Nú líst mér á. Bloggheimar eru farnir að hafa áhrif á umræðuna og eru uppfullir reiði vegna mildunar dóms yfir nauðgara úr fjórum árum í þrjú og hálft. Sjálf á ég ekki til orð vegna vandlætingar því tilfinning mín segir mér að það eigi að steikja þennan mann í vítisloga um ókomna tíð í helvíti sem er að sjálfsögðu mun meiri refsing en dómskerfið vill ganga. Eins gott að tilfinningar mínar fái ekki að ráða för í þessu máli.
Dómar bloggheima (Moggabloggsins) hafa löngum einkennst af æsingi. Ekki er langt síðan sumir gengu svo langt gagnvart hraðakstri á mótorhjólum að þeir vildu aðfarir sem jafngiltu dauðarefsingu fyrir að fara yfir löglegan hámarkshraða. Ekki má heldur gleyma bloggdómum yfir meintum morðingja hundsins Lúkasar.
Fyrir nokkrum árum síðan, í kjölfar mikillar umræðu í þjóðfélaginu, voru refsingar fyrir fíkniefnabrot þyngdar verulega. Skyndilega heyrði maður um tíu og tólf ára fangelsi fyrir innflutning á eiturlyfjum. Refsingarnar voru farnar að nálgast ískyggilega refsinguna fyrir morð, reyndar svo að það fór að borga sig fyrir þann sem stóð í fíkniefnabrotum að ryðja hugsanlegum óvinum úr vegi til að hindra að þeir kjöftuðu frá. Var það þetta sem fólk vildi?
Þótt ég sé ósátt við dóminn skil ég dómarana mjög vel. Þeir þurfa að halda sig innan ramma laganna, skoða eldri dóma og þróun þeirra og jafnframt gæta þess að láta ekki einhver tilfinningaleg æsingarskrif hafa áhrif á sig um leið og þeir þurfa að gæta vissrar íhaldssemi í dómum sínum. Því treysti ég þeim til að dæma rétt þótt ég vilji sjá harðari dóma í nauðgunarmálum.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1291525
laugardagur, september 15, 2007
15. september 2007 - II - Af hverju á ég að véfengja dómskerfið?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 15:43
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli