laugardagur, september 29, 2007

29. september 2007 - Um Estonia

Í gær voru liðin 13 ár frá slysinu hræðilega þegar Estonia fórst á Eystrasalti á leið sinni frá Tallinn til Stokkhólms og 852 manneskjur fórust. Nokkrum dögum áður hafði ég verið um borð í gamalli rússneskri ferju á leið til Riga og langaði til að prófa að fara með þessu glæsilega skipi sem blasti við er við héldum úr höfn frá Stokkhólmi.

Allt var til að minna mig á þennan hræðilega atburð. Áður en ég hélt til Riga þurfti ég að sækja mér nýtt vegabréf á lögreglustöðina í Jakobsberg. Konan sem afgreiddi mig og sem ég var ágætlega málkunnug, eftir að hún hafði tvisvar þurft að taka af mér lögregluskýrslu vegna þess að brotist hafði verið í bílinn minn, sagði mér frá því að hún væri að fara í ráðstefnuferð til Eistlands eftir nokkra daga með Estonia. Ekki man ég lengur nafn hennar, en hún fórst með skipinu.

Erfiðasta minningin er þó kannski sú að ég var komin heim frá Eystrasaltslöndum og á fyrstu næturvakt eftir ferðina góðu og hafði gengið túrbínueftirlitið um nóttina. Er ég kom upp í stjórnstöð eftir hringinn og inn í setustofu þar sem menn höfðu verið að horfa á spennandi kvikmynd á myndbandi, sátu þeir nokkrir og sögðu ekki orð, en gláptu stórum augum á sjónvarpið og textaræmuna sem gekk niður eftir skjánum. Þetta voru fyrstu fréttir af Estoniaslysinu.

-----oOo-----

Fyrir nokkrum dögum síðan drukknaði maður sem var tengdur fjölskyldu minni í Soginu. Slysin gera ekki boð á undan sér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli