Það er sagt að það sé gaman í Berlín á 1. maí. Ekki veit ég neitt um það en vinir mínir í Berlín hafa ráðið mér að halda mér frá kröfugöngu dagsins.
Ég skrapp til útlanda á miðvikudagsmorguninn á Valborg, sjálfan 30. apríl. Slíkt þykir venjulega ekkert merkilegt og því er ástæða til að yppta öxlum og snúa sér að einhverju skemmtilegu í stað þess að lesa leiðinlega ferðasögu.
Þegar haft er í huga að lítið er til af peningum, ákvað ég að skera niður hótelkostnaðinn eins og hægt var þó þannig að ég næði öllu því skemmtilegasta á ráðstefnu TGEU í Berlín. Því enduðu pantanir þannig að ég fékk mér far með Æsland Express til Stansted en áfram þaðan með RyanAir til Berlínar og ég var mætt á Keflavíkurflugvöll eldsnemma á miðvikudagsmorguninn.
Ekki vantaði félagsskapinn þegar þangað var komið. Gamall skóla- og skipsfélagi var að fara í golfferð til Englands og höfðum við margt að spjalla um eftir að hafa ekki hist í 19 ár. Svo var flogið til Stansted. Þar tók við löng og leiðinleg bið eftir næstu vél.
Ég held að Stansted sé að verða of lítill flugvöllur. Það var ekki bara að flugvélarnar eiga orðið erfitt með að komast í stæði, heldur virðist starfsfólkið á flugvellinum þreytt og illa haldið. Ég fékk brottfararspjald í vélina til Berlínar löngu á eftir áætlun. Eftir að ég var komin inn í fríhöfnina kom í ljós að ég hafði fengið brottfararspjald á almenna biðröð þótt ég hefði greitt fyrir forgang í vélina. Hlaðfreyja sem ég talaði við var fljót að laga það atriði. Það var skrifað á brottfararspjaldið að ég ætti að fara í hlið nr 46. Svo var öllu fólkinu vísað á hlið 48 og loks á hlið 55. Flugvélin skilaði sér of seint vegna rigningar. Samt var fólkið rekið inn og svo var haldið af stað. Þá kom í ljós að flugstjórinn hélt að hann væri Eddie Irvine endurborinn og gaf allt í botn. Fyrir bragðið vorum við ekki tuttugu mínútum á eftir áætlun á áfangastað, heldur tíu mínútum fyrir áætlaðan lendingartíma. Hann hefði samt mátt lenda aðeins mjúklegar í Berlín.
Þegar ég var komin upp á hótel, búin að taka það verðmætasta upp úr töskunum og skrifa athugasemd þess efnis að ég væri komin draumastaðinn ákvað ég að fá mér einn lítinn öl fyrir svefninn og rölti niður á bar. Þar sem ég sötraði mitt öl veitti ég þvi athygli að maður einn sem sat við barinn, missti kort úr veskinu sínu án þess að taka eftir því. Ég rölti því yfir til kappans og rétti honum greiðslukortið hans. Nú er ég ekki lengur aðeins hreyfð af öli, heldur vel drukkin á kostnað mannsins sem endurheimti greiðslukortið sitt.
miðvikudagur, apríl 30, 2008
1. maí 2008 - Ferðasaga
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:50
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli