mánudagur, september 03, 2007

3. september 2007 - Barátta bleiku svínanna


Þegar ég kom á vaktina á mánudagskvöldið var sjónvarpið í gangi og var þar að hefjast kappleikur í fótknattleik. Ekki get ég sagt að liðin tvö sem þarna eru að eigast við, höfði mikið til tilfinninga minna svo ég get með góðri samvisku snúið mér alfarið að ástundun vinnunnar. Þó varð mér starsýnt á leikmennina er þeir stóðu hlið við hlið á vellinum og létu hylla sig. Einustu leikmennirnir sem ekki voru með mynd af bleiku svíni framan á sér voru dómararnir.

Það er þó jákvætt að einhverjir eru hlutlausir í leiknum.

-----oOo-----

Á dögunum var vígð keppnishöll þriðja íþróttafélagsins í Reykjavík. Íþróttahöllin sú var ekki kennt við íþróttafélagið sjálft, heldur fyrirtæki í eigu bleiku svínanna og kallað Vódafónhöllin.

-----oOo-----

Fyrir rúmum tveimur árum eignaðist Malcolm Glazer knattspyrnufélagið Manchester United. Fóru þá margir dyggir stuðningsmenn félagsins í fýlu og stofnuðu sitt eigið félag, FC United of Manchester. Á fyrstu tveimur árunum unnu þeir sig upp um tvær deildir, en nú í haust byrjuðu þeir fremur illa og töpuðu fyrstu leikjum deildarinnar. Þeir fundu þó skotskóna og hafa nú unnið næstu tvo á eftir en að auki fyrsta leikinn sem þeir spila í bikarnum. Þess má geta að einkennisorð nýja félagsins er að sjálfsögðu í stíl við upphafið, en það er:

“I don´t have to sell my soul”


0 ummæli:







Skrifa ummæli