mánudagur, september 17, 2007

17. september 2007 - Að aflokinni afmælisveislu


Ég ætla ekkert að biðja mína kæru lesendur afsökunar á að hafa ekki skrifað neitt á laugardagskvöld eða á sunnudagsmorguninn. Ég var löglega afsökuð í leit að betra heilsufari undir sæng.

Sonur minn á þrítugsafmæli í dag og hélt veglega veislu á laugardagskvöldið. Ég veit að ykkur finnst ótrúlegt að ég, barnung stúlkan, skuli eiga börn um þrítugt, en það er samt dagsatt að tvö barna minna minna hafa náð þrítugu. Þetta var auðvitað kjörið tækifæri til að kynnast tengdafólki sonarins og skoða betur borgfirskar og skagfirskar ættir tengdadótturinnar. Veislan orsakaði að ég komst ekki á kráarrölt sem upphaflega var ætlun mín, heldur flýtti ég mér heim að sofa að veislu lokinni. Þegar haft er í huga lélegt drykkjuþol mitt mætti halda að ég væri ólétt en ekki tengdadóttirin.

Myndin er tekin í lok veislunnar á viðkvæmu augnabliki.

-----oOo-----

Þótt félagar mínir tveir, stýristrumparnir, sem eru annars vegar í norska skerjagarðinum og hinsvegar úti fyrir ströndum Kaliforníu, hafi vafalaust dansað stríðsdans eftir glæsilegan sigur KR-inga í íslensku úrvalsdeildinni ætla ég ekki að taka þátt í hrunadansinum með þeim að sinni, ekki fyrr en KR hefur náð að lyfta sér af botni deildarinnar og úr fallsæti.


0 ummæli:







Skrifa ummæli