föstudagur, september 28, 2007

28. september 2007 - Miriam Rose

Ég hefi á stundum gert góðlátlegt grín að dansflokknum Seifing Æsland og aðgerðum þeirra. Mér finnst það þó lélegt þegar yfirvöld ætla sér að beita tvöfaldri refsingu gagnvart ungri stúlku sem hefur ákveðið að setjast hér að.

Þegar Miriam Rose var dæmd til greiðslu sektar og sat síðan af sér dóminn fyrir verk sín gagnvart Alcan og fleiri fyrirtækjum var það endanlegur dómur fyrir ákveðinn verknað. Um leið og hún kom út eftir að hafa setið dóminn af sér var hún laus allra mála. Verknaður hennar taldist ekki svo svívirðilegur að henni væri vísað úr landi með dómi.

Ég get ekki séð að stúlkan hafi gert neitt það eftir fangavistina sem veldur því að það beri að vísa henni úr landi. Að auki hefur hún sjálf lýst því yfir að ekki standi til að taka þátt í fleiri aðgerðum af því tagi sem Seifíng Æsland stóð fyrir í sumar. Þar með er íslenskri réttlætiskennd og dómvenju fullnægt. Það er engin ástæða til frekari aðgerða. Að ákveða núna að vísa henni úr landi verður því einungis að skoðast sem hefnd yfirvalda pólitísk ákvörðun og mun efalaust auka á vantrú almennings gagnvart ríkisvaldinu verði kröfunni framfylgt.

Hvað um betrunarstefnu stjórnvalda?


0 ummæli:







Skrifa ummæli