Í bókaskápnum mínum er gömul bók, árituð af höfundi sem kom til Íslands haustið 1986 er bókin kom út á íslensku. Hún heitir Niðurlægingin (Ganz unted) eftir þýska rithöfundinn Günter Wallraff og fjallar bókin um reynslu hans er hann lék tyrkneska verkamanninn Ali í Vestur-Þýskalandi og hvernig farandverkamennirnir frá Tyrklandi voru niðurlægðir á þýskum vinnumarkaði á áttunda og byrjun níunda áratugarins. Allar götur síðan bókin kom út í Þýskalandi árið 1985 (og Íslandi 1986) hafa frásagnir bókarinnar verið dregnar í efa. Sjálf las ég bókina með gagnrýnum hætti án þess þó að afneita þeim frásögnum sem þar birtust.
Það hefur löngum verið þekkt að fólk með mikla tjáningarhæfileika taki að sér hlutverk fólks sem gengið hefur í gegnum marga hluti í lífinu. Þar er kannski Hollywood skýrasta dæmið, en margar kvikmyndir sem þar hafa verið gerðar fjalla um raunverulega lífsreynslu fólks
Við vitum það vel að andlit sem segja frá eru miklu áhrifaríkari en einföld auglýsing í blaði. Því er nauðsynlegt til að bók komist á metsölulista, að einhver túlki sögupersónuna. Það þarf ekki að vera hún sjálf. Það er nóg að kalla til fulltrúa hennar sem tekur að sér að túlka hana á lifandi hátt.
Ég fæ á tilfinninguna við lestur athugasemda fólks við fyrri pistil að sumir telji mig vera að véfengja þær sögur sem sagðar eru í bókunum sem fjallað er um. Það er ekki rétt og kemur auk þess ágætlega fram í pistlinum. Um leið finnst mér full ástæða fyrir fólk að éta ekki allt hrátt sem því er sagt og vera dálítið gagnrýnið á það sem ber fyrir augu þess. Sjálf hefi ég ekki véfengt reynsluna sem fram kemur í bókunum sem um er rætt, einungis hina leikrænu tjáningu fólksins sem lýsti sögunum í útvarpi og sjónvarpi nánast eins og sögumenn sem skapaði örlítinn efa hjá mér um persónurnar sem birtust á sjónvarpsskjánum.
Það var ekki Elizabeth drottning sjálf sem túlkaði sig í kvikmyndinni The Queen, heldur fékk Helen Mirren það erfiða hlutverk og tókst svo snilldarlega að haft var á orði að hún væri líkari drottningunni en drottningin sjálf. Sagan um Díönu prinsessu var samt jafn hjartnæm og þótt drottningin sjálf hefði leikið sjálfa sig.
Um orð "Magna" sem birtust í athugasemdum á Moggabloggi hirði ég ekki. Þau dæma sig sjálf og bera höfundi þeirra gott vitni.
þriðjudagur, september 25, 2007
25. september 2007 - II - Enn um fágaða framkomu.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:57
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli