Stella móðursystir mín, ein mín uppáhaldsfrænka, er áttræð í dag. Jónína Vilborg Þorbjörnsdóttir fæddist á Lokastíg 28 í Reykjavík 15. september 1927 og fimmta barn af níu börnum afa míns og ömmu, Þorbjörns Péturssonar vélstjóra frá Grjóta á Álftanesi og Arndísar Benediktsdóttur frá Vallá á Kjalarnesi.
Ekki ætla ég að mæra hana frænku mína um of því ég veit að henni líkar slíkt illa. Það verður þó að hafa í huga að hún kom ellefu börnum til manns á rúmum tuttugu árum, hið fyrsta fætt 1946 og yngsta barnið 1967. Um leið og síðasta barnið sleppti pela og bleyju tók við vinna utan heimilis þótt halda mætti að heimilishald væri yfrið nóg á heimili með barnafjölda. En það voru margir munnar að metta og ekki hægt að sækja í feita sjóði.
Hún missti Val mann sinn í desember 1979, lenti þá í enn einu baslinu sem oft einkennir fjölskyldur þar sem ómegðin var mikil. Samt tókst henni að ljúka sínu við skattstjórann með sóma eins og reyndar öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Sjálf hugsa ég með hlýhug til hennar fyrir öll þau skipti sem ég leitaði til hennar á yngri árum.
Stella frænka býr nú á Hrafnistu í Reykjavík við slæma heilsu. Ég vona að börnin hennar safnist saman hjá henni og sýni henni þá virðingu sem hún á skilið á ævikvöldi. Sjálf mun ég hugsa hlýlega til hennar og reyna að kíkja við hjá henni við fyrsta hentugleika.
-----oOo-----
Það má og geta þess að fyrrum yfirmaður minn hjá Orkuveitu Reykjavíkur, áður Hitaveitu Reykjavíkur, Jón Hafsteinn Eggertsson vélfræðingur á einnig afmæli í dag, er sjötugur. Hann eyðir afmælinu með fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn. Hann fær sömuleiðis hlýjar afmæliskveðjur í tilefni dagsins.
laugardagur, september 15, 2007
15. september 2007 - Stella frænka
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:25
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli