sunnudagur, apríl 13, 2008

13. apríl 2007 - Af refsigleði bloggsamfélagsins

Stundum blöskrar mér refsigleði fáeinna bloggritara sem ég hefi lesið og skiptir þá ekki máli hvort einhver hafi litið af hraðamælinum hjá sér til að fylgjast með umferðinni og gleymt sér augnablik eða hvort einhver hafi talið hundinn Lúkas pyntaðan til ólífis.

Þar sem ég er ekki fylgismanneskja harðari refsinga tel ég að ef endurskoða eigi refsilöggjöfina, eigi að gera það í heild sinni en ekki taka út einstöku refsiákvæði og þyngja þau sem veldur í framhaldinu innbyrðis skekkju í refsidómum samfélagsins. Þannig var þynging refsinga í fíkniefnamálum ákaflega varhugaverð á sínum tíma því hún gat kallað á breytt hegðunarmunstur afbrotamanna, en sá sem sér fyrir sér 12 ára dóm fyrir fíkniefni mun hugsanlega meta hvort það borgi sig að myrða til að sleppa við dóm sem gefur af sér 16 ára fangelsi.

Í fyrradag var ungur maður dæmdur til 7 ára fangelsisvistar af undirrétti í Færeyjum. Ég ætla ekki að deila um hvort sá dómur hafi verið of harður, en mig minnir að höfuðpaurinn í málinu hafi fengið um níu ára dóm á Íslandi fyrir sama brot. Samt snérist hluti bloggsamfélagsins við, fór að aumkvast yfir afbrotamanninn og kallað var í þekktan lögfræðing sem fann dómnum allt til foráttu. Til að fá fram enn frekari samúð var rætt við móður piltsins og málinu þannig gefið tilfinningalegt gildi því auðvitað þykir öllum mæðrum vont að sjá börn sín á bakvið rimla.

Það má svo í framhaldinu velta því fyrir sér hvort þessi tvískinnungur sé vegna þess að pilturinn er íslenskur?

Ef að líkum lætur, mun dómnum verða áfrýjað til Hæstaréttar Danmerkur. Sjálf ætla ég ekkert að segja álit mitt fyrr endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, ekki frekar en á öðrum undirréttardómum sem telja má of þunga eða létta eftir atvikum. Ef þeir sem eru málsaðilar una við dóm sinn er ekkert við því að segja, en annars frestast málið uns Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm.

Því er algjör óþarfi fyrir bloggsamfélagið að hengja dómarana. Þetta breytir auðvitað engu um að hin langa einangrunarvist að óþörfu í gæsluvarðhaldi er forkastanleg og á ekki að líðast í neinu samfélagi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli