingi. Ekki er langt síðan sumir gengu svo langt gagnvart hraðakstri á mótorhjólum að þeir vildu aðfarir sem jafngiltu dauðarefsingu fyrir að fara yfir löglegan hámarkshraða. Ekki má heldur gleyma bloggdómum yfir meintum morðingja hundsins Lúkasar.

Fyrir nokkrum árum síðan, í kjölfar mikillar umræðu í þjóðfélaginu, voru refsingar fyrir fíkniefnabrot þyngdar verulega. Skyndilega heyrði maður um tíu og tólf ára fangelsi fyrir innflutning á eiturlyfjum. Refsingarnar voru farnar að nálgast ískyggilega refsinguna fyrir morð, reyndar svo að það fór að borga sig fyrir þann sem stóð í fíkniefnabrotum að ryðja hugsanlegum óvinum úr vegi til að hindra að þeir kjöftuðu frá. Var það þetta sem fólk vildi?

Þótt ég sé ósátt við dóminn skil ég dómarana mjög vel. Þeir þurfa að halda sig innan ramma laganna, skoða eldri dóma og þróun þeirra og jafnframt gæta þess að láta ekki einhver tilfinningaleg æsingarskrif hafa áhrif á sig um leið og þeir þurfa að gæta vissrar íhaldssemi í dómum sínum. Því treysti ég þeim til að dæma rétt þótt ég vilji sjá harðari dóma í nauðgunarmálum.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1291525

15. september 2007 - Stella frænka

Stella móðursystir mín, ein mín uppáhaldsfrænka, er áttræð í dag. Jónína Vilborg Þorbjörnsdóttir fæddist á Lokastíg 28 í Reykjavík 15. september 1927 og fimmta barn af níu börnum afa míns og ömmu, Þorbjörns Péturssonar vélstjóra frá Grjóta á Álftanesi og Arndísar Benediktsdóttur frá Vallá á Kjalarnesi.

Ekki ætla ég að mæra hana frænku mína um of því ég veit að henni líkar slíkt illa. Það verður þó að hafa í huga að hún kom ellefu börnum til manns á rúmum tuttugu árum, hið fyrsta fætt 1946 og yngsta barnið 1967. Um leið og síðasta barnið sleppti pela og bleyju tók við vinna utan heimilis þótt halda mætti að heimilishald væri yfrið nóg á heimili með barnafjölda. En það voru margir munnar að metta og ekki hægt að sækja í feita sjóði.

Hún missti Val mann sinn í desember 1979, lenti þá í enn einu baslinu sem oft einkennir fjölskyldur þar sem ómegðin var mikil. Samt tókst henni að ljúka sínu við skattstjórann með sóma eins og reyndar öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Sjálf hugsa ég með hlýhug til hennar fyrir öll þau skipti sem ég leitaði til hennar á yngri árum.

Stella frænka býr nú á Hrafnistu í Reykjavík við slæma heilsu. Ég vona að börnin hennar safnist saman hjá henni og sýni henni þá virðingu sem hún á skilið á ævikvöldi. Sjálf mun ég hugsa hlýlega til hennar og reyna að kíkja við hjá henni við fyrsta hentugleika.

-----oOo-----

Það má og geta þess að fyrrum yfirmaður minn hjá Orkuveitu Reykjavíkur, áður Hitaveitu Reykjavíkur, Jón Hafsteinn Eggertsson vélfræðingur á einnig afmæli í dag, er sjötugur. Hann eyðir afmælinu með fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn. Hann fær sömuleiðis hlýjar afmæliskveðjur í tilefni dagsins.

föstudagur, september 14, 2007

14. september 2007 - Ekkert lítið hvað Íslendingar eru stressaðir...

....sagði vinkona mín sem býr í útlöndum og rak inn nefið hér í dag, drakk einn eða tvo kaffibolla, hringdi nokkur símtöl og var svo rokin aftur.

Ætli þetta sé rétt hjá henni?

Í gegnum huga minn fór bloggfærsla mín frá því í mars síðastliðnum er hún var stödd hér á landi. Í stað þess að endurtaka þá færslu, læt ég gömlu færsluna fylgja hér með:

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/136465/

fimmtudagur, september 13, 2007

13. september 2007 - Ofurkisan Sybil


Þegar þessi orð eru rituð dundar Hrafnhildur ofurkisa sér við að leita skyldleika við kisur á borð við Sybil og Humprey í ættfræðiritum, en því miður er fátt um bækur um ætterni katta í bókasafninu mínu. Því finnur hún ekkert bitastætt í bókunum mínum.

Sagt er að lík börn leiki best. Fyrir allmörgum árum þegar Margareth Thatcher var forsætisráðherra Bretlands settist köttur einn að í Downingstræti númer 10. Sá fékk nafnið Humphrey. Að sögn kunnugra var honum vísað á dyr skömmu eftir að Tony og Cherie Blair settust að í húsinu fína. Í stað Humphreys komu kvikindi sem eiga betur við fólk á borð við Bush og Blair, enda enginn köttur lengur til að halda þeim í burtu.

Nú er Blair fjölskyldan farin. Í hennar stað flutti nýr fjármálaráðherra í Downing stræti númer tíu, en Gordon Brown settist að í húsinu númer 11 sem mun vera öllu fjölskylduvænna en hið fyrrnefnda. Með nýja fjármálaráðherranum Alastair Darling er kominn nýr fjölskyldumeðlimur í húsið sem tekur við hlutverki Humphreys heitins og hefur nóg að gera við að eyða meindýrum þeim sem gerðu sig heimakomin í tíð Tonys Blair. Þetta er kisan Sybil sem flutti alla leið frá Skotlandi á nýjar veiðilendur í Downing stræti númer tíu í Lundúnaborg.

Ég sel þessa sögu ekki dýrari en ég keypti hana og vísa því í heimildina:

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=691828

miðvikudagur, september 12, 2007

12. september 2007 - Leikurinn fór illa!!!



Í gærkvöldi ætluðu mínir menn í Sameiningu Mannshestahrepps (FC United of Manchester
) að gjörsigra smáliðið Clithertoe í áttundu deild enska boltans á hraðri leið upp stigann í átt að úrvalsdeildinni þar sem gamla móðurfélagið Manchester United bíður örlaga sinna skjálfandi á beinunum. Þúsundum saman þyrptust stuðningsmenn liðsins okkar á völl andstæðinganna sem er einhversstaðar á milli Blackburn og Siglufjarðar og mættu þar nokkrum lafhræddum stuðningsmönnum Clithertoe sem hímdu undir vegg og þorðu sig hvergi að hræra fyrir ofureflinu. Og svo hófst leikurinn.

Kapparnir okkar voru fljótir að skora fyrsta markið og sýndu hvert framhaldið yrði, en fyrir einhvern klaufaskap tókst andstæðingunum að svara fyrir sig skömmu síðar með afar ljótu marki, svo ljótu að þess verður minnst um ókomna tíð, en þess ber að geta að okkar besti maður, Stuart Rudd, hefur verið í leikbanni nokkra síðustu leiki þrátt fyrir einstaklega prúðan leikferil. Okkar menn gerðu sig klára til að raða inn mörkunum þótt hinir pökkuðu í vörn eins og Mörlandinn gegn Márum á dögunum, komust í yndislegt færi, hlupu að boltanum sem átti að fara beint í bláhornið hjá andstæðingunum, gjörsamlega óverjandi fyrir markmannsræfilinn, en þá ....

.... slokknuðu öll ljós á vellinum og boltinn týndist með marki og markmanni.

Þegar í stað var kallað í Þórð rafvirkja (sem er ekki sonur Guðjóns rafvirkja) og eftir að hafa skoðað aðstæður um stund tilkynnti hann að það þyrfti að fá krana og skipta um allar perurnar í flóðlýsingunni og slíkt tæki minnst þrjá daga. Ákvað þá dómarinn að flauta leikinn af og sendi allan áhorfendaskarann heim enda óttaðist hann um öryggi allra þriggja stuðningsmanna Clithertoe auk leikmannahópsins ef hinar þúsundir prúðra stuðningsmanna FC United of Manchester tækju að ókyrrast í biðinni eftir að leikurinn hæfist aftur.

Í sakleysi mínu spyr ég hvernig leikur fer ef hann er flautaður af eftir að seinni hálfleikur er hafinn?

-----oOo-----

Svo fær 12. september hamingjuóskir með afmælið.

þriðjudagur, september 11, 2007

11. september 2007 - Tæknilegt afrek = fjöldamorð


Ég vil taka það fram í upphafi að ég get ekki með nokkru móti samþykkt fjöldamorð, ekki í neinu tilfelli né fyrir neinn málstað. Sama gildir um fjöldamorðin í New York 11. september 2001. Í mínum vinahópi eru það fyrst og fremst friðarmál sem eiga hug okkar allan og virðing fyrir manneskjunni á öllum stigum.

Árásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001 voru tæknilegt afrek. Það hafði áður verið reynt að sprengja aðra bygginguna en ekki tekist. Aðferðin sem beitt var, var ótrúleg og reyndar svo að fyrirfram hefði ég haldið að hún væri óframkvæmanleg. Þegar haft er í huga hvernig byggingar eru reistar í dag annarsvegar og hinsvegar hvernig flugvélar eru byggðar hefði ég afskrifað þann möguleika að hægt væri að fella tvær af voldugu byggingum heims í einu vettvangi með flugvélum sem stýrt er að þeim. Því datt mér helst til hugar er útsending útvarps var rofin og sagt frá því að flugvél hefði lent á World Trade Center, að hin veikbyggða flugvél hefði orðið að klessu utan á annarri byggingunni og allir farþegarnir farist. Mér duttu aldrei til hugar þau byssukúluáhrif sem fulllestuð risaþota á 900 kílómetra hraða hefur þegar henni er beint inn í bygginguna. Þegar flugvélin er að auki nánast þunglestuð af eldsneyti verða áhrifin enn meiri.

Flugræningjarnir 11. september 2001 þurftu að hafa til að bera geysimikla verkfræðiþekkingu. Þeir völdu sér stórar vélar fullar af eldsneyti sem fljúga þvert yfir Ameríku til að tryggja sér sem mestan eyðileggingarmátt og tókst það. Minni flugvélar hefðu valdið skaða en engu hruni turnanna.

Þessir flugræningjar voru engir bjánar. Þeir sönnuðu fyrir okkur hve illskan getur komið miklu í verk með litlum tilkostnaði. Hinn vestræni heimur þarf enn að blæða fyrir verk þeirra. Gífurlegar öryggisráðstafanir fylgdu í kjölfarið og sér ekki enn fyrir endann á þeim. Almenningur á Vesturlöndum er sá sem tapaði stríðinu gegn hryðjuverkum, nákvæmlega eins og ætlunin var hjá þeim sem skipulögðu flugránin.

Austur í Afganistan eða Pakistan situr Osama bin Laden í helli sínum og hlær að okkur fíflunum því hans næstu hryðjuverk munu koma okkur á óvart rétt eins og hryðjuverkin 11. september 2001.

mánudagur, september 10, 2007

10 september 2007 – Öfgafólk í umhverfismálum!

Eins og allir lesendur mínir vita er ég talin með verstu umhverfissóðum, ek um á sjálfskiptum og eyðslufrekum Subaru Legacy, fell í trans ef ég heyri minnst á álver og míg næstum á mig af hrifningu yfir Kárahnjúkavirkjun og öðrum stórkostlegum atvinnutækifærum.

Fyrir nokkru síðan var mín vika í ruslinu í blokkinni þar sem ég bý og veitti ég því athygli að komin var vond lykt í ruslageymsluna. Við leit að orsökum kom í ljós að ein tunnan var með sprunginn botninn og þar hafði lekið einhver óþverri niður sem orsakaði að þrífa þurfti ruslageymsluna og fjarlægja leku tunnuna.

Það var kallað til fundar í húsfélaginu. Ekki bara vegna þessarar einu tunnu, heldur vegna fjölda annarra mála sem þurfti að ræða í húsfélagi þar sem samkomulag er gott og þar sem íbúarnir eru allir sammála um að gera morgundaginn betri en gærdaginn. Á fundinum var samþykkt að fækka um eina svarta ruslatunnu en taka þess í stað eina græna tunnu fyrir flokkað sorp og eina bláa fyrir dagblaðapappír.

Á sunnudagskvöldið voru nokkrir íbúanna að ræða óformlega um enn frekari framkvæmdir í stigaganginum þegar einn íbúinn sást læðast út frá sér og ætlaði að setja ruslið í sorprennuna. Rak þá einhver augun í að glitti í tóma mjólkurfernu í ruslapoka íbúans og var honum snarlega gert að snúa við og flokka sorpið áður en hann henti því.

Íbúinn sem flutti í húsið fyrir ári síðan er örugglega farinn að sjá eftir því að hafa keypt íbúð í húsi með samansafni öfgafólks í umhverfismálum þar á meðal mér sem ek um á vinstrigrænum Subaru.

Þeir kalla mig umhverfissóða!

sunnudagur, september 09, 2007

9. september 2007 - Grískur fótbolti

Ef ég man rétt fór fram Evrópukeppni í fótbolta árið 2004 sem Grikkir unnu með hjálp þýsks þjálfara. Leikaðferð Grikkjanna gekk út á að pakka liðinu í vörn og reyna að skora úr skyndisóknum. Þessi aðferð tókst mjög vel og Grikkir hlutu bikarinn eftirsótta, en ekki þótti aðferðin áhorfendavæn.

Á laugardagskvöldið horfði ég á fótboltaleik í sjónvarpinu. Það kom ekki til af góðu því ekki var boðið upp á neitt annað í ríkissjónvarpinu fyrr en leiknum var lokið. Ekki þótti mér knattspyrnan rismikil sem boðið var upp á, bæði liðin inni á vallarhelmingi Íslendinganna mestallan tímann og svo var reynt að fara í skyndisóknir að grískum sið.

Sjónvarpsvélunum var einhverju sinni beint að landsliðsþjálfaranum þar sem hann var að tala í símann. Mér datt strax til hugar að nú væri Eyjólfur að ráðfæra sig við kollega sinn hjá gríska landsliðinu.

Má ég þá heldur biðja um góðan leik með Halifaxhrepp þar sem ólympíuhugsunin ræður ríkjum.

laugardagur, september 08, 2007

8 september 2007 - "Vorum við ekki saman .......


..... á Pétri Halldórssyni?” spurði leigubílstjórinn sem keyrði mig heim af Næstabar aðfararnótt laugardagsins. “Nei” svaraði ég, “það var búið að selja Pétur Halldórsson til Noregs þegar ég byrjaði til sjós”. Eftir miklar vangaveltur sannfærðumst um að hafa verið saman til sjós á Jóni Þorlákssyni og Þorkeli mána eftir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Þegar heim var komið og ég þurfti að greiða reikninginn sá ég andlitið á bílstjóranum og reyndist hann vera Maggi, gamall skipsfélagi af þessum ágætu skipum. Það eru meira en 40 ár síðan síðast.

Föstudagskvöldið var vel heppnað. Ég skrapp í bæinn með Kristínu Eiríks og litum inn á Næstabar. Þar hittum við Guðrúnu Ögmundsdóttur og Andreu Gylfadóttur sem voru á ferli ásamt mökum og fjöldi fólks varð á vegi okkar sem við þekktum frá fyrri tíð eða þá fólk sem við vildum kynnast. Umfram allt gátum við fagnað nýjum vinum og yndislegu fólki sem við höfðum aldrei hitt áður.

Færri sögum fór af útmignum húsveggjum.

föstudagur, september 07, 2007

7. september 2007 - Að hreykja sér hátt....

Kunningi minn einn í gamla daga var lítt hrifinn af lágvöxnum yfirmanni í vinnunni sinni og lét það óspart í ljósi við hvern þann sem heyra vildi. Einhverju sinni hitti ég kunningja minn á förnum vegi og spurði hann hvort ekki væri farið að lagast á milli hans og yfirmannsins. Hann svaraði með eftirfarandi vísu:

Að hreykja sér hátt, það er siður
sem hérna sést stundum, því miður.
Það er glæsilegt oft
er þeir gnæfa við loft,
en slæmt ef þeir ná ekki niður.

Nú spyr ég. Hver samdi þessa ágætu vísu? Er hún orðrétt svona eða hefur hún skolast til í meðförum í gegnum árin? Það eru áratugir síðan ég heyrði vísuna fyrst, en hún rifjaðist upp fyrir mér á fundi er ég minntist eigin afreka á síðasta Gay Pride fyrir tæpum mánuði síðan.

fimmtudagur, september 06, 2007

6. september 2007 - Íslenskur hermaður kallaður heim


Markmið góðs hermanns í lífinu eru annað tveggja, að drepa eða verða drepinn.

Hún Valgerður ættingi minn Sverrisdóttir frá Lómatjörn (við erum báðar komnar í beinan kvenlegg frá Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit) setti ofan í við Ingibjörgu Sólrúnu flokkssystur mína í fréttatíma sjónvarpsins á miðvikudagskvöldið fyrir þá hræðilegu ákvörðun að kalla heim einasta íslenska hermanninn sem er á vegum íslenskra yfirvalda í Írak. Þótt ég vilji helst ekki tala illa um hana Valgerði mína (öfugt við aðra Framsóknarmenn), verð ég samt að játa að ég er henni ósammála í þetta sinn.

Einn íslenskur hermaður gerir lítið gagn þar sem hann er einn og yfirgefinn og innilokaður á bakvið múra inni á græna svæðinu í Bagdað. Einsamall getur hann ekki farið út og drepið einn eða tvo meðlimi andspyrnuhreyfingarinnar eða gert annan usla í liði óvinanna. Hann getur heldur ekki sinnt hinu mikilvæga atriði hernaðar sem er að láta drepa sig. Bæði er það óþægilegt fyrir hermanninn sjálfan og sárt fyrir ættingjana. Því getur hann fátt annað gert en að halda áfram að naga neglurnar. Þegar hann er að auki búinn að naga allar neglurnar á puttunum og langt kominn með táneglurnar, er fátt um fína drætti og því get ég ekki annað en stutt Sollu í því að kalla drenginn heim.

Öfugt við aðgerðarleysið sem felst í að vera tákn fyrir Ísland á stað sem hann er hataður og fyrirlitinn, er verk fyrir manninn að vinna hér á landi. Hann getur valið um störf sem hér finnast á hverju strái. Það vantar duglega verkamenn í uppskipun, lífsreynda strætisvagnsstjóra í Skagastrætó til að stytta Gurrí stundir á leið í vinnuna, laghenta trésmiði til að byggja upp brunnin hús við Austurstræti og það vantar leikskólakennara með útgeislun til að uppfræða ungviði þessa lands.

Munum að það er ávallt þörf fyrir góðan og myndarlegan hermann sem snýr heill heim rétt eins og hermanninn í ævintýri H. C. Andersen, þó ekki væri nema að hjálpa gömlum konum að sækja eldfærin þeirra.

miðvikudagur, september 05, 2007

5. september 2007 - Er það vegna mín?


Í dag kemur góð vinkona mín í heimsókn til fósturjarðarinnar frá Svíþjóð þar sem hún er búsett ásamt eiginmanni og börnum. Þetta kemur sér vel einmitt þegar ég er að byrja í vaktafríi og þarf því ekki að mæta til vinnu. Við höfðum hugsað okkur að kíkja aðeins í bæjarferð um helgina og fá okkur í glas, mála bæinn rauðan og hugsanlega míga utan í einn eða tvo húsveggi.

Eitt veldur mér þó áhyggjum. Það er búið að kalla út víkingasveitina til að takast á við óaldarseggina í miðbænum. Það verður því ekkert tækifæri til að gera neitt skemmtilegt af sér.

Ekki vissi ég að ég hefði verið svona slæm á árum áður þegar ég stundaði næturlífið!!!

þriðjudagur, september 04, 2007

4. september 2007 - Fólk er fífl

Nokkrum árum eftir að Sovétríkin hrundu og leystust upp í frumeindir sínar var ég á ferð í Riga höfuðborg Lettlands. Þar sem við vorum akandi um gömlu miðborgina í leit að bílastæði sá ég röð af slíkum stæðum og öll auð. Nei, þarna mátti ekki leggja. Þessi stæði voru í eigu Mafíunnar.

Mikil ramakvein heyrast nú á Moggabloggi frá fólki sem dirfist að mótmæla því að yfirstéttin mætti í seinna lagi á tónleika í Laugardalshöll í fyrrakvöld. Sumt af þessu fólk sem hefur hæst á Moggabloggi vegna málsins var ekki einu sinni á tónleikunum og veit ekkert hvað það er að tala um.

Það þýðir ekkert að væla. Þetta ágæta fólk í Baugur grúpp og Kaupthing grúpp og FL grúpp (skrifað FJ grúpp) og öllum hinum grúppunum á landið og þjóðina og miðin og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af einhverjum kommúnistaplebbum sem eiga allt sitt undir yfirstéttinni. Sumir þessara einstaklinga greiða líka svo mikla skatta að árlegur skattur nemur meiru en ævitekjur sumra þeirra sem kvarta mest. Ef plebbarnir ætla eitthvað að þenja sig, flytja þessi ágætu fyrirtæki úr landi og hætta að borga skatta á Íslandi. Er það kannski ætlunin með þessum kvörtunum þessara kommaplebba? Því skuluð þið bara halda ykkur saman og hneigja ykkur. Svo er líka hægt að leggja niður nokkur af fyrirtækjunum í eigu þessa ágæta fólks og þá fer þjóðin á hausinn.

Á árum áður var oft talað um bananaríki þar sem eitt til tvö prósent þjóða átti allt landið og fólkið sem í því bjó. Nú þarf ekki lengur að tala um aðrar þjóðir í þessu sambandi því örfáir einstaklingar eiga Ísland og hina aumu þjóð sem hér býr. Það þurfti ekki einu sinni byltingu að ofan og ekki heyrðist múkk í skrílnum meðan eignaupptakan átti sér stað.

Þessir örfáu, innan við eitt prómill af þjóðinni, eiga stóran hluta kvótans, miðin og flotann, mestallan matvörumarkaðinn, bankana, apótekin, fjöldann allan af jörðum, einhver bílaumboð og orkufyrirtækin bíða handan við hornið. Brátt verða Alcoa og Alcan hið einasta sem ekki er í eigu þessara örfáu einstaklinga.

Ef einhver dirfist að mótmæla eignaupptökunni er sá hinn sami þegar í stað kveðinn í kútinn með því að þessir einstaklingar borgi svo mikið í skatta og því má ekki styggja þá. Fáir þora samt að mótmæla því margir eru í vinnu hjá þessum örfáu einstaklingum og atvinnuöryggið því í hættu. Þvert á móti berjum við okkur á brjóst og bendum á Illum og Nyhedsavisen og West Ham og hreykjum okkur af því hve Íslendingar séu nú duglegir.

Ágúst Bogason styggði yfirstéttina með því að benda á ruddaskapinn í þessu pakki í Morgunblaðinu í dag. Sumir bloggarar tóku undir með honum, en munu svo þagna eins og endranær. Ég líka því fólk er fífl.

Byltingin lifi eða hvað?

4. september 2007 - Herför Bjarna Harðarsonar


Hinn glænýi alþingismaður Bjarni Harðarson er þessa dagana í einkaherferð gegn öllum þeim sem hafa komið nálægt fjárveitingum vegna Grímseyjarferjunnar undanfarin ár og hefur í því sambandi kallað alla til ábyrgðar sem hafa komið nálægt málinu.

Hann getur alveg sparað sér stóru orðin. Þegar haft er í huga að ekki verður komist hjá því að útvega ferju til siglinga á milli lands og Grímseyjar, þá varð að gera eitthvað fremur en að flytja alla íbúana í land. Það má um leið segja að þau mistök sem áttu sér stað voru bundin við kaupin á ferjunni. Það sem skeði eftir að hún var keypt, var einungis eðlileg afleiðing af kaupunum og flokkast vart sem mistök eða bruðl.

Það einasta sem þarf að gera er að finna hver skrifaði undir kaupsamningana að ferjunni og spyrja hann hver hafi gefið grænt ljós á undirritun samningsins og reka þann hinn sama úr starfi, þ.e. ef hann er ekki þegar hættur!

mánudagur, september 03, 2007

3. september 2007 - Barátta bleiku svínanna


Þegar ég kom á vaktina á mánudagskvöldið var sjónvarpið í gangi og var þar að hefjast kappleikur í fótknattleik. Ekki get ég sagt að liðin tvö sem þarna eru að eigast við, höfði mikið til tilfinninga minna svo ég get með góðri samvisku snúið mér alfarið að ástundun vinnunnar. Þó varð mér starsýnt á leikmennina er þeir stóðu hlið við hlið á vellinum og létu hylla sig. Einustu leikmennirnir sem ekki voru með mynd af bleiku svíni framan á sér voru dómararnir.

Það er þó jákvætt að einhverjir eru hlutlausir í leiknum.

-----oOo-----

Á dögunum var vígð keppnishöll þriðja íþróttafélagsins í Reykjavík. Íþróttahöllin sú var ekki kennt við íþróttafélagið sjálft, heldur fyrirtæki í eigu bleiku svínanna og kallað Vódafónhöllin.

-----oOo-----

Fyrir rúmum tveimur árum eignaðist Malcolm Glazer knattspyrnufélagið Manchester United. Fóru þá margir dyggir stuðningsmenn félagsins í fýlu og stofnuðu sitt eigið félag, FC United of Manchester. Á fyrstu tveimur árunum unnu þeir sig upp um tvær deildir, en nú í haust byrjuðu þeir fremur illa og töpuðu fyrstu leikjum deildarinnar. Þeir fundu þó skotskóna og hafa nú unnið næstu tvo á eftir en að auki fyrsta leikinn sem þeir spila í bikarnum. Þess má geta að einkennisorð nýja félagsins er að sjálfsögðu í stíl við upphafið, en það er:

“I don´t have to sell my soul”

laugardagur, september 01, 2007

1. september 2007 - Það er ekki ....

....hægt annað en að brosa að vandamálunum hjá sumum svo ekki sé talað um stórkostlegar lýsingar þeirra hinna sömu.