fimmtudagur, september 13, 2007

13. september 2007 - Ofurkisan Sybil


Þegar þessi orð eru rituð dundar Hrafnhildur ofurkisa sér við að leita skyldleika við kisur á borð við Sybil og Humprey í ættfræðiritum, en því miður er fátt um bækur um ætterni katta í bókasafninu mínu. Því finnur hún ekkert bitastætt í bókunum mínum.

Sagt er að lík börn leiki best. Fyrir allmörgum árum þegar Margareth Thatcher var forsætisráðherra Bretlands settist köttur einn að í Downingstræti númer 10. Sá fékk nafnið Humphrey. Að sögn kunnugra var honum vísað á dyr skömmu eftir að Tony og Cherie Blair settust að í húsinu fína. Í stað Humphreys komu kvikindi sem eiga betur við fólk á borð við Bush og Blair, enda enginn köttur lengur til að halda þeim í burtu.

Nú er Blair fjölskyldan farin. Í hennar stað flutti nýr fjármálaráðherra í Downing stræti númer tíu, en Gordon Brown settist að í húsinu númer 11 sem mun vera öllu fjölskylduvænna en hið fyrrnefnda. Með nýja fjármálaráðherranum Alastair Darling er kominn nýr fjölskyldumeðlimur í húsið sem tekur við hlutverki Humphreys heitins og hefur nóg að gera við að eyða meindýrum þeim sem gerðu sig heimakomin í tíð Tonys Blair. Þetta er kisan Sybil sem flutti alla leið frá Skotlandi á nýjar veiðilendur í Downing stræti númer tíu í Lundúnaborg.

Ég sel þessa sögu ekki dýrari en ég keypti hana og vísa því í heimildina:

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=691828


0 ummæli:







Skrifa ummæli